Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

320. fundur

Árið 2002, mánudaginn 2. desember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 27/11. 160. fundur.
Fundargerðin er í ellefu liðum.
1. liður. Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu um hvaða áhrif breytingar á viðmiðunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa á framlög vegna sérþarfa fatlaða í Ísafjarðarbæ.
5. liður. Þar sem fræðslunefnd telur hagstæðara að lagfæra Félagsheimilið á Suðureyri til bráðabirgða svo það sé nothæft til íþróttakennslu, felur bæjarráð bæjarritara í samráði við Skóla- og fjölskylduskrifstofu og rekstraraðila Félagsheimilisins á Suðureyri, að hefja framkvæmdir enda séu þær innan kostnaðaráætlunar kr. 350.000.-
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 26/11. 70. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 28/11. 51. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 26/11. 83. fundur.
Fundargerðin er í fjórtán liðum.
10. Bæjarráð tekur undir að farið verði í endurreisn hússins, enda fáist fjármagn frá Húsafriðunarnefnd til verksins.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 27/11. 161. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf menningarmálanefndar. - Framlag til Þingeyrarkirkju. 2002-11-0048.

Lagt fram bréf menningarmálanefndar dagsett 27. nóvember s.l., er varðar beiðni sóknarnefndar Þingeyrarsóknar um framlag til endurbyggingar á Þingeyrarkirkju. Erindið var sent menningarmálarnefnd frá bæjarráði 26. nóvember s.l.
Menningarmálanefnd telur sig ekki hafa til ráðstöfunar í núverandi eða væntanlegri fjárhagsáætlun fjármagn til að geta orðið við þessu erindi og vísar því aftur til bæjarráðs.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

3. Bréf fjármálastjóra. - Endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2002. 2002-09-0060.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 27. nóvember s.l., varandi endurskoðun á fjárhagsáætlun ársins 2002.
Á hjálögðum blöðum er spáð fyrir um niðurstöðu ársins. Gert er ráð fyrir að í stað 142 millj.kr. eigin fjármögnunar vegna rekstrar og fjárfestinga lækki sú tala í 105 millj.kr. þegar búið er að taka tillit til aukningar á útistandandi kröfum að upphæð 42 millj.kr. Tekjur aukast um 57 millj.kr. og útgjöld lækka um 22 millj.kr. eða nettó 79 millj.kr. betri rekstrarniðurstaða.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að endurskoðuð fjárhagsáætlun ársins 2002 verði samþykkt.

4. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla janúar - október 2002. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 25. nóvember s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar fyrir tímabilið janúar - október 2002. Framlegð frá rekstri fyrir afborganir lána mánuðina janúar-október í ár er 88 millj.kr. borið saman við 36 millj.kr. framlegð á sama tíma 2001. Í september s.l. voru bókaðar áfallnar vaxtatekjur af bankainnistæðum 72 millj.kr. og skýrist batinn í rekstri af þeirri tekjufærslu.
Útsvar einstaklinga (staðgreiðsla) var 617 millj.kr. mánuðina janúar-október 2002 en var 526 millj.kr. á sama tíma árið 2001. Á meðfylgjandi yfirlitstöflum má nánar sjá um rekstur ýmissa deilda og málaflokka.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Byggðastofnunar. - Rafrænt samfélag. 2002-08-0053.

Lagt fram bréf frá Byggðastofnun dagsett 27. nóvember s.l., um þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árið 2002-2005, sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 2002, er kveðið er á um að hrinda skuli í framkvæmd verkefni sem nefnt er ,,rafrænt samfélag" og er Byggðastofnun falin framkvæmd verkefnisins. Hið opinbera leggur fram ákveðið fjármagn gegn a.m.k. jafn háu mótframlagi þátttakenda. Þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni á komandi árum mun að hluta til byggjast á því hvernig einstaklingum og fyrirtækjum tekst að hagnýta sér þá möguleika sem upplýsinga- og fjarskiptatækni gefur. Því eru sveitarfélög hvött til þátttöku í tilraunaverkefninu.
Hjálagt fylgir afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis dagsett 22. ágúst s.l., umsókn Ísafjarðarbæjar um þátttöku í þessu verkefni.

Bæjarráð vísar erindinu til atvinnumálanefndar og felur nefndinni úrvinnslu málsins.

6. Bréf Samtaka sveitarf. á köldum svæðum. - Fundargerðir ofl.

Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum dagsett 25. nóvember s.l., ásamt fundargerð 6. ársfundar frá 7. nóvember s.l. og skýrslu stjórnar starfsárið 2001-2002 svo og fundargerð stjórnar frá fundi er haldinn var 7. nóvember s.l.

Lagt fram til kynningar.

7. Frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2003, til fyrri umræðu.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóir, lagði fram frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2003, til fyrri umræðu, sem áætluð er á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 5. desember n.k.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að álagning útsvars á árinu 2003 verði 13,03%, eða óbreytt frá árinu 2002.

Bæjarráð vísar frumvarpi að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2003, til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.