Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

358. fundur

Árið 2003, þriðjudaginn 7. október kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2004.

Lögð fram drög að vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004, sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, fór yfir. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlögð drög að vinnuferli fyrir fjárhagsáætlun ársins 2004.

2. Fundargerðir nefnda.

Almannavarnarnefnd 30/9.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 1/10. 173. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Þróunar- og starfsmenntunarsjóður Ísafjarðarbæjar 15/9. 7. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Þróunar- og starfsmenntunarsjóður Ísafjarðarbæjar 30/9. 8. fundur.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að breytingar á úthlutunarreglum fyrir Þróunar- og starfsmenntunarsjóð verði samþykktar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Endurskoðuð drög að samþykkt um kattahald í Ísafjarðarbæ. 2003-03-0034.

Lögð fram endurskoðuð drög að samþykkt um kattahald í Ísafjarðarbæ. Drögin voru áður lögð fyrir 357. fund bæjarráðs og þar vísað til bæjarstjóra til frekari skoðunar.

Bæjarráð vísar drögum að samþykkt um kattahald til fyrri umræðu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að aðgerðum til fækkunar villikatta í Ísafjarðarbæ verði haldið áfram.

4. Tónlistarskólamál. - Nemendur með lögheimili utan Reykjavíkur. 2003-04-0017.

Lagt fram að nýju í bæjarráði mál er varðar gjaldtöku Reykjavíkurborgar fyrir nemendur í tónlistarskólum í Reykjavík, nemendur með lögheimili utan Reykjavíkur. Afgreiðslu málsins var frestað á 357. fundi bæjarráð.

Meirihluti bæjarráðs stendur við fyrri ákvörðun sína um að greiða ekki með nemendum í tónlistarnámi á framhaldsstigi, sem stunda nám í Reykjavík. Eins og stendur er enginn nemandi frá Ísafjarðarbæ í slíku námi. Þessi ákvörðun verður endurskoðuð um áramót, en þá á að liggja fyrir niðurstaða í viðræðum ríkis og sveitarfélaga um yfirtöku ríkisins á tónlistarnámi á framhaldsskólastigi. Það er eindregin afstaða meirihluta bæjarráðs, að þetta verkefni eigi alfarið að vera á hendi ríkisins.

Bryndís G. Friðgeirsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun. ,,Ítreka tillögu mína frá síðasta fundi bæjarráðs, um að samþykkja tillögu fræðslunefndar og skora á bæjarstjórn að láta ágreining milli ríkis og sveitarfélaga ekki bitna á nemendum með lögheimili í Ísafjarðarbæ, sem hyggjast stunda tónlistarnám á framhaldsstigi í Reykjavík."

5. Drög að breyttum reglum um húsnæði fyrir starfsmenn Ísafjarðarbæjar. 2003-10-0010.

Lögð fram drög að breyttum reglum um húsnæði fyrir starfsmenn Ísafjarðarbæjar. Núgildandi reglur voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 19. mars 1998.

Bæjarráð vísar drögum að breyttum reglum um húsnæði fyrir starfsmenn Ísafjarðarbæjar til afgreiðslu í bæjarstjórn.

6. Bréf bæjarstjóra. - Erindi lögð fram á fundi með fjárlaganefnd þann 29. september 2003. 2003-09-0050.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 1. október s.l., ásamt eintaki af fjárlagaerindum Ísafjarðarbæjar, er lögð voru fyrir fjárlaganefnd á fundi bæjarstjóra og formanns bæjarráðs með nefndinni þann 29. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 26. september 2003.  2002-01-0184.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 29. september s.l., ásamt fundargerð 38. fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 26. september s.l. Bréfinu fylgir listi yfir þau fyrirtæki í Ísafjarðarbæ, sem fengið hafa heimsóknir á árinu og sveitarfélagið getur innheimt eftirlitsgjöld af.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Heimildarákvæði um tekjustofna sveitarfélaga. 2003-09-0085.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 26. september s.l., er varðar heimildarákvæði 4. og 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í bréfinu vill sambandið vekja athygli allra sveitarfélaga á meðfylgjandi úrskurðum félagsmálaráðuneytis frá 3. júlí og 20. ágúst 2003.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:53

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.