Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

319. fundur

Árið 2002, mánudaginn 25. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 19/11. 193. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 20/11. 160. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Kauptilboð í Holtsskóla í Önundarfirði. 2002-07-0080.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 22. nóvember s.l., er varðar kauptilboð Prestsetrasjóðs, sem barst í Holtsskóla í Önundarfirði samkvæmt bréfi dagsettu 22. júlí 2002. Með bréfi bæjarstjóra fylgir bréf menntamálaráðuneytis dagsett 14. nóvember s.l., þar sem m.a. kemur fram að ráðuneytið telur kauptilboð Prestsetrasjóðs frá því í júlí s.l. að upphæð kr. 2.500.000.- eftir atvikum viðunandi og mælir með að því verði tekið.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að kauptilboði Prestsetrasjóðs í Holtsskóla í Önundarfirði að upphæð kr. 2.500.000.- verði tekið.

3. Bréf bæjarstjóra. - Drög að umsögn um breytingar á sveitarstjórnarlögum. 2002-11-0026.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 21. nóvember s.l., drög að umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998.

Bæjarráð samþykkir drög bæjarstjóra og felur honum að koma þeim á framfæri við félagsmálanefnd Alþingis.

4. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. - Umsögn vegna umsóknar um veitingaleyfi. 2002-11-0056.

Lagt fram bréf sýslumannsins á Ísafirði dagsett 19. nóvember s.l., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar um umsókn Steinþórs Friðrikssonar um veitingaleyfi fyrir Krúsina, Norðurvegi 1, Ísafirði og Sjallan, Hafnarstræti 12, Ísafirði. Svar við erindinu óskast eigi síðar en 3. desember n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

5. Bréf samgönguráðuneytis. - Ríkisstyrkir til upptökumannvirkja. 2002-11-0057.

Lagt fram bréf frá samgönguráðuneyti dagsett 20. nóvember s.l., til Ísafjarðarhafnar þar sem vísað er í bréf ráðuneytisins frá 21. febrúar 2002, varðandi ríkisstyrki á hafnaáætlun 2001-2004 til upptökumannvirkja. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir 60% ríkisstyrk til upptökumannvirkja, en nú hefur komið í ljós að með tilvísun til ákvæða í reglugerð ESB um ríkisstyrki til skipasmíðaiðnaðar er ekki hægt að veita hærri styrki en sem nema 12,5% til þeirra hafna er leigja út rekstur slíkra mannvirkja. Unnið er að frekari skoðun málsins.

Bæjarráð vísar erindinu til hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

6. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Svör við fyrirspurnum bæjarráðs-fulltrúa um fræðslumál.

Lagt fram bréf frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 21. nóvember s.l., svör við fyrirspurnum bæjarráðsmanna frá 318. fundi bæjarráðs við fundargerð fræðslunefndar frá 159. fundi þann 13. nóvember s.l. Fyrirspurnirnar voru um fjölda barna í leikskólum Ísafjarðarbæjar og aldursgreiningu þeirra og um tilfærslu á nemendum innan grunnskóla Ísafjarðarbæjar svo og á milli sveitarfélaga og kostnaðarskiptingu þegar svo er.

Ragnheiður Hákonardóttir, bæjarráðsmaður, þakkar fyrir svör forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu. Lárus G. Valdimarsson, bæjarráðsmaður, þakkar og fyrir svör forstöðumanns.

Lagt fram til kynningar.

7. Fjárhagsáætlun ársins 2003. - Vinnugögn.

Lögð fram vinnugögn vegna væntanlegs frumvarps að fjárhagsáætlun Ísafjarðar-bæjar og stofnana hans fyrir árið 2003. Í þeim vinnugögnum er einvörðungu verið að fjalla um rekstur ekki fjárfestingar. Jafnframt er lagt fram hefti með samantekt á greinargerðum frá deildum og sviðum, erindum vísað til fjárhagsáætlunar 2003 svo og yfirlit beiðna um fjárfestingar og ný rekstrarverkefni. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, kom á fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:07

Þorleifur Pálsson

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.