Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

359. fundur

Árið 2003, mánudaginn 13. október kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Neðangreind mætt til viðræðna við bæjarráð að eigin ósk.

Til viðræðna við bæjarráð að eigin ósk eru mætt Matthildur Helgadóttir, Guðmundur Hjaltason, María Lárusdóttir, Guðbjartur Ástþórsson og Kolbrún Sverrisdóttir, búsett við Fjarðarstræti og Mánagötu á Ísafirði. Ástæða beiðni þeirra um viðræður við bæjarráð er sá kattafaraldur sem er í og við íbúðarhúsnæði þeirra og gerðu grein fyrir aðstæðum í ákveðnu húsnæði við Fjarðarstræti og umhverfi þess.

2. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 24/9. 34. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 7/10. 81. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 9/10. 18. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Sameiginleg búfjáreftirlitsnefnd Bolungarvíkurkaupstaðar, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps 3/10. 1. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Þróunar- og starfsmenntunarsjóður Ísafjarðarbæjar 7/10. 9. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. - Undirbúningur.

Lögð fram drög að forsendum fyrir gerð fjárhagsáætlunar fjárhagsárið 2004. Bæjarráðs samþykkir að grunnur kostnaðar að frátöldum bundnum liðum hækki að meðaltali um 2,5% frá fjárhagsáætlun 2003 og grunnur tekna að frátöldum bundnum liðum hækki að meðaltali um 3% frá fjárhagsáætlun 2003. Bryndís G. Friðgeirsdóttir óskaði bókaða hjásetu sína.

4. Bréf bæjartæknifræðings. - Neðri Tunga. 2003-01-0079.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, bæjartæknifræðings, dagsett 10. október s.l., varðandi Neðri Tungu í Skutulsfirði, mörkun lóðar um íbúðarhúsið og hugsanlega framtíð útihúsanna.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga merkt A, um lóð fyrir íbúðarhúsið að Neðri Tungu og útihúsin verði samþykkt. Jafnframt leggur bæjarráð til að íbúðarhúsið og útihúsin verði auglýst til sölu, eftir samþykkt tillögu um lóðir.

5. Bréf bæjartæknifræðings. - Kirkjugarðurinn í Holti, Önundarfirði. 2003-05-0054.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, bæjartæknifræðings, dagsett 9. október s.l., varðandi kirkjugarðinn í Holti, Önundarfirði, fyrirhugaðar framkvæmdir þar og skyldur sveitarfélaga gagnvart kirkjugörðum. Með bréfi bæjartæknifræðings er afrit af bréfi sóknarnefndar Holtssóknar frá 17. maí 2003, þar sem óskað er eftir heimild til framkvæmda og þeim lauslega lýst.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að skrifa Kirkjugarðaráði og Samb. ísl. sveitarf. varðandi viðmiðunarreglur sem lög nr. 36/1993 kveða á um.

6. Bréf frá Hnit hf. - Loftmyndataka. 2003-10-0018.

Lagt fram bréf frá Hniti hf., Reykjavík, dagsett 7. október s.l., þar sem fyrirtækið vekur athygli á loftmyndatöku fyrirtækisins í sumar, sem og undanfarin sumur, meðal annars ágætum lágflugsmyndum af Suðureyri og Flateyri, sem og eldri myndum af Ísafirði og Hnífsdal. Fyrirtækið vill með bréfinu vekja athygli á þjónustu sinni.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar.

7. Bréf Siglingastofnunar. - Hafnsögubáturinn Þytur sknr. 1191. 2002-11-0064.

Lagt fram bréf frá Siglingastofnun dagsett 8. október s.l., er varðar hafnsögubátinn Þyt sknr. 1191, ásamt skoðunarskýrslu um ástand bátsins dagsettri 3. júlí 2002. Í bréfinu kemur fram að báturinn hefur verið og er með takmarkað haffærnisskírteini.

Bæjarráð þakkar bréf Siglingastofnunar og vísar því til hafnarstjórnar til kynningar.

