Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

338. fundur

Árið 2003, mánudaginn 28. apríl kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 15/4. 203. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
2. og 3. liður.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma upplýsingum í 2. og 3. lið á framfæri við Samb. ísl. sveitarf.
6. liður.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að setja erindisbréfið á samræmt form og leggja fyrir fund bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 16/4. 90. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Nefnd um uppbyggingu íþróttasvæðisins á Torfnesi 22/4. 3. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjartæknifræðings. - Gervigrasvöllur á Torfnesi. 2002-01-0135.

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni, bæjartæknifræðingi, dagsett 25. apríl s.l., varðandi byggingu gervigrasvallar á Torfnesi, Ísafirði og tilboð er borist hafa í undirbyggingu, girðingu og lýsingu gervigrasvallar á Torfnesi. Eftirfarandi tilboð bárust.

Einar Halldórsson, Ísafirði. kr. 21.436.639.- 160,05%
Gröfuþjónusta Bjarna ehf., Suðureyri. kr. 18.568.503.- 138,64%
Ásel ehf. og Úlfar ehf., Ísafirði. kr. 13.836.193.- 103,31%
Kostnaðaráætlun VST hf., Ísafirði. kr. 13.393.420.- 100,00%
Lagt er til að tilboði Ásels ehf. og Úlfars ehf., Ísafirði, að upphæð kr. 13.836.193.- verði tekið.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði Ásels ehf. og Úlfars ehf., Ísafirði, að upphæð kr. 13.836.193.- verði tekið.

Jafnframt kemur fram í bréfinu að tilboð í gervigras liggja fyrir frá eftirtöldum aðilum.
Sport-Tæki ehf., Reykjavík, Mondoturf AE55 kr. 33.137.806.-
Mondoturf AE60 kr. 35.996.200.-
Polytan GMBH, Danmörk, Polytan kr. 30.520.160.-
Nefnd um uppbyggingu íþróttasvæðisins á Torfnesi leggur til að keypt verði Mondoturf AE55 frá Sport-Tæki ehf., Reykjavík.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði Sport-Tæki ehf., Reykjavík, að upphæð kr. 33.137.806.- verði tekið.

3. Bréf fjármálastjóra. - Endurnýjun hugbúnaðar á bæjarskrifstofu. 2003-04-0075.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 23. apríl s.l., varðandi endurnýjun hugbúnaðar á bæjarskrifstofu. Bréfinu fylgir undirritaður samningur við VIGOR ehf., Kópavogi, sem undirritaður er af fjármálastjóra með fyrirvara um samþykki bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir fram lagðan samning við Vigor ehf., Kópavogi.
Ragnheiður Hákonardóttir sat hjá við afgreiðslu bæjarráðs.

4. Bréf forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Svör við fyrirspurnum frá bæjarráði. 2002-05-0009.

Lagt fram bréf frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 22. apríl s.l., þar sem svarað er fyrirspurnum bæjarráð við 168. og 169. fundargerðir fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð óskar eftir að forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og slökkviliðsstjóri Ísafjarðarbæjar mæti á næsta fund bæjarráðs.

5. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. - Umsögn um leyfi til sölu gistingar. 2003-04-0073.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 22. apríl s.l., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn um leyfi til sölu gistingar í fyrrum Holtsskóla í Önundarfirði, sem nú er í eigu Holts í Önundarfirði, Friðarseturs.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá Holti í Önundarfirði, Friðarsetri, um væntanlega starfsemi í fyrrum Holtsskóla.

6. Bréf bæjarstjóra. - Bæjarmálasamþykkt, greiðslur fyrir fundarsetur.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett þann 23. apríl s.l., varðandi greiðslu fyrir fundarsetu áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Í bréfinu gerir bæjarstjóri að tillögu sinni til bæjarráðs og bæjarstjórnar, að áheyrnarfulltrúi í bæjarráði fái greitt fyrir fundarsetur í bæjarráði. Greiðsla hefjist frá og með 1. janúar 2003.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga bæjarstjóra verði samþykkt.
Magnús Reynir Guðmundsson vék af fundi undir afgreiðslu þessa liðar.

7. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og bréf formanns íþrótta- og æskulýðsnefndar. - Framkvæmdir á Torfnesi.

