Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

340. fundur

Árið 2003, mánudaginn 12. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 16/4. 4. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
2. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara yfir erindisbréf barnaverndarnefndar
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Barnaverndarnefnd 7/5. 5. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 8/5. 12. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
1. liður. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði að tillögu íþrótta- og æskulýðsnefndar varðandi tillögu 2. í bréfi VST frá 7. maí s.l. Jafnframt leggur bæjarráð til við bæjarstjórn, að tekið verði tilboð frá Sport-Tæki ehf., um gerviefni á hlaupabrautir, stökk- og kastsvæði.
Bæjarráð leggur og til við bæjarstjórn, að farið verði að tillögu íþrótta- og æskulýðsnefndar um að ráðist verði í gerð bílastæða meðfram Skutulsfjarðarbraut við grasvöll á Torfnesi. Tæknideild verði falið að hefja undirbúning.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 7/5. 168. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Erindisbréf félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar. 2003-03-0109.

Lagt fram erindisbréf félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar sem nú hefur verið sett á samræmt form samkvæmt beiðni bæjarráðs frá 338. fundi þann 28. apríl 2003.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að erindisbréfið verði samþykkt.

3. Bréf frá leikskólastjóra Tjarnarbæjar á Suðureyri. 2003-05-0010.

Lagt fram bréf frá leikskólastjóra Tjarnarbæjar á Suðureyri ódagsett, undirritað af Lilju Einarsdóttur, starfandi leikskólastjóra og Svövu Rán Valgeirsdóttur leikskólastjóra sem er í barnsburðarleyfi, þar sem minnt er á 20 ára afmæli leikskólans er var þann 12. apríl s.l. og að við slík tækifæri hafi öðrum leikskóla/um verið gefin stærri leiktæki við slík tímamót.

Bæjarráð vísar bréfinu til fræðslunefndar.

4. Bréf Péturs Tryggva ehf. - Stækkun lóðar á Brautarholti. 2002-05-0057.

Lagt fram bréf frá Pétri Tryggva ehf., Skutulsfirði, dagsett 5. maí s.l., þar sem sótt er um stækkun lóðar gamla skólahússins á Brautarholti í Skutulsfirði, með það að markmiði að geta stundað lífræna náttúruvæna landrækt á spildunni.

Bæjarráð óskar umsagnar umhverfisnefndar.

5. Bréf Verkalýðsfélags Vestfirðinga. - Trúnaðarmaður á Hlíf. 2003-05-0009.

Lagt fram bréf frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga dagsett þann 5. maí s.l., þar sem tilkynnt er að Guðný Skúladóttir kt. 110663-3589, hafi verið kosin trúnaðarmaður starfsmanna á Hlíf, Torfnesi, til næstu tveggja ára.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf samgönguráðuneytis. - Nefnd til endurskoðunar vegalaga. 2003-05-0008.

Lagt fram bréf frá samgönguráðuneyti dagsett 30. apríl s.l., þar sem upplýst er að ráðuneytið hafi ákveðið að skipa sérstaka nefnd til þess að fara yfir núverandi vegalög og koma fram með drög að lagafrumvarpi, sem hægt væri að leggja fram fyrir Alþingi næsta vetur. Nefndina skipa Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðueytinu, sem jafnframt er formaður, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri og Ólafur Bjarnason aðstoðarborgarverkfræðingur.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Arnars Þ. Stefánssonar. - Sorpeyðingargjald - Vatnsskattur. 2003-04-0076.

Lagt fram bréf Arnars Þ. Stefánssonar, Ísafirði, dagsett 23. apríl s.l., varðandi álagningu sorpeyðingargjalds og vatnsskatts á Bensínstöðina á Ísafirði. Arnar óskar eftir að sorpeyðingargjald, sem í dag er reiknað eftir 6. flokki, veriði reiknað samkvæmt 4. flokki gjaldskrár. Jafnframt óskar Arnar eftir að endurskoðaður verði sá háttur sem hafður er á vatnssölu að þvottaplani stöðvarinnar, en í dag er vatnssala samkvæmt mæli.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar fjármálastjóra og forstöðumanns Funa.

8. Bréf Fornleifasjóðs. - Styrkveiting til rannsókna. 2002-09-0113.

Lagt fram bréf frá Fornleifasjóði dagsett 28. apríl s.l., þar sem tilkynnt er að sjóðurinn hafi ákveðið að veita Ísafjarðarbæ styrk að upphæð kr. 1.000.000.- til frumkönnunar vegna fornleifarannskókna á bæjarstæði Eyrarbæjar á Skutulsfjarðareyri.

