Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

330. fundur

Árið 2003, mánudaginn 17. febrúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 7/2. 23. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
4. liður. Bæjarráði er ekki kunnugt um að Ísafjarðarbær brjóti lög með því að greiða ekki dráttarvexti af almennum viðskiptakröfum. Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, um þá fullyrðingu atvinnumálanefndar, að ekki séu greiddir dráttarvextir af viðskiptaskuldum Ísafjarðarbæjar, dragist greiðsla reikninga fram yfir eindaga þeirra. Einnig er óskað eftir greinargerð frá atvinnumálanefnd um fullyrðingu nefndarinnar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 11/2. 164. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
4. liður. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, kynnti bæjarráði undir þessum lið starfslokasamning við Guðmund Þorkelsson, skólastjóra Grunnskóla Þingeyrar.
Bæjarráð staðfestir starfslokasamninginn og óskar Guðmundi alls velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
6. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að finna fjármuni fyrir stöðu stuðningsfulltrúa við Grunnskólann á Suðureyri með millifærslum milli stofnana.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 11/2. 72. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 13/2. 9. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
1. liður. Bæjarráð vísar gjaldskránni aftur til íþrótta- og æskulýðsnefndar til frekari skoðunar og athugað verði hvort ekki eigi að taka upp fjölskylduafslætti.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 12/2. 88. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjartæknifræðings. - Lokafrágangur Safnahúss. 2002-03-0058.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, bæjartæknifræðings, dagsett 13. febrúar s.l., varðandi lokafrágang framkvæmda við Safnahús á Eyrartúni. Að beiðni bæjarráðs á 329. fundi var tæknideild falið að koma með tillögur að verklokum við Safnahús og upplýsingar um kostnaðaráætlun við síðasta áfanga verksins.

Bæjarráð gerir það að tillögu sinni til bæjarstjórnar, að farið verði að tillögu bæjartæknifræðings, um að semja við núverandi verktaka um lokaáfanga verksins í samræmi við fyrra tilboð hans.

3. Kauptilboð í Túngötu 4, Flateyri. 2003-02-0049.

Lagt fram kauptilboð frá Krzysztof Jan Wielgosz á Flateyri í eignina Túngötu 4, Flateyri. Ísafjarðarbær eignaðist húsið á uppboði 27. september 2002, samkvæmt afsali útgefnu 6. janúar 2003.

Bæjarráð hafnar ofangreindu tilboði og felur bæjarritara að auglýsa eignina til sölu.

4. Hornsteinar-fasteignir ehf. - Sölutilboð v/Austurvegur 2, Ísafirði. 2002-10-0026.

Lagt fram bréf til bæjarráðs frá bæjarritara f.h. bæjarstjóra dagsett 13. febrúar s.l., þar sem greint er frá viðræðum bæjarstjóra og formanns bæjarráðs við fulltrúa Hornsteina-fasteigna ehf., vegna sölutilboðs þeirra á Austurvegi 2, (kjötvinnsluhúsnæði) Ísafirði. Sölutilboðið hljóðar upp á kr. 4.100.000.- Ragnheiður Hákonardóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera drög að kaupsamningi og leggja fyrir bæjarráð.

5. Holtsskóli í Önundarfirði. - Ráðstöfun lausafjármuna. 2002-07-0080.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 13. febrúar s.l., varðandi fund bæjarstjóra og bæjarritara með þeim séra Agnesi Sigurðardóttur og séra Stínu Gísladóttur, fulltrúum væntanlegra eigenda Holtsskóla í Önundarfirði. Á fundinum kom fram beiðni um að lausamunir í Holtsskóla í eigu Ísafjarðarbæjar rynnu að stórum hluta til væntanlegra eigenda Holtsskóla, sem styrkur frá Ísafjarðarbæ. Minnisblaðinu fylgir listi yfir tæki og búnað í eigu Ísafjarðarbæjar ofl. aðila í Holtsskóla árið 1997, dagsettur 21. ágúst 1998.

Bæjarráð samþykkir að þeir munir sem ekki hafa verið nýttir á öðrum stöðum fylgi húsinu í samræmi við nýja lausafjártalningu sem framkvæmd verði. Bæjarstjóra falið að ganga frá málinu.

6. Samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar og KFÍ. 2002-05-0012.

Lagður fram samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar og Körfuboltafélags Ísafjarðar til fimm ára dagsettur 7. febrúar s.l., varðandi m.a. vinnuframlag KFÍ til bæjarfélagsins gegn greiðslu að upphæð kr. 1.000.000.- á árinu 2003.
Samningurinn hefur áður verið samþykktur í bæjarstjórn og er lagður fram til kynningar í bæjarráði.

Samningnum vísað til íþrótta- og æskulýðsnefndar til kyningar.

7. Samstarfssamningur um ,,Félags- og menningarmiðstöð" að Hafnarstræti 11, Flateyri. 2002-05-0011.

Lagður fram samstarfssamningur milli Ísafjarðarbæjar, Félags eldri borgara í Önundarfirði, Önundarfjarðardeildar Rauðakrossins, Minjasjóðs Önundarfjarðar, Handverkshópsins Purku og Íbúasamtaka Önundarfjarðar, um rekstur á ,,Félags- og menningarmiðstöð" að Hafnarstræti 11 á Flateyri. Samstarfssamningurinn er undirritaður þann 12. febrúar s.l., með fyrirvara um samþykki umbjóðenda allra ofangreindra aðila.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samstarfssamningurinn verði samþykktur.

8. Bréf Hvíldarkletts ehf. - Sölutilboð lóðin Mánagata 1, Ísafirði. 2003-02-0032.

Lagt fram bréf frá Hvíldarkletti ehf., Mánagötu 1, Ísafirði, dagsett 7. febrúar s.l., það sem Ísafjarðarbæ er boðin til kaups lóðin Mánagata 1 á Ísafirði. Söluverð lóðar verði í samræmi við lóðamat fasteignaskrár.

