Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

335. fundur

Árið 2003, mánudaginn 31. mars kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 11/3. 167. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 13/3. 10. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
3. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara yfir málin ásamt formanni íþrótta- og æskulýðsnefndar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 27/3. 54. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
3. liður. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga landbúnaðarnefndar verði samþykkt.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Nefnd um uppbyggingu íþróttasvæðisins á Torfnesi 24/3. 1. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Lögð voru fram á fundinum gögn varðandi væntanlegt útboð á jarðvinnu, girðingu og lýsingu vegna gervigrasvallar á Torfnesi.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að auglýst verði útboð jarðvinnu, girðinga og lýsingar vegna fyrirhugaðs gervigrasvallar á Torfnesi.
Jafnframt leggur bæjarráð til við bæjarstjórn, að endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir yfirstandandi ár, vegna framkvæmdanna á Torfnesi, verði frestað þar til upplýsingar um kostnað við gervigras liggja fyrir.
4. liður. Bæjarráð samþykkir beiðni nefndarinnar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 26/3. 166. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. - Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, umsögn um ársreikning 2002. 2003-03-0098.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 27. mars s.l., þar sem hann gefur bæjarráði umsögn um ársreikning Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2002, samkvæmt beiðni bæjarráðs á fundi sínum þann 24. mars s.l. Bréfinu fylgir tafla er sýnir samanburð á fjárhagsáætlun ársins 2002 og ársreikningi 2002 þar sem fram koma frávik til hækkunar frá fjárhagsáætlun um 11,88%

Bæjarráð telur óviðunandi að það sé árlegur viðburður, að sveitarfélög þurfi að hækka framlag sitt frá samþykktri fjárhagsáætlun.

3. Bréf bæjartæknifræðings. - Skipun búfjáreftirlitsnefndar. 2003-03-0090.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, bæjartæknifræðings, dagsett 27. mars s.l., þar sem óskað er eftir að Ísafjarðarbær skipi fulltrúa í búfjáreftirlitsnefnd er vinna skal samkvæmt lögum nr. 103/2002. Skipa þarf einn aðalmann og einn til vara.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fulltrúar Ísafjarðarbæjar verði Þórir Örn Guðmundsson, aðalmaður og Guðmundur Steinþórsson, varamaður.

4. Bréf Ástvaldar M. Jónssonar. - Álagning fasteignagjalda. 2003-03-0081.

Lagt fram bréf Ástvaldar M. Jónssonar, Þingeyri, dagsett 24. mars s.l., þar sem bréfritari fer fram á endurskoðun á lóðarleigu fyrir hjall á lóðinni Brekkugötu 38, Þingeyri, þar sem hann telur að um tvísköttun sé að ræða. Jafnframt óskar bréfritari eftir endurmati á bílskúr í hans eigu er stendur í Sandalandi. Samhliða bréfi Ástvaldar er fram lagt bréf Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar, dagsett 27. mars s.l., þar sem gerð er grein fyrir að ekki sé um tvísköttun lóðarleigu að ræða á ofangreindum hjalli. Jafnframt kemur fram í bréfi Stefáns, að hann hafi óskað eftir við Fasteignamat ríkisins, að tilgreindur bílskúr í landi Sanda verði endurmetinn.

Bæjarráð fellst á rökstuðning byggingarfulltrúa.

5. Bréf Skógræktarfélags Ísafjarðar. - Vegagerð í Tungudal. 2003-03-0093.

Lagt fram bréf frá Skógræktarfélagi Ísafjarðar dagsett 22. mars s.l., þar sem fjallað er um vegagerð í Tungudal í Skutulsfirði og frágang farvegar Kornuár vegna þeirra framkvæmda.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar.

6. Drög að samkomulagi vegna lausafjármuna í Holtsskóla. 2002-07-0080.

Lögð fram drög að samkomulagi Ísafjarðarbæjar og Holts í Önundarfirði - Friðarseturs, Sjálfseignarstofnunar, um ráðstöfun lausafjármuna í eigu Ísafjarðarbæjar í Holtsskóla í Önundarfirði, er metin verði sem styrkur Ísafjarðarbæjar til félagsins.

Bæjarráð samþykkir ofangreind drög að samkomulagi um lausafjármuni í Holti.

7. Afrit bréfs Ísafjarðarbæjar til heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, vegna þjónustudeildar á Hlíf. 2002-12-0030.

Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra Jóns Kristjánssonar dagsett 27. mars s.l., er varðar þjónustudeild á Hlíf, Torfnesi og ósk um að þjónustudeildin verði skilgreind sem hjúkrunardeild.

Lagt fram til kynningar.

