Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

326. fundur

Árið 2003, mánudaginn 20. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:

1. Virkjun Tunguár í Skutulsfirði. - Fulltrúar Orkubús Vestfjarða mæta á fund bæjarráðs.

Á fund bæjarráðs eru mættir fulltrúar Orkubús Vestfjarða þeir Kristján Haraldsson, orkubússtjóri og Sölvi Sólbergsson, deildarstjóri tæknideildar, til viðræðna við bæjarráð um hugsanlega virkjun OV á Tunguá í Skutulsfirði.

Bæjarráð sér ekki meinbugi á fyrirhugaðri framkvæmd Orkubús Vestfjarða miðað við fyrirliggjndi upplýsinga. Lögð er áhersla á að framkvæmdin er á viðkvæmu útivistarsvæði og því þarf að vanda verulega til hennar m.t.t. umhverfisþátta.

2. Ávöxtun inneigna Ísafjarðarbæjar hjá bankastofnunum 2002. Fjármálastjóri kemur á fund bæjarráðs.

Til fundar við bæjarráð er mættur Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, til að gera grein fyrir ávöxtun inneignarfjár Ísafjarðarbæjar hjá bankastofnunum eftir sölu bæjarfélagsins á eignarhluta sínum í Orkubúi Vestfjarða.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að fjármálastjóri hafi heimild til færslu fjármuna milli bankastofnana eftir því sem vaxtastig gefur tilefni til.

3. Fundargerðir nefnda.

Afreks- og styrktarsjóður 6/1. 1. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Afreks- og styrktarsjóður 9/1. 2. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Atvinnumálanefnd 14/1. 22. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 14/1. 162. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 16/1. 8. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
2. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu íþrótta- og æskulýðsnefndar.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Staðardagskrárnefnd 15/1. 6. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfshópur um byggingu íþróttahúss og framtíðarnotkun félagsheimilisins á Suðureyri 14/1. 1. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 15/1. 163. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Undirbúningshópur vegna byggingar framtíðarhúsnæðis fyrir Grunnskólann á Ísafirði 13/1. 1. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Bréf Péturs Bjarnasonar, Kjalarnesi. - Lóðin Silfurgata 4, Ísafirði. 2002-03-0026.

Lagt fram bréf frá Pétri Bjarnasyni og Helgu Ebeneserdóttur, Esjugrund 48, Kjalarnesi, dagsett 13. janúar 2003, varðandi sölutilboð til Ísafjarðarbæjar vegna lóðarinnar Silfurgata 4 á Ísafirði. Tilboðið hljóðar upp á kr. 550.000.- og er þá með talið gróðurhús og allur gróður sem á lóðinni er.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði Péturs og Helgu verði tekið.

5. Bréf fjármálastjóra. - Sorpeyðingargjöld á lögaðila 2003. 2002-01-0131.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 16. janúar s.l., varðandi væntanlega álagningu sorpeyðingargjalda á lögaðila fyrir árið 2003. Bréfinu fylgja drög að álagningarlista og er listinn unninn samkvæmt tillögum stöðvarstjóra Funa í samvinnu við bæjarskrifstofu. Í bréfinu er lagt til að álagningarskráin verði samþykkt.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að álagningarskráin verði samþykkt.

6. Bréf fjármálastjóra. - Fasteignagjöld 2002. Styrkir til félagasamtaka. 2002-01-0131.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 16. janúar s.l. er varðar styrki til félagasamtaka vegna fasteignagjalda 2003. Lagt er til að hámarksstyrkur verði kr. 113.000.- er renni til greiðslu fasteignaskatts og holræsagjalds af þeim hluta húsnæðis sem nýttur er til félags-, menningar- og íþróttastarfsemi.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hámarksstyrkur til félagasamtaka vegna greiðslu fasteignaskatts og holræsagjalds verði kr. 113.000.-
Bæjarráð óskar eftir að leitað verði upplýsinga frá félagasamtökum, um notkun og hugsanlega útleigu viðkomandi eigna áður en afsláttur verður veittur.

