Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

342. fundur

Árið 2003, mánudaginn 26. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 21/5. 6. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 20/5. 205. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Staðardagskrárnefnd 21/5. 12. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Stjórn Listasafns Ísafjarðar 20/5.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Snjóflóðavarnargarður í Seljalandsmúla. - Bréf frá Framkvæmdasýslu ríkisins. 2003-05-0034.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. maí s.l., varðandi snjóflóðavarnargarð í Seljalandshlíð á Ísafirði. Meðfylgjandi bréfi bæjarstjóra er afrit af bréfi Framkvæmdasýslu ríkisins dagsett 21. maí s.l., þar sem greint er frá tilboðum er bárust í byggingu snjóflóðavarnargarðs í Seljalandshlíð og að FSR leggur til að tilboði Kubbs ehf. og Bílagarðs/Eyrarsteypu ehf., Ísafirði, að upphæð kr. 269.854.900.-, sem er 78,4% af kostnaðaráætlun, verði tekið.
Bæjarstjóri leggur til að tillaga FSR verði samþykkt með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði Kubbs ehf. og Bílagarðs/Eyrarsteypu ehf., Ísafirði, verði tekið.

3. Afrit af bréfi sýslumannsins á Ísafirði til dómsmálaráðuneytis. - Kostnaður vegna björgunaraðgerða. 2003-05-0068.

Lagt fram afrit af bréf sýslumannsins á Ísafirði til dómsmálaráðuneytis dagsett 22. maí s.l., varðandi kostnað vegna björgunaraðgerða. Í bréfinu er meðal annars óskað túlkunar ráðuneytisins á því hver eigi að bera kostnað vegna leigu á tækjum til leitar og björgunar.

Bæjarráð tekur undir fyrirspurn sýslumanns til dómsmálaráðuneytis og bendir á mikilvægi þess að ótvírætt sé hver eigi að standa straum af kostnaði við leit og björgun. Bæjarráð áréttar nauðsyn þess að dómsmálaráðuneytið í samráði við leitar- og björgunaraðila í landinu setji reglur þessu til úrlausnar.

4. Afri af bréfi umhverfisráðuneytis til Stjórnartíðinda. Auglýsing um hættumat fyrir Ísafjörð og Hnífsdal. 2003-05-0053.

Lagt fram afrit af bréfi umhverfisráðuneytis til Stjórnartíðinda dagsett 16. maí s.l., þar sem ráðuneytið óskar birtingar í næsta reglulega hefti B-deildar Stjórnartíðinda á auglýsingu um hættumat sem staðfest hefur verið af umhverfisráðherra fyrir Ísafjörð og Hnífsdal. Auglýsingin er meðfylgjandi á sér blaði.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Sjóvá-Almennra. - Vátryggingar Ísafjarðarbæjar. 2003-05-0049.

Lagt fram bréf frá Sjóvá-Almennum dagsett 16. maí s.l., þar sem fram kemur að félagið hafi haft af því spurnir að Ísafjarðarbær hafi áhuga fyrir að leita tilboða í tryggingar sveitarfélagsins. Með vísan til þess óska Sjóvá-Almennar meðal annars eftir því að fá tækifæri til að gera tilboð í vátryggingarnar fyrir næstu endurnýjun þeirra.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

6. Bréf sóknarnefndar Holtssóknar. - Framkvæmdir við kirkjugarðinn að Holti. 2003-05-00.

Lagt fram bréf frá sóknarnefnd Holtssóknar dagsett 17. maí s.l., varðandi kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum við kirkjugarðinn að Holti í Önundarfirði. Í bréfinu kemur fram að helstu framkvæmdir séu að fjarlægja steyptan kirkjugarðsvegg og setja nýjan, að hluta til hlaðinn og að hluta til viðargirðingu.
Með vísan til laga nr. 36/1993 12. gr. um kirkjugarða óskar sóknarnefndin eftir þátttöku Ísafjarðarbæjar í kostnaði við framkvæmdir og vill gjarnan hitta aðila Ísafjarðarbæjar til að ræða málefnið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að funda með fulltrúum sóknarnefndar Holtssóknar.

