Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

329. fundur

Árið 2003, mánudaginn 10. febrúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Formaður umhverfisnefndar og starfsmenn tæknideildar Ísafjarðarbæjar komu til fundar við bæjarráð.

Mættir eru á fund bæjarráðs þeir Kristján Kristjánsson, formaður umhverfisnefndar, Sigurður Mar Óskarsson, bæjartæknifræðingur og Stefán Brynjólfsson, byggingarfulltrúi. Rætt var um frumathugun á uppbyggingu íbúðahverfis á Hauganessvæðinu í Skutulsfirði og lagðar fram frumhugmyndir. Jafnframt var rætt um lausar lóðir á Ísafirði svo sem í Seljalandshverfi, á Tunguskeiði, í Holtahverfi, við Hjallaveg og víðar.

Bæjarráð felur tæknideild Ísafjarðarbæjar að auglýsa skipulagðar lóðir sem eru lausar undir íbúðar- og iðnaðarhúsnæði. Jafnframt verði gerð könnun á áhuga fyrir úthlutun lóða á Hauganesi samkvæmt frumhugmynd er lögð var fram á fundinum.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 3/2. 198. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 4/2. 87. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
1. liður. Bæjarráð felur tæknideild Ísafjarðarbæjar að koma með tillögur að verklokum í t.v. safnahúsi og upplýsingar um kostnaðaráætlun við síðasta áfanga verksins.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Minnisblað byggingarfulltrúa. - Fjarðargata 62, Þingeyri. 2003-01-0004.

Lagt fram minnisblað Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, er varðar fasteignagjöld af lóðinni Fjarðargata 62 á Þingeyri. Stefáni var falið að vinna að lausn erindis Gunnlaugs Magnússonar vegna álagningar fasteignagjalda á lóðina og stærð hennar í fasteignamati.
Byggingarfulltrúi leggur til að fasteignagjöld ársins 2002 af ofangreindri lóð verði hin sömu og verða á árinu 2003. Það er lækki úr kr. 48.954.- í kr. 6.692.-

Bæjarráð samþykkir tillögu byggingarfulltrúa.

4. Erindi sent frá bæjarstjórn. - Teigahverfi í Hnífsdal. 2002-12-0058.

Lagt fram minnisblað þar sem fram kemur að bæjarstjórn vísaði á fundi sínum þann 6. febrúar s.l., erindi til bæjarráðs varðandi tillögur um nýtingarmöguleika á Teigahverfi í Hnífsdal. Erindið var tekið fyrir á 164. fundi umhverfisnefndar þann 29. janúar s.l.

Bæjarráð leggur til að tillaga um nýtingarmöguleika á Teigahverfi í Hnífsdal verði auglýst sem skipulag með þeim fyrirvara að ekki verði um skipulagt hjólhýsa- og tjaldsvæði að ræða, einungis möguleika á nýtingu undir slíka starfsemi.

5. Umboðsmaður barna. - Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. 2003-02-0005.

Lagt fram bréf frá umboðsmanni barna dagsett 31. janúar s.l., varðandi þátttöku barna og unglinga í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Greinin hljóðar svo. ,,Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska."

Bæjarráð vísar bréfinu til félagsmálanefndar, fræðslunefnd og íþrótta- og æskulýðsnefndar til kynningar.

6. Samkomulag um starfsemi Gamla apóteksins á Ísafirði. 2002-09-0013.

Lagt fram samkomulag um starfsemi Gamla apóteksins á Ísafirði dagsett 31. janúar s.l., undirritað af Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, Sólveigu Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra, Páli Péturssyni, félagsmálaráðherra og Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Hver aðili samkomulagsins mun veita í verkefnið 1,5 milljónum króna á ári í tvö ár, fyrst 2003. Að þeim tíma liðnum verður árangur verkefnisins metinn og frekari stuðningur ofangreindra aðila ákvarðaður í ljósi þess mats. Samningurinn hefur verið samþykktur af bæjarstjórn og lagður fram til kynningar í bæjarráði.

7. Samkomulag Ísafjarðarbæjar og HSV um húsnæðismál. 2003-02-0018.

Lagt fram samkomulag á milli Ísafjarðarbæjar og Héraðssambands Vestfirðinga, um að Ísafjarðarbær leggi HSV til íbúðastyrk að upphæð kr. 2.954.000.- fyrir árið 2003. Styrkurinn greiðist út í formi afnota af 6 íbúðum í Múlalandi 12, Ísafirði. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2003 til 31. desember 2003.

Bæjarráð staðfestir samninginn.

8. Samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar og HSV. 2002-03-0019.

Lagður fram samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar og Héraðssambands Vestfirðinga dagsettur 3. febrúar 2003. Samningi þessum er ætlað að efla samstarf innan íþróttahreyfingarinnar og milli bæjaryfirvalda Ísafjarðarbæjar og HSV og tryggja jafnframt öflugt og gott íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga í Ísafjarðarbæ, samkvæmt stefnu félaganna þar um. Samningurinn tekur gildi frá undirritun og gildir í tvö ár. Rekstrarstyrkurinn er kr. 5.500.000.- fyrir hvort samningsár.

Samningurinn hefur verið samþykktur af bæjarstjórn og undirritaður. Lagður fram til kynningar í bæjarráði.

9. Búferlaflutningar 2002. - Upplýsingar Hagstofu Íslands.

Lagt fram yfirlit frá Hagstofu Íslands, um búferlaflutninga á Íslandi fyrir árið 2002. Á árinu voru skráðar 60.620 breytingar á lögheimili í þrjóðskrá. Í tæplega 52 þúsund tilvika var um búferlaflutninga innanlands að ræða. Á árinu voru nokkuð færri tilkynningar um búferlaflutninga til höfuðborgarsvæðisins en árið áður.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 700. stjórnarfundar. 2002-02-0044.

Lögð fram fundargerð 700. stjórnarfundar Samb. ísl. sveitarfélaga, frá fundi er haldinn var þann 24. janúar s.l., að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

11. Félagsmálanefnd Alþingis. - Frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga. 2003-02-0004.

Lagt fram bréf frá félagsmálanefnd Alþingis dagsett 31. janúar s.l., ásamt frumvarpi til laga um vatnsveitur sveitarfélaga, 422. mál, rekstrarform, arðgreiðslur o.fl. Óskað er umsagnar sveitarfélaga um frumvarpið og að sú umsögn berist fyrir 17. febrúar n.k. til nefndarinnar.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til umsagnar.

12. Félagsmálaráðuneytið. - Skýrsla um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. - Frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. - Lög um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett 20. janúar s.l., ásamt skýrsla um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

13. Bréf bæjarstjóra. - Skjaldarmerki Ísafjarðarbæjar. 2003-02-0019.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. febrúar s.l., varðandi skjaldarmerki Ísafjarðarbæjar og svohljóðandi tillögu er samþykkt var á 133. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. ,,Bæjarstjórn samþykkir að hafinn verði undirbúningur að hönnun nýs skjaldarmerkis fyrir Ísafjarðarbæ. Bæjarráði falið að stýra verkinu og efna til samkeppni ef þurfa þykir. Kostnaður við hugsanlega framkvæmd verði fjármagnaður af liðnum 21-81-995-1 ýmsir styrkir, bætt ímynd." Verkefnið er lagt fyrir bæjarráð samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar.

Bæjarráð felur formanni að koma með tillögu um hvernig standa skuli að verkinu.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.