Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

344. fundur

Árið 2003, þriðjudaginn 10. júní kl. 8:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 4/6. 7. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 3/6. 206. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefndar 5/6. 14. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Stjórn Listasafns Ísafjarðar 3/6.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 3/6. 169. fundur.
Fundargerðin er í sautján liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Bygging íþróttahúss og framtíðarnotkun félagsheimilisins á Suðureyri.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 5. júní s.l., varðandi lokaskýrslu starfshóps um byggingu íþróttahúss og framtíðarnotkun félagsheimilisins á Suðureyri. Í bréfinu gerir bæjarstjóri grein fyrir ýmsum hlutum er fram hafa komið eftir að lokaskýrslan var lögð fram. Vegna margra óvissuþátta vill bæjarstjóri koma eftirfarandi á framfæri.
Stefnt verði að byggingu fjölnota íþróttahúss á Suðureyri í stað íþróttasalar.
Samið verði við félagasamtök á staðnum um að þau eignist félagsheimilið til rekstrar.
Félagasamtökin fá ákveðna fjárhæð til að laga félagsheimilið í þeirri mynd sem það nú er í eða með því að halda einungis elsta hluta þess og anddyri eftir.
Stefnt verði að því að bjóða byggingu fjölnota íþróttahúss á Suðureyri út sem alútboð.

Bæjarráð mælir með við bæjarstjórn að farið verði í undirbúningsvinnu við alútboð fjölnota íþróttahúss á Suðureyri. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við félagasamtök á Suðureyri varðandi framtíð félagsheimilisins.

3. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - 48. Fjórðungsþing. 2003-06-0011.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 27. maí s.l., þar sem tilkynnt er að 48. Fjórðungsþing Vestfirðinga verði haldið dagana 5. og 6. september n.k. í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Atvinnuleysistryggingasjóðs. - Styrkir til sérverkefna 2003. 2003-03-0071.

Lagt fram bréf frá Atvinnuleysistryggingasjóði dagsett 30. maí s.l., þar sem greint er frá afgreiðslu umsókna um styrki til sérstakra verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana. Í bréfinu kemur fram að Ísafjarðarbær hafi hlotið tvö styrkhæf störf í þrjá mánuði vegna endurbóta á tjaldsvæði í Tungudal og þrjú störf í þrjá mánuði vegna merkinga gönguleiða í Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð vísar bréfinu til atvinnu- og ferðamálafulltrúa.

5. Bréf Lögfræðiskrifstofu Tryggva Guðmundssonar. - Forkaupsréttur að Aðalstræti 26a, Ísafirði. 2003-06-0024.

Lagt fram bréf frá Lögfræðiskrifstofu Tryggva Guðmundssonar, Ísafirði, dagsett þann 5. júní s.l., þar sem Ísafjarðarbæ er boðinn forkaupsréttur að eigninni Aðalstræti 26a, Ísafirði. Bréfinu fylgir samþykkt kauptilboð að upphæð kr. 6.000.000.-

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

6. Áformsyfirlýsing. - Drög bæjarlögmanns.

Lögð fram drög að áformsyfirlýsingu er samin er af Andra Árnasyni, hrl., bæjarlögmanni, vegna erindis Berghyls ehf.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

7. Bréf Sögufélags Ísfirðinga. - Minnisvarði vélvæðingar bátaútgerðar. 2003-06-0002.

Lagt fram bréf frá Sögufélagi Ísfirðinga dagsett 30. maí s.l., varðandi minnisvarða vegna 100 ára afmælis vélvæðingar bátaútgerðar á Íslandi. Í bréfinu er gerð grein fyrir að valið hafi verið verkið ,,Harpa hafsins" eftir Svanhildi Sigurðardóttur, myndlistamann í London. Sögufélag Ísfirðinga mun hafa forgöngu um, ásamt öðrum aðilum, að verkið verði reist á Ísafirði. Helst er talið að til greina komi svæðið á milli Vallartúns og Skutulsfjarðarbrautar á Torfnesi. Óskað er umsagnar og heimildar Ísafjarðarbæjar um staðarval, en hugmyndin er að verkið verði afhjúpað á komandi hausti.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til afgreiðslu.

8. Afrit bréfs Ísafjarðarbæjar til Sjóvá-Almennra. 2003-05-0049.

Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til Sjóvá-Almennra trygginga hf., dagsett 4. júní s.l., þar sem bæjarstjóri svarar fyrirspurn Sjóvá-Almennra um tryggingar Ísafjarðarbæjar, með tilvísun til fyrirspurnar í bréfi þeirra frá 16. maí s.l.

Lagt fram til kynningar.

9. Afrit bréfs dóms- og kirkjumálaráðuneytis til sýslumannsins á Ísafirði. Kostnaður björgunaraðgerða. 2003-05-0068.

Lagt fram afrit af bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsett 2. júní s.l., til sýslumannsins á Ísafirði, þar sem ráðuneytið svarar fyrirspurn sýslumanns um hver greiða skuli kostnað við leit og björgunaraðgerðir. Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að kostnaður falli á viðkomandi lögreglusjóraembætti, enda yfirstjórn leitar og björgunar á höndum lögreglustjóra á hverjum stað.

Lagt fram til kynningar.

10. Afrit bréfs menntamálaráðuneytis til MÍ. - Ráðstöfun andvirðis Árholts 5, Ísafirði. 2002-09-0033.

Lagt fram afrit af bréfi menntamálaráðuneytis til Menntaskólans á Ísafirði, dagsett þann 2. júní s.l., þar sem ráðuneytið gerir grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi ráðstöfun söluandvirðis Árholts 5, Ísafirði. Í lok bréfsins hafnar ráðuneytið að hluta söluandvirðis verði ráðstafað til sveitarfélaga er að Menntaskólanum á Ísafirði standa.

Lagt fram til kynningar.

11. Afrit bréfs Skóla- og fjöldkylduskrifstofu til Stjórnarnefndar um málefni fatlaðra. 2003-03-0106.

Lagt fram afrit af bréfi Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 3. júní s.l., til Stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, varðandi hlutverkaskipti ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fötluð börn. Bæjarráð fól á fundi sínum þann 2. júní s.l., forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu að rita Stjórnarnefndinni þetta bréf.

Lagt fram til kynningar.

12. Impra nýsköpunarmiðstöð. - Brautargengi 2003, styrkbeiðni. 2003-06-0026.

Lagt fram bréf frá Impru nýsköpunarmiðstöð dagsettu 4. júní s.l., þar sem greint er frá námskeiðinu ,,Brautargengi" er hefst á Akureyri, Egilstöðum og Ísafirði á komandi hausti. Tilgangur námskeiðsins er m.a. að hvetja konur til framgangs í íslensku viðskiptalífi og stuðla að jafnvægi í fyrirtækjarekstri milli kvenna og karla. Í bréfinu er óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ að upphæð kr. 400.000.- til að stuðla að atvinnuuppbyggingu kvenna á svæði Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar atvinnumálanefndar.

13. Bréf Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Vestfjörðum. - Fyrirspurn frá bæjarráði vegna auglýsingar er varðar sölu Bræðratungu á Ísafirði. 2002-07-0049.

Lagt fram bréf frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Vestfjörðum dagsett þann 4. júní s.l., varðandi fyrirspurn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar um auglýsingu er varðar sölu Bræðratungu á Ísafirði.

Bæjarráð þakkar svar Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Vestfjörðum. Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 9:20

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.