7. Bréf deildarstjóra leikskólans Sólborgar. - Starfsmannaráðningar á Sólborg. 2003-05-0066.

Lagt fram bréf frá deildarstjórum leikskólans Sólborgar á Ísafirði dagsett 21. maí s.l., þar sem hörmuð er sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið við ráðningu leikskólastjóra á Sólborg í stað Ingigerðar Stefánsdóttur, leikskólastjóra, sem fengið hefur árs leyfi frá störfum. Telja deildarstjórarnir að auglýsa hefði átt stöðuna, en færa ekki stjórnendur til á milli leikskóla án auglýsingar.
Bæjarstjóri lagði fram á fundinum afrit af bréfi forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu til leikskólans Sólborgar dagsett í dag 26. maí þar sem greint er frá sjónarmiðum forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu við ráðningu til afleysingar leikskólastjóra Sólborgar. Bæjarstjóri lagði jafnframt fram starfsmannastefnu Ísafjarðarbæjar.

Að framlögðum gögnum varðandi málið, telur bæjarráð að viðhlýtandi skýringar um málsmeðferð séu fram komnar.

8. Afrit bréfs Íbúasamtaka Önundarfjarðar til Apóteks Ísafjarðar ehf. 2003-05-0065.

Lagt fram afrit af bréfi Íbúasamtaka Önundarfjarðar til Apóteks Ísafjarðar ehf., dagsett 21. maí s.l., þar sem stjórn Íbúasamtaka Önundarfjarðar skorar á núverandi eigendur Apóteks Ísafjarðar, að endurskoða þá ákvörðun sína að leggja niður lyfsölu á Flateyri.

Bæjarráð tekur undir áhyggjur stjórnar Íbúasamtaka Önundarfjarðar vegna lokunar á lyfsölu á Flateyri. Bæjarráð telur mikilvægt að þjónusta við íbúa Flateyrar og Suðureyrar verði tryggð áfram.

9. Bréf Svanbergs R. Gunnlaugssonar. - Sala jarðarhluta úr landi Granda í Dýrafirði. 2003-05-0062.

Lagt fram bréf frá Svanberg R. Gunnlaugssyni, Aðalstræti 1, Þingeyri, dagsett þann 17. maí s.l., þar sem tilkynnt er að hann hafi ákveðið að selja hluta af landi jarðarinnar Granda í Dýrafirði til Finnboga Bernódussonar, Holtabrún 21, Bolungarvík. Bréfritari óskar svars Ísafjarðarbæjar um hvort sveitarfélagið muni notfæra sér forkaupsrétt sinn við sölu jarðarhlutans. Bréfinu fylgja m.a. drög að kaupsamningi.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar til umsagnar.

10. Bréf Benedikte Thorsteinsson. - ,,Grænlenskar Nætur" á Flateyri. 2002-11-0070.

Lagt fram bréf frá Benedikte Thorsteinsson, Álfholti 44, Hafnarfirði, dagsett þann 12. maí s.l., er varðar ,,Grænlenskar Nætur" á Flateyri dagana 10. - 14. júlí n.k. og hugsanlega aðkomu Ísafjarðarbæjar að þessari hátíð. Meðal gesta á hátíðinni verða einir 18 íbúar frá Nanortalik vinabæ Ísafjarðarbæjar á Grænlandi.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

11. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Úthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra í grunnskólum fjárhagsárið 2003. 2002-11-0045.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 14. maí s.l., varðandi úthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum fjárhagsárið 2003. Fram kemur í bréfinu að framlag til Ísafjarðarbæjar sé á fjárhagsári 2003 kr. 8.680.000.- Frestur til að senda inn leiðréttingar eða ný gögn vegna greiningar á nemendum er gefinn til 30. maí n.k.

