Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

350. fundur

Árið 2003, mánudaginn 28. júlí kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 22/7. 10. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 24/7. 56. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
5. liður. Þar sem sveitarfélögin Ísafjarðarbær, Bolungurvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur eru orðin sameiginlegt búfjáreftirlitssvæði samþykkir bæjarráð tillögu landsbúnaðarnefndar um uppsögn ráðinna búfjáreftirlitsmanna, aðal- og varamanns. Bæjarráð telur mikilvægt að búfjáreftirlitsnefnd taki til starfa og búfjáreftirlitsmaður verði ráðinn fyrir svæðið.
Aðrir liðir fundargerðinnar lagðir fram til kynningar.

2. Lögfræðiskrifstofa Inga Tryggvasonar ehf – greiðslustöðvun Þórðar Jónssonar ehf. 2003-07-0043.

Lagt fram bréf frá Lögfræðiskrifstofu Inga Tryggvasonar ehf, dagsett 18. júlí s.l., þar sem tilkynnt er um úrskurð Héraðsdóms Vestfjarða að fyrirtækinu Þórði Jónssyni ehf, Bíldudal, hafi verið veitt greiðslustöðvun.

Bæjarráð vísar erindinu til fjármálastjóra.

3. Bæjarritari – rekstur upplýsingamiðstöðvar á Þingeyri. 2003-07-0047.

Lagt fram minnisblað ásamt fylgiskjölum frá Þorleifi Pálssyni, bæjarritara, dagsett 22. júlí s.l., varðandi rekstur upplýsingamiðstöðvar á Þingeyri, sbr. 2. lið fundargerðar atvinnumálanefndar frá 17. júlí s.l.

Bæjarráð vísar erindinu til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2003.

4. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands – aðalfundur fulltrúaráðs. 2003-07-0021.

Lagt fram bréf frá Önnu Sigurðardóttur, framkv.stj. Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands dagsett 10. júlí s.l., um boðun aðalfundar fulltrúaráðs eignarhaldsfélagsins sem haldinn verður á Hótel Kea, Akureyri, föstudaginn 3. október nk.

Bæjarráð vísar erindinu til kjörinna fulltrúa Ísafjarðarbæjar.

5. Veitingarstaðurinn "Á Eyrinni" – umsókn um sölutjald. 2003-07-0045.

Lagt fram bréf frá Árna B. Ólafssyni og Auði E. Ásbergsdóttur, fh. Veitingarstaðarins "Á Eyrinni", dagsett þann 24. júlí s.l., þar sem sótt er um leyfi til að setja upp sölutjald á grasfleti við Hafnarstræti 17, Ísafirði, dagana 31. júlí til 3. ágúst nk.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið en tekur ekki afstöðu til staðsetningar sölutjaldsins og vísar erindinu til umhverfisnefndar sem heldur fund nk. miðvikudag.

6. Fjórðungssamband Vestfirðinga – fjórðungsþing. 2003-06-0011.

Lagt fram bréf frá Ingimari Halldórssyni, framkv.stj. Fjórðungssambands Vestfirðinga, dagsett 22. júlí s.l., þar sem boðað er til 48. Fjórðungsþings Vestfirðinga haldið í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp dagana 5. og 6. sept. nk.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar, sem tilkynni þátttöku sína til bæjarritara.

7. Sýslumaðurinn á Ísafirði – löggæslukostnaður á unglingalandsmóti UMFÍ. 2003-07-0049.

Lagt fram afrit af bréfi Sýslumannsins á Ísafirði til Ungmennafélags Íslands, dagsett 22. júlí s.l., þar sem gerð er krafa um greiðslu hluta löggæslukostnaðar vegna unglingalandsmóts UMFÍ á Ísafirði dagana 1. til 3. ágúst nk.

Lagt fram til kynningar.

8. Forstöðumaður SFS – brunavarnir í Grunnskólanum á Þingeyri. 2003-02-0048.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjali frá Ingibjörgu M. Guðmundsdóttur, forst.m. Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 25. júlí s.l., varðandi brunavarnir í Grunnskólanum á Þingeyri. Óskað er eftir 760.500 kr. aukafjárveitingu vegna endurbóta á brunavörnum í skólanum.

Bæjarráð heimilar framkvæmdina og vísar fjármögnun verkefnisins til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2003.

9. Forstöðumaður SFS – kerfisstjóri fyrir leik- og grunnskóla Ísafjarðarbæjar. 2003-07-0046.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum frá Ingibjörgu M. Guðmundsdóttur, forst.m. Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 25. júlí s.l., þar sem óskað er leyfis fyrir nýju stöðugildi kerfisstjóra við leik- og grunnskóla frá og með 1. sept. nk.

Bæjarráð felur fjármálastjóra, sem fer með tölvumál sveitarfélagsins, að meta þörf fyrir kerfisstjóra við leik- og grunnskóla, og felur honum að gera nýja úttekt á stöðu tölvumála hjá Ísafjarðarbæjar.

10. Umræða um línuívilnun og byggðakvóta.

Ragnheiður Hákonardóttir, bæjarfulltrúi, greindi frá umræðu um línuívilnun og lýsti yfir áhyggjum sínum vegna þeirra hugmynda sjávarútvegsráðherra, sem heyrst hafa, um að draga úr vægi áherslna á línuívilnun og byggðakvóta sem greint er frá í málefnasamningi ríkisstjórnarflokkanna.

Bryndís G. Friðgeirsdóttir, bæjarfulltrúi, lét bóka eftirfarandi:
"Áhyggjur bæjarfulltrúa Ragnheiðar Hákonardóttur eru réttmætar enda er stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sjávarútvegsmálum eitt mesta ranglæti Íslandssögunnar þar sem örfáum aðilum eru tryggð afnot af auðlind sjárvarins. Þessir örfáu aðilar sem fá að gjöf frá íslenska ríkinu hundruði milljóna króna í formi fiskveiðiheimilda geta á einni nóttu flutt þau verðmæti á brott úr byggðalaginu og svipt þar með fjölda manns atvinnu."

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga um stöðu málsins.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:10.

Þórir Sveinsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttur. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.