Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

348. fundur

Árið 2003, mánudaginn 7. júlí kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 3/7. 31. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 30/6. 78. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Bæjarráð staðfestir samþykktir hafnarstjórnar.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

2. Kosning í byggingarnefnd Byggðasafns Vestfjarða.

Eftirtaldir aðilar eru tilnefndir í bygginganefnd fyrir nýbyggingu Byggðasafns Vestfjarða frá meirihluta bæjarstjórnar Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Björgmundur Ö. Guðmundsson, sem aðalmenn og Borgný Gunnarsdóttir og Geir Sigurðsson, sem varamenn. Minnihluti óskaði eftir fresti á tilnefningu til næsta fundar bæjarráðs og var það samþykkt.

3. Gamla Apótekið. - Útskýringar á uppgjöri. 2002-09-0013.

Lagt fram bréf frá forstöðumanni Gamla Apóteksins Halldóri Hlöðverssyni, dagsett 2. júlí s.l., svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 4. júní s.l., þar sem óskað var eftir greinargerð frá Gamla Apótekinu um stöðu rekstrar og fjárhags með hliðsjón af fjárveitingum Svæðisráðs Rk-deildar á Vestfjörðum og ríkissjóðs.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til fjármálastjóra til kynningar.

4. Bréf umhverfisráðuneytis. - Bygging leiðigarðs í Seljalandsmúla. 2003-05-0034.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 27. júní s.l., varðandi byggingu leiðigarðs undir Seljalandsmúla á Ísafirði. Í bréfinu er fallist á tillögu Ísafjarðarbæjar um að fjármagni er veita átti til lagninar rafstrengs að Skíðheimum verði notað til uppkaupa á húsinu. Jafnframt er fallist á þá tillögu Ísafjarðarbæjar að raflína frá framkvæmdasvæði snjóflóðavarnargarðs að aðveitustöð í Stóruurð verði grafin í jörð.

Bæjarráð vísar bréfinu til bæjartæknifræðings og umhverfisnefndar.

5. Bréf umhverfisráðuneytis. - Uppkaup rústa við Grænagarð. 2003-03-0049.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 13. júní s.l., varðandi uppkaup rústa við Grænagarð á Ísafirði. Í bréfinu er beiðni Ísafjarðarbæjar frá 7. maí s.l., um uppkaup rústa húsa við Grænagarð á Ísafirði hafnað þar sem um iðnaðarhúsnæði var að ræða ekki íbúðarhúsnæði.

Bæjarráð vísar bréfinu til bæjartæknifræðings til kynningar og felur bæjarstjóra að tilkynna eigendum rústa við Grænagarð um afgreiðslu umhverfisráðuneytis.

6. Bréf Magnúsar Þorkelssonar. - Kirkjugarðurinn að Kirkjubóli í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf Magnúsar Þorkelssonar, Lyngbergi 17, Hafnarfirði, dagsett 1. júlí s.l., þar sem hann fer þess á leit við Ísafjarðarbæ, að bærinn kaupi uppgraftrarskýrslu hans, eitt eða fleiri eintök, er unnin var eftir uppgröft kirkjugarðsins á Kirkjubóli í Skutulsfirði sumarið 1985.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

7. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Leiksvæði og leiktæki í Ísafjarðarbæ. 2003-07-0005.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 30. júní s.l., er varðar úttekt á öryggi leiksvæða við leikskóla, skóla og opin svæði í Ísafjarðarbæ. Í ljós kemur í bréfinu að gerðar eru athugasemdir við flest leiksvæði og leikvelli er skoðaðir voru.

Bæjarráð vísar bréfi Heilbrigðiseftirlits til fræðslunefndar og íþrótta- og æskulýðsnefndar til meðferðar og til bæjartæknifræðings og skólastjórnenda til kynningar. Bæjarráð leggur áherslu á að farið verði nú þegar í þær endurbætur er Heilbrigðiseftirlitið bendir á í ofangreindu bréfi.

8. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Tilnefning í nefnd um flutning raforku ofl. 2002-02-0044.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 1. júlí s.l., svar til Ísafjarðarbæjar vegna tilnefningar stjórnar Samb. ísl. sveitarf. í nefnd til þess að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku og uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku.

Lagt fram til kynningar.

9. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 704. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 704. stjórnarfundi er haldinn var þann 20. júní s.l., að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

10. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Starfsleyfi fyrir fiskeldi. 2003-06-0081.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 26. júní s.l., er varðar umsókn Álfsfells ehf., Ísafirði, um leyfi til fiskeldis í Skutulsfirði fyrir allt að 199 tonna eldi.

Lagt fram til kynningar.

11. Holtssókn. - Kirkjugarðurinn í Holti í Önundarfirði. 2003-05-0054.

Lögð fram kostnaðaráætlun frá Holtssókn dagsett 4. júní s.l., varðandi endurbætur á kirkjugarðinum í Holt í Önundarfirði. Áætlaður kostnaður er samtals kr. 4.907.000.- Áætlunin er fram lögð í framhaldi af bréfi sóknarnefndar Holtssóknar frá 17. maí s.l., er fram var lagt á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 26. maí s.l., þar sem bæjarráð fól bæjarstjóra að funda með fulltrúum Holtssóknar.

Bæjarráð telur sér ekki fært að taka afstöðu til endurbóta á kirkjugarðinum í Holti í Önundarfirði út frá þeirri kostnaðaráætlun er hér liggur fyrir. Bæjarráð vísar kostnaðaráætluninni til umsagnar bæjartæknifræðings.

12. Önnur mál.

Magnús Reynir Guðmundsson óskaði eftir að leggja fram svohljóðandi bókun í bæjarráði er tengist væntanlegri sölu húseigna að Bræðratungu í Skutulsfirði.
,,Vegna frétta um að félagsmálaráðuneytið hyggst selja Bræðratungu þjálfunar- og þjónustumiðstöð fatlaðra í Tungu, fyrir rúmlega 30 milljónir króna vill undirritaður taka eftirfarandi fram:
1. Félagsmálaráðuneytinu er full kunnugt um að sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa undir foristu Fjórðungssambands Vestfirðinga, óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um að þau yfirtaki málefni fatlaðra í fjórðungnum af ríkissjóði.
2. Ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um með hvaða hætti málefni þeirra einstaklinga, sem nú njóta þjónustu í Bræðratungu, verða leyst eftir að starfsemi þar verður lögð niður.
3. Húsnæði Bræðratungu er óvenju vönduð bygging, um 1000 m2 að flatarmáli, sem stendur í friðsælu og fögru umhverfi. Lóð umhverfis húsið er fullfrágengin og aðgengileg hreyfihömluðu fólki. Ef sú yrði raunin, að hætt yrði að nota Bræðratungu í þágu fatlaðra, mætti hugsa sér að þar yrði einhverskonar þjónusta fyrir aldraða t.d. þjónustu- eða hjúkrunarheimili.
4. Það er óskiljanlegt að félagsmálaráðuneytið skuli ekki hafa samráð við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áður en tekin er ákvörðun um sölu á Bræðratungu, sem að stórum hluta var byggð með stuðningi fjölmargra Vestfirðinga.
5. Undirrtaður telur að áður en til sölu á Bræðratungu komi þurfi að liggja fyrir niðurstaða úr viðræðum sveitarfélaganna og ríkisins um hugsanlega yfirtöku sveitarfélaganna á málaflokknum og jafnframt hvort húsnæði Bræðratungu geti hentað Ísafjarðarbæ til annarrar starfsemi en í þágu fatlaðra."
Undirritað af Magnúsi Reyni Guðmundssyni.

Birna Lárusdóttir óskaði eftir að leggja fram svohljóðandi bókun við bókun Magnúsar Reynis Guðmundssonar.
„Það er skoðun mín að málefnum fatlaðra á Vestfjörðum hafi verið stýrt með sóma og eftir skýrri stefnumótun mörg undangengin ár. Það hefur lengi verið stefnt að því að flytja starfsemi málaflokksins frá Bræðratungu og leiða verið leitað til að svo gæti orðið. Sala fasteignanna að Bræðratungu er liður í þeirri stefnu. Í ljósi ofanritaðs og þess að málefni fatlaðra heyra undir ríkisvaldið telur undirrituð það ekki í verkahring sveitarfélagsins að hlutast til um fyrirhugaða sölu á fasteignunum að Bræðratungu.“
Undirritað af Birnu Lárusdóttur.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:15

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.