Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

334. fundur

Árið 2003, mánudaginn 24. mars kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 17/3. 2. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 18/3. 201. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Staðardagskrárnefnd 19/3. 10. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Erindi vísað frá bæjarstjórn 17.03.03. vegna vinabæjarmóts í Joensuu stad í Finnlandi. 2003-03-0047.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 20. mars s.l., var samþykkt tillaga frá Magnúsi Reyni Guðmundssyni, um að vísa 6. lið 333. fundargerðar bæjarráðs aftur til afgreiðslu í bæjarráði. 6. liður fjallaði um boð frá vinabæ Ísafjarðarbæjar Joensuu í Finnlandi, þar sem boðið er til vinabæjarmóts dagana 29. maí - 1. júní n.k.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að mótið sæki fjórir bæjarfulltrúar, formaður menningarmálanefndar og makar þeirra.

3. Afrit bréfs Ísafjarðarbæjar til Átakshóps um mjólkurframleiðslu á norðanverðum Vestfjörðum. 2002-06-0035.

Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til Átakshóps um mjólkurframleiðslu á norðanverðum Vestfjörðum dagsett þann 11. mars s.l., stuðningur Ísafjarðarbæjar við átaksverkefnið um mjólkurframleiðslu. Í bréfinu staðfestir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, m.a. vilja Ísafjarðarbæjar til að styðja ofangreint verkefni með því að lána til þess kr. 20 milljónir með 5% vöxtum og verðtryggingu og lánstími verði á bilinu 10-15 ár.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að móta tillögu ásamt greinargerð fyrir næsta fund bæjarráðs.

4. Kauptilboð í Túngötu 4, Flateyri. 2003-02-0049.

Lagt fram kauptilboð í Túngötu 4 á Flateyri, frá Krzysztof Jan Wielgosz búsettum á Flateyri. Tilboðið hljóðar upp á kr. 250.000.- Húsið hefur verið á sölu hjá Lögfræði- skrifstofu Tryggva Guðmundssonar ehf., Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera gagntilboð að upphæð kr. 350.000.-

5. Tvö bréf frá Hagstofu Íslands, lögheimili fimm vikum fyrir kjördag, lögheimilisflutningur 14.12.02. - 14.03.03. 2003-03-0062.

Lögð fram tvö bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 17. mars s.l. Fyrra bréfið fjallar um auglýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um kosningar til Alþingis þann 10. maí n.k. og að einstaklingar verða teknir á kjörskrá í því sveitarfélagi er þeir eru skráðir með lögheimili í fimm vikum fyrir kjördag. Það þýðir að við alþingiskosningarnar í vor verða menn á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eru skráðir með lögheimili samkvæmt þjóðskrá laugardaginn 5. apríl 2003.
Síðara bréfið fjallar um lögheimilisflutning í sveitarfélaginu tímabilið frá 14. desember 2002 til 14. mars 2003. Því bréfi fylgir listi yfir þá lögheimilisflutninga.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vestfjörðum. 2003-03-0061.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 18. mars s.l., þar sem greint er frá að á stjórnarfundi FV þann 7. febrúar s.l., var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vestfjörðum þar sem reifaður er sá möguleiki að sveitarfélögin á Vestfjörðum yfirtaki málefni fatlaðra frá ríkinu með svipuðum hætti og gert er á Norðurlandi vestra.
Á stjórnarfundinum var samþykkt að kynna þetta fyrir sveitarfélögum á Vestfjörðum og kanna vilja þeirra. Jafnfram verði leitað eftir vilja félagsmálaráðuneytis um samning af þessu tagi.
Bréfi Fjórðungssambands Vestfirðinga fylgir afrit af bréf Svæðisskrifstofu frá 3. febrúar 2003.

Bæjarráð tekur jákvætt í ofangreinda hugmynd og óskar eftir að Fjórðungssambandið vinni áfram að málinu og leggi frekari upplýsingar fyrir sveitarfélögin.

7. Bréf Greips Gíslasonar, verkefnisstjóra. - Málþing um æskulýðsmál. 2003-03-0060.

Lagt fram bréf frá Greipi Gíslasyni, verkefnisstjóra, þar sem boðað er til málþings um æskulýðsmál, sem haldið verður í Borgarholtsskóla í Reykjavík þann 29. mars n.k. Að málþinginu standa m.a. Æskulýðsráð ríkisins, menntamálaráðuneytið og fjöldi félagasamtaka.

