Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

324. fundur

Árið 2003, mánudaginn 6. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Bréf Pálma R. Pálmasonar. - Tilboð í Oddatún 2, Flateyri. 2002-09-0026.

Lagt fram gagntilboð Pálma R. Pálmasonar dagsett 26. desember s.l., í sumarhúsið Oddatún 2 á Flateyri. Tilboðið hljóðar upp á kr. 2.400.000.- Bæjarráð hafði áður gert Pálma gagntilboð að upphæð kr. 2.540.000.-

Bæjarráð samþykkir tilboð Pálma R. Pálmasonar að upphæð kr. 2.400.000.- og felur bæjarstjóra að ganga frá sölu á Oddatúni 2, Flateyri.

2. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. - Orkureikningar vegna skíðasvæðis á Seljalandsdal. 2003-01-0006.

Lagt fram bréf frá Birni Helgasyni, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett þann 31. desember 2002, þar sem óskað er eftir aukafjárveitingu vegna ógreiddra reikninga við Orkubú Vestfjarða vegna skíðasvæðis á Seljalandsdal. Reikningarnir eru frá árinu 1999 og 2000 samtals að fjárhæð kr. 968.100.-

Bæjarráð samþykkir erindi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og vísar jafnframt til bókunar sinnar við 6. lið í 229. fundargerð sinni frá 2. janúar 2001, þar sem samþykki fyrir kr. 820.100.- liggur fyrir. Heildar samþykkt fjárhæð er því kr. 968.100.- er færist til gjalda á árinu 2002.

3. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar janúar-nóvember 2002. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 2. janúar s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar janúar - nóvember 2002. Á meðfylgjandi yfirlitsblöðum má nánar sjá sundurliðun um rekstur ýmissa deilda og málaflokka.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Júdósambands Íslands. - Styrkbeiðni vegna Hjördísar Ernu Ólafsdóttur. 2003-01-0007.

Lagt fram bréf frá Júdósambandi Íslands dagsett í desember 2002 til fyrirtækja og stofnana í Ísafjarðarbæ, er varðar beiðni um styrk til að standa undir þjálfun Hjördísar Ernu Ólafsdóttur, júdómanns frá Ísafirði. Hugmyndin er að fá 10 aðila til að leggja fram kr. 70-100.000.- á ári næstu tvö árin í ,,Aþenusjóð" Hjördísar. En stefnt er að að Hjördís komist á Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004.

Bæjarráð vísar erindinu til stjórnar afreks og styrktarsjóðs Ísafjarðarbæjar.

5. Fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði. 2002-01-0192.

Lögð fram fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá 73. fundi er haldinn var þann 16. desember 2002.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf samgönguráðuneytis. - Skýrsla Ferðamálaráðs ,,Auðlindin Ísland". 2002-12-0053.

Lagt fram bréf frá samgönguráðuneyti dagsett 18. desember s.l., ásamt skýrslu Ferðamálaráðs Íslands ,,Auðlindin Ísland". Ferðaþjónustan gegnir veigamiklu og vaxandi hlutverki í íslensku atvinnulífi og í skýrslunni er litið yfir greinina í heild sinni, til að draga fram skarpa mynd af þeim möguleikum sem fyrir liggja.

Bæjarráð vísar bréfinu ásamt skýrslunni til atvinnumálanefndar og atvinnu- og ferðamálafulltrúa Ísafjarðarbæjar.

7. Þriggja ára áætlun 2004-2006. - Drög lögð fram á fundi bæjarráðs.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram drög að þriggja ára áætlun 2004-2006 fyrir Ísafjarðarbæ og stofnanir hans.

Bæjarráð vísar drögum að þriggja ára áætlun 2004-2006 fyrir Ísafjarðarbæ og stofnanir hans til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 9. janúar 2003.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ingi Þór Ágústsson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.