7. Bréf fjármálastjóra. - Fasteignagjöld 2003. Niðurfelling til elli- og  örorkulífeyrisþega. 2002-01-0131.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 17. janúar s.l., er varðar drög að reglum um niðurfellingu fasteignagjalda til elli- og örorkulífeyrisþega vegna íbúðarhúsnæðis þeirra til eigin nota. Lagt er til að hámarksafsláttur verði kr. 60.000.- og tekjuviðmiðun hækki um tæp 12% frá fyrra ári. Einungis verði veittur afsláttur af fasteignaskatti og holræsagjaldi. Bréfinu fylgja drög að reglum fyrir árið 2003 vegna niðurfellingar fasteignagjalda.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hámarksafsláttur til elli- og örorkulífeyrisþega verði kr. 60.000.- til greiðslu á fasteignaskatti og holræsagjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, tekjuviðmiðun til einstaklinga hækki úr kr. 1.300.000.- í kr. 1.450.000.- og fyrir hjón úr kr. 1.750.000.- í kr. 1.950.000.-

8. Bréf fjármálastjóra. - Trúnaðarmál. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 17. janúar s.l., er fjallar um fasteignagjöld og viðskiptaskuldir.

Bæjarráð veitir fjármálastjóra heimild til að leysa málið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

9. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Heilbrigðiseftirlit á leiksvæðum. 2003-01-0030.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 9. janúar s.l., um úttekt Heilbrigðiseftirlits á leiksvæðum skóla, leikskóla og opinna svæða. Í bréfinu kemur fram að á árinu 2003 verði gert sérstakt átak í úttektum á leiksvæðum barna og ungmenna. Bréfinu fylgja leiðbeinandi reglur fyrir leikskóla, skóla og leiksvæði barna.
Í bréfinu kemur fram verkaskipting Heilbrigðiseftirlits og Vinnueftirlits varðandi þessi mál, en á 323. fundi bæjarráðs þann 30. desember 2002, var bæjarstjóra falið að fá frekari upplýsingar um ofangreind málefni.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

10. Bréf bæjarritara. - Erindi Björgunarsveitarinnar Bjargar, Suðureyri. 2002-12-0056.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 14. janúar s.l., er varðar umsókn Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri, þess efnis að fá heimild Ísafjarðarbæjar til að nota skjaldarmerki fyrrum Suðureyrarhrepps inn í merki sveitarinnar. Niðurstaða bæjarritara er sú að ekki séu í gildi neinar reglur um notkun fyrrum byggðamerkja hinna sameinuðu sveitarfélaga og ef einhver hefur vald til að heimila eða hafna notkun þeirra sé það sitjandi sveitarstjórn í hinu nýja sveitarfélagi.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Björgunarsveitinni Björg verði heimilað að nota fyrrum skjaldarmerki Suðureyrarhrepps inn í merki sveitarinnar.

11. Bréf Helga Jóhannessonar ofl. - Hundaleyfisgjöld. 2003-01-0051.

Lagt fram bréf frá Helga Jóhannessyni og Óla Jóhannessyni, Ísafirði, dagsett þann 15. janúar s.l., þar sem þeir óska niðurfellingu á gjöldum vegna hunda þeirra sem notaðir eru sem atvinnuhundar.

Bæjarráð óskar umsagnar landbúnaðarnefndar.

12. Bréf Alcoa til bæjarstjóra. - Fjarðaál og framkvæmdir. 2003-01-0040.

Lagt fram bréf frá forstjóra og stjórnarformanni Alcoa til bæjarstjóra dagsett 10. janúar s.l., varðandi byggingu fyrirhugaðs álvers á Austfjörðum, sem hlotið hefur nafnið Fjarðaál. Í bréfinu kemur m.a. fram að fyrir hugað álver á Reyðarfirði er miðað við 322.000 tonna ársframleiðslu og að í álverinu verði 455 störf, auk þess sem til verða 295 stöðugildi í tengdum iðnaði, þjónustu og verslun.

Lagt fram til kynningar.

13. Upplýsingar frá bæjarritara. - Aðgengi bæjarfulltrúa að trúnaðarmálum. 2002-10-0087.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 15. janúar s.l., ásamt afritum af bréfum er bæjarráð óskaði eftir að fá við afgreiðslu á 196. fundargerð félagsmálanefndar í bæjarráði þann 13. janúar s.l., er varða fyrirspurnir og upplýsingar um aðgengi bæjarfulltrúa að trúnaðarmálum nefnda.

Lagt fram til kynningar.

14. Bréf bæjarstjóra. - Erindi vegna aukavatnsgjalds. Trúnaðarmál.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 17. janúar s.l., er varðar mál vegna aukavatnsskatts. Óskað er eftir að farið verði með málið sem trúnaðarmál.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá málinu á þeim nótum sem lagt er til í bréfi bæjarstjóra.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:23

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ingi Þór Ágústsson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.