Lagt fram bréf Björns Helgasonar, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett 8. apríl s.l., er varðar framkvæmdir á Torfnesi á Ísafirði, vegna Unglingalandsmóts 2003. Í bréfinu er tæpt á nokkrum framkvæmdaþáttum varðandi undirbúning unglingalandsmóts.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Inga Þór Ágústssyni, formanni undirbúningsnefndar Unglingalandsmóts 2003, sem jafnframt er formaður íþrótta- og æskulýðsnefndar Ísafjarðarbæjar. Í bréfi Inga Þórs er tæpt á all mörgum framkvæmda-atriðum er varða íþróttasvæðið á Torfnesi, tjaldsvæði fyrir mótsgesti, aðal samkomustað mótsins á Eyrartúni og landsmótsþorp á grasflöt við leikskólann Sólborg á Ísafirði.

Bæjarráð vísar ofangreindum bréfum til umsagnar íþrótta- og æskulýðsnefndar.

8. Bréf HSV. - Íþróttasvæðið á Torfnesi.

Lagt fram bréf frá stjórn Héraðssambands Vestfirðinga dagsett 10. apríl s.l., þar sem skýrt er frá ályktun samþykktri á stjórnarfundi HSV er haldinn var þann 10. apríl s.l. og varðar framkvæmdir við Torfnessvæðið á Ísafirði, vegna Unglingalandsmóts 2003.

Bæjarráð vísar bréfinu til umsagnar íþrótta- og æskulýðsnefndar.

9. Bréf HSV. - Samþykktar tillögur frá ársþingi HSV. 2003-03-0099.

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 15. apríl s.l., þar sem greint er frá samþykktum tillögum frá ársþingi HSV er haldið var þann 5. apríl s.l.

Bæjarráð vísar bréfinu til umsagnar íþrótta- og æskulýðsnefndar.

10. Bréf erfingja smiðjunnar á Þingeyri. 2003-04-0065.

Lagt fram bréf frá erfingjum smiðjunnar á Þingeyri, þeim Camillu Sigmundsdóttur, Gerðu Matthíasdóttur, Guðmundi J. Matthíassyni og Jónasi Matthíassyni, dagsett 15. mars 2003, þar sem greint er frá að smiðjan verður sjálfseignstofnun og að fyrirhugað er að nú í sumar hefjist einhverjar viðhaldsframkvæmdir á smiðjunni. Af því tilefni vilja erfingjarnir fara þess á leit við Ísafjarðarbæ, að felld verði niður fasteignagjöld þessa árs, ásamt því að Ísafjarðarbær sjái sér fært að styrkja framkvæmdirnar með upphæð er svarar til fasteignagjalda áranna 1995-2002.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

11. Dómur félagsdóms. - ASÍ gegn Ísafjarðarbæ. 2002-05-0051.

Lagður fram dómur félagsdóms í máli Alþýðusambands Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Alþýðusambands Vestfjarða vegna Verkalýðsfélags Vestfjarða gegn Ísafjarðarbæ. Málið varðar uppsögn trúnaðarmanns á þjónustudeild Hlífar, Ísafirði.
Stefndi er sýkn af sektarkröfu stefnanda í málinu, en gert að greiða stefnanda kr. 200.000.- í málskostnað.

Lagt fram til kynningar.

12. Vinabæjarmót í Joensuu 29. maí - 1. júní 2003. 2003-03-0047.

Lagt fram bréf frá Joensuu vinabæ Ísafjarðarbæjar í Finnlandi, dagsett 7. apríl s.l., þar sem greint er frekar frá vinabæjarmóti er haldið verður í Joensuu dagana 29. maí til 1. júní n.k. Bréfinu fylgir m.a. dagskrá mótsins.

Bæjarritara falið að senda lista yfir þátttakendur til Joensuu.

13. Aðalfundur Sparisjóðs Vestfirðinga fyrir árið 2002, 30. apríl 2003. 2003-04-0059.

Lagt fram bréf frá Sparisjóði Vestfirðinga dagsett 14. apríl s.l., þar sem boðað er til aðalfundar sparisjóðsins fyrir árið 2002 þann 30. apríl n.k. kl. 17:00 í Félagsheimilinu á Þingeyri. Fundurinn er boðaður með dagskrá og bréfinu fylgir kynning á helstu tillögum um breytingar á samþykktum Sparisjóðs Vestfirðinga frá 28. apríl 2001.

Bæjarráð samþykkir að Ragnheiður Hákonardóttir og Magnús Reynir Guðmundsson sæki aðalfundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

14. Jarðanefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu. - Reikningur ársins 2002. 2003-04-0052.

Lagður fram reikningur ársins 2002 fyrir Jarðanefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu dagsettur 4. apríl 2003 og undirritaður af Valdimar H. Gíslasyni, formanni.

