Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

339. fundur

Árið 2003, mánudaginn 5. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu, slökkviliðsstjóri Ísafjarðarbæjar og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar mæta til fundar við bæjarráð.

Mætt eru til fundar við bæjarráð þau Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, Þorbjörn Sveinsson, slökkviliðsstjóri Ísafjarðarbæjar og Stefán Brynjólfsson, byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, til viðræðna um ástand brunavarna í Grunnskóla Flateyrar og Þingeyrar og fleira. Viðræðurnar eru í framhaldi af svörum forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu á fyrirspurnum bæjarráðs við 168. og 169. fundargerðar fræðslunefndar, er lagðar voru fram á 338. fundi bæjarráðs.

Bæjarráð telur skýringar forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu á því hvernig farið verður í framkvæmdir fullnægjandi.

2. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 29/4. 28. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
2. liður. Bæjarráð samþykkir samning um rekstur upplýsingamiðstöðvar á Ísafirði. Heildarfjárhæð samnings á ári er kr. 1.780.000.- Reiknað er með framlagi Ferðamálaráðs Íslands, sem hluta af fjárhæðinni.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 29/4. 204. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 29/4. 171. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
6. liður. Bæjarráð lítur á samþykkt fræðslunefndar sem tillögu til bæjarstjórnar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 28/4. 55. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
1. liður. Bæjarráð lítur svo á að samþykkt landbúnaðarnefndar sé tillaga til bæjarstjórnar.
4. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að tilkynna hlutaðeigandi niðurstöðu landbúnaðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Staðardagskrárnefnd 30/4. 11. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Samningur um umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum.   2003-04-0086.

Lagður fram samningur á milli Umhverfisstofnunar og Ísafjarðarbæjar þar sem Ísafjarðarbæ er falin umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum. Samningurinn var undirritaður í Tjöruhúsinu á Ísafirði þann 2. maí s.l., af Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, Árna Bragasyni frá Umhverfisstofnun og Guðna G. Jóhannessyni, formanni bæjarráðs og Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð mælir með samþykkt samningsins við bæjarstjórn.

Upplýst var að Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps hefur fagnað samningnum.

4. Bréf formanns yfirkjörstjórnar. - Fjöldi kjördeilda við kosningar til Alþingis 10. maí 2003. 2003-03-0062.

Lagt fram bréf frá Birni Jóhannessyni, formanni yfirkjörstjórnar í Ísafjarðarbæ, dagsett 30. apríl s.l., þar sem þess er farið á leit við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að það staðfesti þá tillögu yfirkjörstjórnar, að ekki verði sérstök kjördeild í Hnífsdal eins og áður hefur verið, heldur kjósi kjósendur í Hnífsdal í 3. kjördeild á Ísafirði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga yfirkjörstjórnar verði samþykkt.

5. Bréf Mats Wibe Lund. - Ljósmyndir frá Ísafirði. 2003-04-0084.

Lagt fram bréf frá Mats Wibe Lund dagsett 28. apríl s.l., þar sem hann er að bjóða Ísafjarðarbæ til kaups einar sex myndir frá Ísafirði fyrir kr. 280.000.- Tilboðið gildir til 16. maí n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að skoða erindið frekar.

6. Bréf Byggðastofnunar. - Stofnun Eignarhaldsfélags Ísafjarðarbæjar. 2002-04-0061.

Lagt fram bréf frá Byggðastofnun dagsett 29. apríl s.l., þar sem vísað er til bréfs Ísafjarðarbæjar frá 7. mars s.l., varðandi þátttöku Byggðastofnunar í stofnun Eignarhalds- félags Ísafjarðarbæjar. Erindið var tekið fyrir á fundi stjórnar Byggðastofnunar þann 26. mars s.l. og samþykkt að vísa þessari málaleitan til Eignarhaldsfélagsins Glámu ehf., Suðurlandsbraut 20, Reykjavík, því ekki er fyrir hendi hjá Byggðastofnun fjármagn til að taka þátt í nýju verkefni af þessu tagi.

Bæjarráð óskar eftir upplýsingum frá Byggðastofnun um Eignarhaldsfélagið Glámu ehf.

7. Minnisblað. - Greinargerð með leiðbeiningum fyrir félagsmálanefnd, Svæðisskrifstofu og foreldra fatlaðra barna. 2003-03-0106.

Lagt fram minnisblað Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 14. apríl s.l., greinargerð með leiðbeiningum fyrir félagsmálanefnd, Svæðisskrifstofu og foreldra fatlaðra barna, í kjölfar afgreiðslu félagsmálanefndar á 201. fundi nefndarinnar, þegar teknar voru fyrir umsóknir um liðveislu fyrir fötluð börn á komandi sumri. Svo og í kjölfar mótmæla á afgreiðslu nefndarinnar og munnlegra óska um að trúnaðarmaður fatlaðra, formaður Svæðisráðs og foreldrar fái að mæta til fundar við nefndina.
Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður, sat fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

Bæjarráð þakkar greinargerð Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur. Greinargerðin lögð fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:14

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.