Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

351. fundur

Árið 2003, mánudaginn 11. ágúst kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 30/7. 171. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Félags eldri borgara. - Hækkun eftirlaunaaldurs. 2003-07-0060.

Lagt fram bréf frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni til atvinnurekenda dagsett 29. júlí s.l., varðandi hækkun eftirlaunaaldurs í 72 ár og áskorun til atvinnurekenda um að gefa fólki kost á sveigjanlegum eftirlaunaaldri, svo sem með hlutastörfum 64-74 ára. Bréfinu fylgir grein úr fylgiriti Landlæknisembættisins frá 1991.

Lagt fram til kynningar.

3. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Stofnframlag til framkvæmda við grunnskóla á árinu 2003. 2003-07-0054.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 21. júlí s.l., varðandi úthlutun stofnframlaga til framkvæmda við grunnskóla á árinu 2003, í sveitarfélögum sem hafa fleiri en 2000 íbúa. Í hlut Ísafjarðarbæjar koma á þessu ári kr. 8.000.000.- til framkvæmda við Grunnskólann á Ísafirði.
Jafnframt kemur fram í ofangreindu bréfi að fulltrúar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa skoðað innsend gögn vegna grunnskólabyggingar á Ísafirði og niðurstaðan er sú, að 20% kostnaðarþátttaka Jöfnunarsjóðs sé kr. 43.194.314.- samkvæmt meðfylgjandi gögnum.

Bæjarráð vísar erindinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu og fjármálastjóra.

4. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. - Ferð stjórnar um Djúp.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 5. ágúst s.l., þar sem greint er frá ferð stjórnar við Djúp þann 27. ágúst n.k. Af því tilefni vill stjórn félagsins boða til fundar með bæjar- og sveitarstjórnum sveitarfélaga við Djúp þann dag kl. 17:10 á Hótel Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að boða bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar til fundarins. Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla upplýsinga um dagskrá fundarins.

5. Bréf Jónínu Ólafar Emilsdóttur. - Beiðni um lausn frá setu í umhverfisnefnd.

Lagt fram bréf frá Jónínu Ólöfu Emilsdóttur dagsett 1. ágúst s.l., þar sem hún óskar eftir lausn frá störfum í umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar frá og með 25. ágúst n.k., vegna flutnings úr bæjarfélaginu.

Bæjarráð samþykkir beiðni um lausn frá nefndarstarfi í umhverfisnefnd og þakkar Jónínu fyrir vel unnin störf fyrir Ísafjarðarbæ.

6. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Að loknu Unglingalandsmóti UMFÍ 2003.

Lagt fram bréf Héraðssambands Vestfirðinga dagsett 7. ágúst s.l., þar sem stjórn félagsins færir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og starfsmönnum bæjarfélagsins sérstakar þakkir fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja, undirbúning og lipra og góða þjónustu vegna Unglingalandsmóts UMFÍ 2003, er haldið var hér á Ísafirði dagana 1. - 3. ágúst s.l.

Bæjarráð þakkar Héraðssambandi Vestfirðinga fyrir mjög góðan undirbúning og framkvæmd á Unglingalandsmóti UMFÍ 2003 svo og öllum þeim félögum og einstaklingum er að móti þessu kom.
Bæjarráð vill jafnframt þakka þeim fjölmörgu gestum og keppendum er sóttu Ísafjörð heim fyrir góða umgengni og prúðmennsku.

7. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Tímabundin hækkun á framlagi í fjölskyldu- og styrktarsjóð.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 6. ágúst s.l., er varðar tímabundina hækkun á framlagi í fjölskyldu- og styrktarsjóð. Viðbótarframlag verður 0,12% og verður innt af hendi tímabilið 1. september 2003 til og með 31. ágúst 2004.

Bæjarráð vísar erindinu til fjármálastjóra og launafulltrúa.

8. Bréf Íbúðalánasjóðs. - Endurskoðaðar verklagsreglur.

Lagt fram bréf Íbúðalánasjóðs dagsett 6. ágúst s.l., þar sem greint er frá að sjóðurinn hafi yfirfarið og endurskoðað þær verklagsreglur sínar er varða frágang móttekinna skjala í tengslum við lánveitingar sjóðsins út á fasteignaviðskipti, skipti á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf og fleira þessu tengt. Hjálagt bréfinu fylgja verklagsreglur ásamt sýnishorni af umboði til staðgengils bæjarstjóra/sveitarstjóra eða þess starfsmanns sveitarfélagsins sem hefur slík verkefni með höndum.

Bæjarráð vísar bréfinu til Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

9. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla janúar - maí 2003. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 30. júlí s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestinga tímabilið janúar - maí 2003.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf fjármálastjóra. - Reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 6. ágúst s.l., er varðar setningu reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Erindi bréfsins er vegna tilmæla Fjármálaeftirlits í bréfi þann 25. júlí s.l., um að Ísafjarðarbær setji sér reglur um innherjaupplýsingar og viðskipti innherja og skipi sér regluvörð.

Bæjarráð samþykkir fram lagðar reglur og samþykkir jafnframt að skipa Þórir Sveinsson, fjármálastjóra, sem regluvörð Ísafjarðarbæjar.

11. Erindi vegna álagninga gjalda. - Trúnaðarmál.

Tekið fyrir erindi einstaklings vegna álagninga Ísafjarðarbæjar á fasteignagjöldum ársins 2003 og væntanlegrar álagningar á næsta ári. Farið er með erindið sem trúnaðarmál í bæjarráði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afgreiða málið.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.