Bæjarráð óskar umsagnar tæknideildar um erindið.

9. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Umfjöllun um gjaldskrár. 2003-02-0035.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 11. febrúar s.l., þar sem svarað er fyrirspurnum Ísafjarðarbæjar um álit Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða á gjaldskrám um sorphirðu og hundahald í Ísafjarðarbæ.
Heilbrigðisnefnd Vestfjarða gerir ekki athugasemdir við ofangreindar gjaldskrár.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að birta gjaldskrárnar í B-deild Stjórnartíðinda.

10. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar. 2002-01-0184.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 11. febrúar s.l., ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 34. fundi er haldinn var þann 7. febrúar s.l. Jafnframt fylgir ný gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits sem hlotið hefur umsögn Hollustuháttarráðs og hefur nefndin falið heilbrigðisfulltrúa að birta gjaldskrána.

Lagt fram til kynningar enda hefur gjaldskráin áður verið samþykkt í bæjarstjórn.

11. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Starfsleyfi fyrir orkuveitu. 2003-02-0045.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 12. febrúar s.l., varðandi veitingu starfsleyfa fyrir Orkubú Vestfjarða hf., fyrir starfsstöðvar á Vestfjörðum. Starfsleyfið gildi í fjögur ár fyrir spennistöðvar, virkjanir, varaaflstöðvar og kyndistöðvar, að undangenginni auglýsingu. Skriflegar athugasemdir skal senda til HV, Aðalstræti 21, Bolungarvík, fyrir 21. mars 2003.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kynni erindið fyrir íbúum Ísafjarðarbæjar.

12. Bréf sjávarútvegsráðuneytis. - Störf á vegum ráðuneytisins á landsbyggðinni. 2003-02-0044.

Lagt fram bréf sjávarútvegsráðuneytis dagsett 11. febrúar s.l., svar við bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra frá 1. nóvember s.l., varðandi fjölda starfa við sjávarútveg og skiptingu þeirra milli landshluta.
Í bréfinu kemur fram að ekkert starf í ráðuneytinu er unnið á landsbyggðinni, aðeins störf hjá stofnunum sem heyra undir ráðuneytið og eru staðsettar á landsbyggðinni.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og jafnframt vísað til atvinnumálanefndar til kynningar.

13. Berghylur ehf. - Óskað er eftir að farið verði með erindið sem trúnaðarmál. 2003-02-0051.

Bæjarráð óskar umsagnar umhverfisnefndar og bæjarlögmanns á erindinu.

14. Þriggja ára áætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans 2004-2006.

Lögð fram drög að þriggja ára áætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans 2004-2006, er kemur til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 20. febrúar n.k.

Bæjarráð vísar þriggja ára áætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn.

15. Samkeppnisráð 193. fundargerð. - Úthlutun Byggðastofnunar og ráðstöfun Ísafjarðarbæjar á byggðakvóta. 2003-02-0052.

Lögð fram fundargerð Samkeppnisráðs frá 193. fundi er haldinn var þann 29. janúar s.l. og fjallar um kvörtun yfir úthlutun Byggðastofnunar og ráðstöfun Ísafjarðarbæjar á byggðakvóta. Erindi hafði borist frá Fiskvinnslunni Íslandssögu hf., Suðureyri og Fiskvinnslunni Kambi hf., Flateyri, þar sem óskað er eftir að kannað verði hvort ofangreind úthlutun stangist á við samkeppnislög.
Niðurstaða samkeppnisráðs er sú að ekki sé ástæða til frekari afskipta ráðsins af málinu.

Lagt fram til kynningar.

16. Sjávarútvegsnefnd Alþingis. - Tillaga til þingsályktunar um atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum. 2003-02-0022.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsnefnd Alþingis dagsett 5. febrúar s.l., þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum. Umsögn berist eigi síðar en 21. febrúar n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að leggja fram drög að svari á næsta fundi bæjarráðs.

17. Samb. ísl. sveitarf. - Umhverfisverðlaun ,,Nations in Bloom". 2003-02-0038.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 11. febrúar s.l., ásamt upplýsingum um samkeppni um umhverfisverðlaunin ,, Nations in Bloom", viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf samfélaga um umhverfismál.

Lagt fram til kynningar.

18. Umræður um ráðstöfun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. - Milljarður í vegamál á Vestfjörðum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja aukið fjármagn til vegamála á Vestfjörðum. Bæjarstjórn Ísafjarðabæjar ályktaði sl. haust um nauðsyn þess að stytta þann tíma þar til bundið slitlag verður komið á leiðina Ísafjörður-Reykjavík um Djúp. Er það vilji bæjarstjórnar að sá tími verði 5 ár í stað 12 eins og þingsályktun að samgönguáætlun gerði ráð fyrir áður en einn milljarður til viðbótar var ákveðinn til samgöngumála á Vestfjörðum.

Bæjarráð vísar til samþykktar Fjórðungsþings Vestfirðinga frá 1997, en þar er kveðið á um að framtíðarleiðin um Djúp liggi um Arnkötludal á Ströndum. Er það rúmlega 40 km. stytting á leiðinni og samstaða meðal vestfirskra sveitarfélaga um þá leið skv. samþykkt Fjórðungsþings 1997.

Bæjarráð óskar eftir góðu samstarfi við þingmenn, samgönguráðherra og starfsmenn Vegagerðarinnar um samgöngumál og æskir þess að samráð verði haft við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áður en endanleg ákvörðun verður tekin um ráðstöfun þeirra fjármuna sem nú bætast við til vegamála.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:28

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.