Bæjarráð vísar bréfinu til forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu og fjármálastjóra til skoðunar.

12. Bréf stúkunnar Einingar nr. 14. - Minnismerki um Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnadal. 2002-05-0064.

Lagt fram bréf frá stúkunni Einingu nr. 14 Í Reykjavík, þar sem greint er frá að ákveðið hefur verið að reisa minnismerki um Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli í Önundarfirði. Landbúnaðarráðuneytið sem er eigandi jarðarinnar Kirkjubóls hefur fyrir sitt leiti samþykkt að minnismerkið verði staðsett við þjóðveginn í landi Kirkjubóls. Jafnframt er óskað samþykkis Ísafjarðarbæjar varðandi staðarval.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

13. Afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til samgönguráðuneytis. - Beiðni um framlag vegna endurnýjunar á hafsögubát. 2002-11-0064.

Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til samgönguráðuneytis dagsett 8. maí s.l., þar sem óskað er eftir að Hafnir Ísafjarðarbæjar fái 75% styrk úr ríkissjóði til kaupa eða smíði á hafsögubát í samræmi við nýsamþykkt hafnalög.

Lagt fram til kynningar.

14. Afrit bréfs Grunnskólans á Ísafirði til menntamálaráðuneytis. 2003-05-0046.

Lagt fram afrit af bréfi Grunnskólans á Ísafirði til menntamálaráðuneytis dagsett þann 19. maí s.l., er varðar svör skólastjóra GÍ vegna athugasemda ráðuneytisins á vikulegum kennslustundafjölda í skólanum skólaárið 2001-2002.

Bæjarráð vísar bréfinu til Skóla- og fjöldkylduskrifstofu. Lagt fram til kynningar.

15. Bréf íbúa í Dýrafirði. - Menningarhús. 2003-05-0071.

Lagt fram bréf undirritað af um áttatíu íbúum í Dýrafirði, dagsett þann 15. maí s.l., þar sem íbúarnir eru að vekja athygli bæjaryfirvalda á húsi Íslandspósts á Þingeyri, sem nú er til sölu. Í bréfinu kemur m.a. fram að húsið gæti hentað vel sem bókasafn, tónlistarskóli og safnaðarheimili á Þingeyri, svo eitthvað sé nefnt.

Bæjarráð felur bæjarstjór að ræða við forsvarsmenn hugmyndarinnar.

16. Bréf Ísafjarðarbæjar til umhverfisráðuneytis v/Ofanflóðasjóðs. - Bygging leiðigarðs undir Seljalandsmúla á Ísafirði. 2003-05-0034.

Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til umhverfisráðuneytis v/Ofanflóðasjóðs dagsett 14. maí s.l., þar sem í framhaldi af ákvörðun um byggingu leiðigarðs undir Seljalandsmúla á Ísafirði, er rætt um tvö mál sem eru ófrágengin vegna framkvæmdanna og tengjast bæði dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Annars vegar er um að ræða rafmagnsheimtaug að Skíðheimum efst á Múlanum og hins vegar meginflutningslínu Orkubúsins svo kallaða Ísafjarðarlínu.

Lagt fram til kynningar.

17. Bréf bæjarstjóra. - Lóðamál á Tunguskeiði. 2003-05-0072.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. maí s.l., varðandi lóðamál á Tunguskeiði í Skutulsfirði. Í bréfinu reifar bæjarstjóri umræðu undanfarinna ára um íbúðahverfi á Tunguskeiði og nauðsyn þess að hafa byggingarhæfar lóðir til staðar í sveitarfélaginu. Bréfi bæjarstjóra fylgja fundargerðir og bréf sem tengjast þessu máli.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að heimilað verði að úthluta lóðum undir íbúðarhús á Tunguskeiði og þegar staðfestar lóðaumsóknir liggja fyrir verði hafist handa við gatnagerð.

18. Skipan byggingarnefndar fyrir Grunnskólann á Ísafirði.

Þessum dagskrárlið vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.