Bæjarráð vísar erindinu til íþrótta- og æskulýðsnefndar. Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

8. Afrit af bréfi Lögborgar, lögfræðiþjónustu, til Fasteignamats ríkisins, vegna Sundstrætis 36, Ísafirði. 2003-03-0059.

Lagt fram afrit af bréfi Lögborgar, lögfræðiþjónustu, til Fasteignamats ríkisins dagsett 19. mars s.l., er varðar fasteignamat og brunabótamat á fasteigninni Sundstræti 36, Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Friðberts J. Kristjánssonar. - Afnot af túnum á Söndum í Dýrafirði. 2003-03-0073.

Lagt fram bréf frá Friðbert J. Kristjánssyni, Hólum í Dýrafirði, dagsett 19. mars s.l., þar sem hann óskar eftir að fá leigð eða afnot af túnum sem Ísafjarðarbær á í Sandalandi í Dýrafirði. Bréfinu fylgir teikning af umræddum túnum.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar tæknideildar.

10. Erindi þriggja einstaklinga. - Beiðni um fjárstuðning til vegaframkvæmda í Haukadal í Dýrafirði. 2003-03-0074.

Lagt fram bréf frá Guðbergi K. Gunnarssyni, Miðbæ, Unni Hjörleifsdóttur, Húsatúni og Friðbert J. Kristjánssyni, Hólum, öll í Dýrafirði, dagsett 19. mars s.l., þar sem óskað er eftir stuðningi við gerð vegarslóða fram Haukadal og upp á Lambadal í Dýrafirði.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar umhverfisnefndar.

11. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna, stjórnarhættir hjá ESB. 2003-03-0057.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 18. mars s.l., varðandi ráðstefnu um nýja stjórnunarhætti hjá ESB og áhrif þeirra á sveitarstjórnarstigið. Ráðstefnan verður haldin 4. apríl n.k. á vegum sambandsins og utanríkisráðuneytisins á Nordica Hótel í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna rekstur félagslegra leiguíbúða. 2003-03-0056.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 18. mars s.l., varðandi ráðstefnu um rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaga. Ráðstefnan er á vegum sambandsins og félagsmálaráðuneytisins og verður haldin 4. apríl n.k. á Nordica Hótel í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Endurgreiðsla VSK vegna holræsahreinsunar. 2003-03-0055.

Lagt fram bréf Samb. Ísl. sveitarf. dagsett 17. mars s.l., er varðar endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga vegna holræsahreinsunar. Hjálagt með bréfi sambandsins er bréf frá ríkisskattstjóra dagsett 12. mars s.l., varðandi málefnið.

Bæjarráð vísar erindinu til fjármálastjóra og bæjartæknifræðings.

14. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2002. 2002-01-0180.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 17. mars s.l., ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 14. mars s.l. og ársreikningi fyrir árið 2002. Í bréfi Heilbrigðiseftirlits er jafnframt bent á að frumvarp til laga um matvælaeftirlit hefur verið lagt fram á Alþingi, en ekki var mælt fyrir því svo matvælaeftirlitið verður áfram á vegum sveitarfélaga a.m.k. fram yfir kosningar.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð fjármálastjóra um ársreikning Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2002.

15. Lokaskýrsla starfshóps um byggingu íþróttahúss og framtíðarnotkun félagsheimilisins á Suðureyri. 2002-11-0062.

Lögð fram lokaskýrsla starfshóps um byggingu íþróttahúss og framtíðarnotkun félagsheimilisins á Suðureyri. Niðurstaða nefndarinnar er svohljóðandi.

,,Byggt verði nýtt íþróttahús 300 m2 að viðbættri tengibyggingu og geymslum við Grunnskólann á Suðureyri og þar með að nýta sturtur við sundlaugina. Jafnframt að leggja fjármuni í lagfæringar á félagsheimilinu samkvæmt skýrslu VST þar um."

Bæjarráð þakkar fyrir fram koman skýrslu og vísar henni til kynningar í fræðslunefnd, menningarmálanefndar og íþrótta- og æskulýðsnefndar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:33

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.