Bæjarráð þakkar styrkveitinguna og vísar erindinu til menningarmálanefndar.

9. Bréf Ólafs Rögnvaldssonar. - Menningarhús - Kvikmyndasýningar. 2003-05-0024.

Lagt fram bréf frá Ólafi Rögnvaldssyni, kvikmyndagerðarmanni, Móatúni, Mosfellsbæ, dagsett 5. maí s.l., ásamt afriti af bréfi hans til menntamálaráðherra er varðar menningarhús og möguleika til kvikmyndasýninga.

Bæjarráð vísar bréfinu til menningarmálanefndar.

10. Bréf Holts í Önundarfirði Friðarseturs. 2003-04-0073.

Lagt fram bréf Holts í Önundarfirði Friðarseturs ódagsett þar sem svarað er fyrirspurn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 338. fundi þann 28. apríl s.l., þar sem óskað var eftir greinargerð um væntanlega starfsemi í fyrrum Holtsskóla, er lítur að sölu gistingar.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við umsókn Holts í Önundarfirði Friðarseturs um sölu gistingar í fyrrum Holtsskóla.

11. Bréf Mats Wibe Lund. - Ljósmyndir af Ísafirði ofl. 2003-04-0084.

Lagt fram bréf frá Mats Wibe Lund dagsett 8. maí s.l., varðandi fyrirspurn Ísafjarðarbæjar um eignarrétt á ljósmyndum er hann hefur boðið Ísafjarðarbæ til kaups samkvæmt bréfi dagsettu 28. apríl 2003.

Bæjarráð samþykkir að ganga til viðræðna við Mats Wibe Lund á grundvelli tilboðs hans í bréfi til Ísafjarðarbæjar frá 28. apríl s.l.

12. Bréf Úrvinnslusjóðs. - Móttaka hjólbarða, pappaumbúða og rafhlaða. 2003-02-0044.

Lagt fram bréf frá Úrvinnslusjóði dagsett 7. maí s.l., varðandi móttöku á hjólbörðum, samsettum pappaumbúðum og rafhlöðum ofl., en um áramótin síðustu var lagt á úrvinnslugjald á ofangreinda hluti samkvæmt lögum.

Bæjarráð vísar bréfinu til tæknideildar, hafnarstjóra og forstöðumanns Funa með ósk um að athugasemdum verði svarað.

13. Lokaskýrsla undirbúningshóps vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði. 2002-11-0049.

Lögð fram lokaskýrsla undirbúningshóps vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði, útgefin í mars 2003 og unnin af starfshópi er skipaður var þeim Kristjáni Kristjánssyni, Sigurði Mar Óskarssyni, Skarphéðni Jónssyni og Svanlaugu Guðnadóttur.

Bæjarráð samþykkir að haldinn verði kynningarfundur með bæjarstjórn um tillögur vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði. Á fundin komi auk bæjarstjórnar undirbúningshópur vegna byggingar framtíðarhúsnæðis GÍ og Örn Þór Halldórsson, arkitekt. Bæjarstjóra falið að undirbúa fundinn.

14. Starfshópur um könnun sumarstarfa í Ísafjarðarbæ. 2003-05-0030.

Lögð fram gögn frá starfshópi um könnun sumarstarfa í Ísafjarðarbæ. Í starfshópnum eru Ragnheiður Hákonardóttir, formaður, Anna Sigríður Ólafsdóttir og Jón Björnsson.
Starfshópurinn hefur á stuttum tíma aflað þeirra upplýsinga sem til grundvallar vinnu hans lágu. Því gæti skort á tæmandi upplýsingar. Starfshópurinn vill því koma á framfæri eftirfarandi ábendingum.
Nauðsynlegt er að starfrækt sé vinnumiðlun námsmanna.
Ísafjarðarbær setji sér starfsreglur um laun unglinga 16 ára og yngri, er starfa á hans vegum.
Ísafjarðarbær setji sér þau markmið að hafa ávallt úrræði til staðar fyrir unglinga 16 ára og eldri, sem ekki hafa fengið vinnu hjá öðrum.

Bæjarráð þakkar starfshópnum góða vinnu og vísar niðurstöðum hans til forstöðumanns Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar og atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar til frekari vinnslu.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:13

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.