8. Bréf Kómedíuleikhússins. - Styrkbeiðni. 2003-10-0019.

Lagt fram bréf frá Kómedíuleikhúsinu dagsett 8. október s.l., þar sem óskað er eftir styrk til uppfærslu á einleik um Stein Steinar. Áætlað er að frumsýna verkið í Hömrum á Ísafirði í nóvember n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

9. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Úttekt leiksvæða og leiktækja. 2003-07-0005.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 3. október s.l., er varðar skýrslu um úttekt á leiksvæðum og leiktækjum í sex sveitarfélögum á Vestfjörðum sumarið 2003. Bréfinu fylgir ofangreind skýrsla.

Bæjarráð vísar erindinu til íþrótta- og æskulýðsnefndar. Bæjarráð óskar eftir úttekt á stöðu þessara mála hjá Ísafjarðarbæ í dag.

10. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Brotajárn á Þingeyri. 2003-10-0011.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 3. október s.l., er varðar brotajárn á Þingeyrarodda. Brotajárnið tilheyrir þrotabúi Byggingarlistar á Þingeyri og þar sem skiptasjóri þrotabúsins hefur ekki orðið við tilmælum Heilbrigðiseftirlits um að fjarlægja brotajárnið felur Heilbrigðiseftirlitið Ísafjarðarbæ að hreinsa lóðina við Hafnarstræti 24, Þingeyri.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar og fjármálastjóra. Bæjarráð leggur áherslu á að fjármagn vegna kostnaðar verði tryggt.

11. Bréf Fjármálaeftirlits. - Reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherja. 2003-07-0052.

Lagt fram bréf frá Fjármálaeftirliti dagsett 30. september s.l., þar sem fram kemur að Fjármálaeftirlitið hefur staðfest reglur Ísafjarðarbæjar um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherja og að þær uppfylli skilyrði 51. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Lagt fram til kynningar.

12. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 706. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 706. stjórnarfundi er haldinn var að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík þann 19. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar janúar - ágúst 2003. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 10. október s.l., mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar tímabilið janúar-ágúst 2003.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð óskar eftir gögnum í tengslum við yfirstandandi endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2003.

14. Erindi frá bæjarstjórn. - 3. liður fundargerðar umhverfisnefndar, efnistaka að Seljalandi í Álftafirði. 2003-09-0016.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 9. október s.l., var 3. lið í fundargerð umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 173. fundi, varðandi beiðni um efnistöku Vegagerðarinnar í landi Seljalands í Álftafirði, vísað til bæjarráðs. Erindinu fylgir umsókn Vegagerðarinnar frá 9. september s.l., ásamt afrit af bréfi Umhverfisstofnunar til Súðavíkurhrepps um málið.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu umhverfisnefndar.

15. Erindi frá bæjarstjórn. - 4. liður fundargerðar umhverfisnefndar, forkaupsréttur að Neðsta-Hvammi 3, Dýrafirði. 2003-09-0018.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 9. október s.l, var 4. lið í fundargerð umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 173. fundi, varðandi forkaupsrétt að Neðsta-Hvammi 3, Dýrafirði, vísað til bæjarráðs. Erindið hafði áður verið sent frá bæjarráði til umsagnar umhverfisnefndar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forkaupsrétti verði hafnað.

16. Gróðurmold er fellur til við framkvæmdir í Ísafjarðarbæ. 2003-10-0022.

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni, bæjartæknifræðingi, dagsett 9. október s.l., þar sem hann, af gefnu tilefni, gerir grein fyrir ráðstöfunum tæknideildar þegar til fellur lífrænn jarðvegur (gróðurmold) við framkvæmdir á vegum Ísafjarðarbæjar.
Jafnframt er lagt fram bréf Kubbs ehf., Ísafirði, framkvæmdaaðila við gatnagerð á Skeiði, svar við fyrirspurn verkkaupa um ráðstöfun á uppúrtökuefni.
Í ofangreindum bréfum kemur fram að gróðurmold, sem til féll við framkvæmdir á Skeiði, hefur verið tekin til hliðar til síðari nota.

17. Drög að erindisbréfi fyrir byggingarnefnd vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði. 2002-44-0049.

Lögð fram drög að erindisbréfi fyrir byggingarnefnd vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að erindisbréfið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru við afgreiðslu bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.