8. Sparisjóður Bolungarvíkur. - Aðalfundarboð 4. apríl 2003. 2003-03-0089.

Lagt fram fundarboð með dagskrá frá Sparisjóði Bolungarvíkur dagsett 14. mars s.l., vegna aðalfundar sparisjóðsins fyrir árið 2002, er haldinn verður föstudaginn 4. apríl n.k. í Víkurbæ, Bolungarvík.

Bæjarráð samþykkir að Magnús Reynir Guðmundsson, bæjarfulltrúi og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, sæki aðalfundinn sem fulltrúar Ísafjarðarbæjar.

9. Bréf menntamálaráðuneytis. - Umsóknir um styrki frá Norrænu æskulýðsnefndinni. 2003-03-0096.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 25. mars s.l., þar sem kynntur er möguleiki á styrkumsóknum til Norrænu æskulýðsnefndarinnar. Markmið með styrk- veitingum er að styrkja hina norrænu sjálfsvitund, með því að efla þátttöku, skilning og áhuga hjá börnum og unglingum í málefnum er varða menningu, stjórnarhætti og félagslega þætti á Norðurlöndum. Bréfinu fylgja umsóknareyðublöð.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar og íþrótta- og æskulýðsnefndar.

10. Bréf frá verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga. 2003-03-0095.

Lagt fram bréf frá verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga dagsett 25. mars s.l., þar sem vakin er athygli á tveimur nýjum skýrslum er fjalla um síðasta hluta reinslusveitarfélagsverkefnisins.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta. 2002-03-0046.

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett 24. mars s.l., er varðar framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta á árinu 2003. Í bréfinu kemur fram að miðað við ráðstöfunarfé sjóðsins og áætlaðar húsaleigubætur sveitarfélaga á árinu 2003, verði endurgreiðslur sjóðsins 46% af greiddum húsaleigubótum sveitarfélaga.

Bæjarráð vísar erindinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

12. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. 2003-03-0082.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 17. mars s.l., er varðar nýjar reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Reglugerðin er sett í samráði við Samb. ísl. sveitarf., að fengnum tillögum frá nefnd þeirri er endurskoðaði gildandi laga- og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóðinn. Bréfinu fylgir reglugerðin nr. 113/2003 og á sér blöðum helstu breytingar er gerðar voru á eldri reglugerð.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða. - Atvinnuleysi á Vestfjörðum. 2003-03-0071.

Lagt fram bréf frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða dagsett 17. mars s.l., þar sem vakin er athygli á vaxandi atvinnuleysi á Vestfjörðum og þeim möguleika sveitarfélaganna að hægt sé að sækja um styrk úr Atvinnuleysistryggingarsjóði til sérstakra verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana. Sérstök verkefni eru nokkurs konar átaksverkefni og geta t.d. verið á sviði umhverfismála, skógræktar, menningarmála, safnvörslu, sýninga-, lista- eða þróunarverkefna o.fl. Bréfinu fylgja reglur um úthlutun styrkja úr Atvinnuleysistryggingarsjóði til sérstakra verkefna.

Bæjarráð vísar erindinu til atvinnumálanefndar.

14. Bréf Studio Dan, Ísafirði. - Styrkbeiðni. 2003-03-0103.

Lagt fram bréf Stefáns Dan Óskarssonar f.h. Studio Dan dagsett 21. mars s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ að fjárhæð kr. 1.500.000.- Bréfinu fylgir greinargerð undirrituð af Stefáni Dan.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

15. Héraðssamband Vestfirðinga. - Ársþing 5. apríl 2003. 2003-03-0099.

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 27. mars s.l., þar sem fulltrúum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er boðið að sitja þing HSV er haldið verður laugardaginn 5. apríl n.k. á Hótel Ísafirði. Bæjarfulltrúar hafi málfrelsi og tillögurétt á þinginu.

Bæjarráð þakkar boðið og hvetur bæjarfulltrúa til að mæta á þingið.

16. Bréf umhverfisráðuneytis. - Dagur umhverfisins 25. apríl 2003. 2003-03-0100.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 25. mars s.l., er varðar dag umhverfisins þann 25. apríl n.k. og þann áhuga er sveitarfélög hafa sýnt þessum degi. Ráðuneytið hvetur sveitarfélög til að minnast dagsins áfram með fjölbreyttum hætti.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar og staðardagskrárnefndar.

17. Landbúnaðarnefnd Alþingis. - Frumvörp til ábúðalaga og jarðalaga. 2003-03-0102.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarnefnd Alþingis dagsett 26. mars s.l., ásamt frumvarpi til ábúðalaga, 651. mál, heildarlög og frumvarpi til jarðalaga, 652. mál, heildarlög. Nefndin óskar eftir umsögn sveitarfélagsins á ofangreindum frumvörpum og óskast svar sent eigi síðar en 25. apríl n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar landbúnaðarnefndar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:18

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.