Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

341. fundur

Árið 2003, mánudaginn 19. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2002, lögð fram á fundi bæjarráðs.

Lagður fram ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2002 af Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, sem mættur er á fund bæjarráðs. Ársreikningurinn var kynntur og farið var yfir helstu niðurstöðutölur hans.

Bæjarráð samþykkir að vísa ársreikningi Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2002 til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 22. maí 2003.

2. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 13/5. 172. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
5. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að skoða frekar tillögu fræðslunefndar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 13/5. 75. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 13/5. 76. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 15/5. 13. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf atvinnu- og ferðamálafulltrúa. - Skemmtiferðaskip og hreinsunarátak. 2003-05-0033.

Lagt fram bréf frá Rúnari Óla Karlssyni, atvinnu- og ferðamálafulltrúa dagsett 12. maí s.l., varðandi komu skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar og nauðsyn þess að vel sé á móti þeim tekið. Í því sambandi er bent á þörf þess að ráðinn verði starfsmaður til að sinna þessu starfi.

Jafnframt bendir atvinnu- og ferðamálafulltrúi á það átak sem hrinda verður í framkvæmd við hreinsun á Ísafirði og betri merkingar fyrir ferðamenn.

Bæjarráð fellst á tillögur atvinnu- og ferðamálafulltrúa og felur bæjarstjóra að ganga frá framkvæmd málsins.

4. Bréf atvinnu- og ferðamálafulltrúa. - Stefnumótun í ferðaþjónustu á norðursvæði Vestfjarða. 2003-05-0032.

Lagt fram bréf frá Rúnari Óla Karlssyni, atvinnu- og ferðamálafulltrúa dagsett 12. maí s.l., varðandi stefnumótun í ferðaþjónustu fyrir norðursvæði Vestfjarða. Í bréfinu kemur fram að kostnaður við stefnumótun gæti numið á bilinu kr. 1,6 - 1,7 milljónir. Jafnfram kemur fram í bréfinu að Jón Jónsson hjá Sögusmiðjunni á Ströndum sé tilbúinn að taka að sér verkefnið og að hans mati munu fást styrkir í verkefnið að fullu.
Hjálagt fylgir afrit af bréfi frá Jóni Jónssyni varðandi málefnið dagsett þann 14. apríl s.l.

Bæjarráð vísar bréfi Rúnars Óla Karlssonar til atvinnumálanefndar og tekur undir hugmyndir um stefnumótunarvinnu og leggur áherslu á að vinnan verði í samráði sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum og fulltrúa ferðaþjónustunnar á svæðinu.

5. Bréf Umhverfisstofnunar. - Drög að náttúruverndaráætlun. 2003-05-0041.

Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun dagsett 13. maí s.l., varðandi drög að náttúruverndaráætlun fyrir landið allt, sem unnin er á vegum umhverfisráðuneytis. Áætlunin hefur verið send öllum sveitarfélögum landsins, fagstofnana á sviði náttúruvísinda og náttúrustofa. Óskað er eftir skriflegum og rökstuddum athugasemdum og þurfa þær að berast Umhverfisstofnun eigi síðar en 10. júní n.k.

Bæjarráð vísar bréfi Umhverfisstofnunar til umhverfisnefndar.

6. Bréf Búnaðarfélags Auðkúluhrepps. - Ályktun aðalfundar. 2003-05-0040.

Lagt fram bréf frá Búnaðarfélagi Auðkúluhrepps dagsett 13. maí s.l., þar sem greint er frá ályktun aðalfundar félagsins, þar sem fagnað er þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, að styðja við bakið á mjólkurframleiðendum í sveitarfélaginu. Bendir fundurinn jafnframt á að aðrar búgreinar í sveitarfélaginu eru ekki síður þurfandi fyrir stuðning af svipuðu tagi.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Háskóla Íslands. - Ársfundur HÍ. 2003-05-0042.

Lagt fram bréf frá Háskóla Íslands dagsett 14. maí s.l., þar sem boðað er með dagskrá til ársfundar Háskóla Íslands í Hátíðarsal á 2. hæð í aðalbyggingu Háskólans miðvikudaginn 21. maí n.k. kl. 11.00 - 12.00 Móttakanda bréfsins er boðið til fundarins.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. - Ársfundur. 2003-05-0037.

Lagt fram bréf frá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna dagsett 12. maí s.l., þar sem boðað er til ársfundar með dagskrá föstudaginn 23. maí n.k. kl. 14:00 á Grand Hótel í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Saman-hópsins. - Beiðni um fjárstyrk. 2003-05-0038.

Lagt fram bréf frá Saman-hópnum ódagsett, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til að standa straum af kostnaði við forvarnarstarf Sam-hópsins, samkvæmt framkvæmdaáætlun ársins 2003.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

10. Bréf Byggðastofnunar. - Eignarhaldsfélagið Gláma ehf. 2002-04-0061.

Lagt fram bréf Byggðastofnun dagsett 12. maí s.l., svar við fyrirspurn Ísafjarðar- bæjar varðandi Eignarhaldsfélagið Glámu ehf., með lögheimili að Aðalstræti 5, Patreksfirði. Í bréfinu kemur fram að stofnendur félagsins auk Byggðastofnunar séu Fiskvinnslan Drangur ehf., Ljónið ehf., Oddi hf. og Þórsberg ehf. Miðað er við að hlutur Byggðastofnunar í félaginu sé 40% svo sem lög heimila. Hvað varðar fyrirspurn um verkefni sem félagið hefur staðið að veita framkvæmdastjóri og stjórn þess nánari upplýsingar um.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf menntamálaráðuneytis. - Skóladagar, kennslustundafjöldi. 2003-05-0046.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 12. maí s.l., varðandi skóladaga og kennslustundafjölda í grunnskólum skólaárið 2001-2002. Samkvæmt upplýsingum frá Grunnskólanum á Ísafirði, Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskóla Þingeyrar, voru ákvæði um kennslustundafjölda á viku ekki uppfyllt að öllu leyti í árgöngum skólans, samkvæmt meðfylgjandi yfirlitum. Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að sveitarstjórn/skólanefndir sjái til þess að framvegis fái nemendur þann kennslustundafjölda á viku sem grunnskólalög mæla fyrir um.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar.

12. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Hugsanleg yfirtaka sveitarfélaga á málefnum fatlaðra. 2002-03-0061.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 14. maí s.l., þar sem fram kemur að á sjórnarfundi FV þann 7. maí s.l., var kynnt bréf félagsmálaráðuneytis um hugsanlega yfirtöku sveitarfélaga á Vestfjörðum á málefnum fatlaðra með þjónustusamningi við ráðuneytið. Þess er óskað í bréfinu að þau sveitarfélög er ekki hafa nú þegar kynnt FV afstöðu sína til málsins geri það nú þegar. Hjálagt fylgir afrit af bréfi félagsmálaráðuneytis dagsett 5. maí s.l., varðandi málefnið.

Lagt fram til kynningar.

Í lok fundar samþykkti bæjarráð svohljóðandi bókun.

,,Vegna auglýsingar um að Bræðratunga, þjálfunar- og þjónustumiðstöð fatlaðra, sé til sölu, óskar bæjarráð eftir greinargerð frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum um, hvernig málefnum þeirra einstaklinga, sem notið hafa þjónustu í Bræðratungu til þessa verði háttað í framtíðinni."

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:40

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.