Lagt fram til kynningar.

15. Bréf Alnæmissamtakanna. - Styrkbeiðni. 2003-04-0070.

Lagt fram bréf frá Alnæmissamtökunum á Íslandi dagsett 15. apríl s.l., þar sem lítillega er greint frá starfi samtakanna og óskað eftir stuðningi við samtökin í formi styrks.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

16. Minnisblað Andra Árnasonar hrl. - Erindi Berghyls ehf., Ísafirði. 2003-02-0051.

Lagt fram minnisblað frá Andra Árnasyni hrl., bæjarlögmanni, þar sem hann svarar erindi bæjarráðs frá 18. febrúar s.l., varðandi fyrirspurn Berghyls ehf., Ísafirði, samkvæmt bréfi dagsettu 2. febrúar 2003.

Bæjarstjóri upplýsti að hann hafi falið Andra Árnasyni hrl., bæjarlögmanni, að fara yfir samningsdrögin með fulltrúum Berghyls ehf.

17. Vestfirðir á miðöldum. - Ráðstefna í MÍ 13. - 15. júní 2003.

Lagt fram bréf frá aðstandendum verkefnisins Vestfirðir á miðöldum, verkefnis sem áætlað er að standi yfir á Vestfjörðum næstu fimm árin og muni því ljúka með umfangsmikilli fornleifarannsókn í Vatnsfirði. Með bréfinu fylgir dagskrá ráðstefnu ,,Vestfirðir: aflstöð íslenskrar sögu" er haldin verður í húsnæði Menntaskólans á Ísafirði dagana 13. - 15. júní 2003.

Bæjarráð vísar bréfinu til atvinnumálanefndar og menningarmálanefndar.

18. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fyrri fulltrúaráðsfundur 2003. 2003-03-0045.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 11. apríl s.l., ásamt ályktunum frá fyrri fulltrúaráðsfundi 2003. Önnur ályktunin er um heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og hin um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

19. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 702. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 702. fundi er haldinn var að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík, þann 28. mars s.l.

Lagt fram til kynningar.

20. Skjólskógar. - Ársskýrsla og ársreikningur 2002. 2003-04-0060.

Lögð fram ársskýrsla og ársreikningur Skjólskóga Vestfjörðum fyrir starfsárið 2002. Ársreikningurinn er áritaður af forstöðumanni Skjólskóga, Sæmundi Kr. Þorvaldssyni og Löggiltum endurskoðendum Vestfjörðum, Jóni Þ. Einarssyni.

Lagt fram til kynningar.

21. Bréf bæjarstjóra. - Samningur um rekstur friðlands á Hornströndum.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 25. apríl s.l., er varðar samning um umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum. Bréfinu fylgja drög að samningi við Umhverfisstofnun svo og afrit af tölvubréfi bæjarstjóra til Davíðs Egilssonar, forstjóra Umhverfisstofnunar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningnum og undirrita með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

22. Fræða- og háskólasetur á Ísafirði. - Yfirlýsing.

Lögð fram viljayfirlýsing um að sett verði á laggirnar fræða- og háskólasetur á Ísafirði. Tilgangur setursins er að nýta hinar einstöku aðstæður sem fyrir hendi eru á Vestfjörðum til þess að efla fræðastarf og rannsóknir, einkum í staðbundnum aðstæðum og í samstarfi við heimamenn. Markmið setursins er að vera samstarfsvettvangur sem skapar vinnuaðstöðu handa fræði- og vísindamönnum á þeim sviðum sem þeir er að yfirlýsingunni standa kjósa að starfrækja á staðnum.
Yfirlýsingin er undirrituð af fulltrúum Háskóla Íslands, Ísafjarðarbæjar, Hafrannsóknastofnunar, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Bæjarráð fagnar yfirlýsingunni og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

23. Samkomulag menntamálaráðuneytis og Ísafjarðarbæjar um menningarhús í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram samkomulag á milli menntamálaráðuneytis og Ísafjarðarbæjar um þrjú menningarhús í Ísafjarðarbæ. Samkomulagið var undirritað í Safnahúsinu á Ísafirði 25. apríl 2003. Samkomulagið felur í sér þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu þriggja menningarhúsa hér á Ísafirði. Þátttaka ríkissjóðs verður alls kr. 251 milljón.

Bæjarráð fagnar samkomulaginu og bæjarstjóra falið að hefja viðræður við samstarfsaðila.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.