Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

317. fundur

Árið 2002, mánudaginn 11. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Fjarverandi er Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi og er Kristján Andri Guðjónsson mættur í hans stað. Bæjarráð gerir ekki athugasemd við setu hans sem áheyrnarfulltrúa á fundinum.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 7/11. 19. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 5/11. 191. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 6/11. 158. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Bæjarráð bendir á að sömu samningar gilda um kjör leikskólakennara hjá Ísafjarðarbæ og öðrum sveitarfélögum innan Launanefndar sveitarfélaga.
2. liður. Bæjarráð vill benda á að samningur við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar byggist fyrst og fremst á sérstöðu þeirri sem skólinn hefur skapað sér á landsvísu með fjölbreyttri starfsemi á sviði listsköpunar af ýmsum toga.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 7/11. 4. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Agnars Þ. Sigurðssonar. - Sumarhús á Flateyri. 2002-09-0026.

Lögð fram þrjú bréf frá Agnari Þ. Sigurðssyni, Móholti 10, Ísafirði, dagsett 8. nóvember s.l., þar sem hann staðfestir kauptilboð sín í sumarhúsin Oddatún 3 og 5 á Flateyri, hvort um sig að upphæð kr. 2.540.000.-, en dregur til baka tilboð sitt í sumarhúsið Oddatún 2 á Flateyri.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboðum Agnars Þ. Sigurðssonar í Oddatún 3 og 5 á Flateyri verði tekið.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að auglýsa að nýju sumarhúsið að Oddatúni 2, Flateyri.

3. Bréf Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar. - Ósk um hækkun styrks. 2002-11-0024.

Lagt fram bréf frá Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, Ísafirði, dagsett 28. október s.l., þar sem óskað er eftir hækkun á styrk Ísafjarðarbæjar til skólans. Styrkurinn er á þessu ári kr. 1.600.000.- Í bréfinu er m.a. greint frá aðsókn að skólanum og starfsemi hans.

Bæjarráð bendir á að málið er í afgreiðslu hjá fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar eins og fram kemur í fundargerð fræðslunefndar frá 6. nóvember s.l.

4. Bréf Byggðasafns Vestfjarða. - Nýbygging í Neðstakaupstað. 2002-11-0022.

Lagt fram bréf frá Byggðasafni Vestfjarða dagsett 4. nóvember s.l., er varðar nýbyggingu Byggðasafns Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði. Í bréfinu er þess farið á leit við Ísafjarðarbæ að byggingarleyfis- og gatnagerðargjöld samtals kr. 2.745.729.- verði ekki innheimt heldur verði þau reiknuð sem hluti af framlagi Ísafjarðarbæjar til verkefnisins.

Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2003.

5. Umsóknir um starf hundaeftirlitsmanns Ísafjarðarbæjar. 2002-10-0066.

Lagðar fram umsóknir neðangreindra aðila um starf hundaeftirlitsmanns hjá Ísafjarðarbæ, er inn hafa komið eftir auglýsingu um starfið í Bæjarins Besta:

Benedikt Sigurðsson, Hafnargötu 115a, Bolungarvík.
Guðrún Steingrímsdóttir, Brúnalandi 1, Bolungarvík.
Halldór Antonsson, Aðalstræti 16, Ísafirði.
Halldór Jónsson, Múlalandi 14, Ísafirði.
Valur Richter, Fjarðarstræti 13, Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarritara að kanna aðstæður umsækjenda til að sinna starfinu og koma með tillögu til bæjarráðs.

6. Bréf Menntaskólans á Ísafirði. - Embættisbústaður skólameistara. 2002-09-0033.

Lagt fram bréf frá skólanefnd Menntaskólans á Ísafirði dagsett 5. nóvember s.l., svar við fyrirspurn Ísafjarðarbæjar í bréfi dagsettu 15. október s.l., varðandi söluandvirði á húsinu Árholti 5, Ísafirði og ráðstöfun þess.

Bæjarráð þakkar svar skólanefndar MÍ.

7. Bréf Akraneskaupstaðar. - Samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. 2002-11-0017.

Lagt fram bréf frá Akraneskaupstað dagsett 30. október s.l., þar sem þakkaður er stuðningur Ísafjarðarbæjar við m.a. uppbyggingu Norðuráls á Grundartanga í ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um atvinnumál frá 129. fundi þann 17. október 2002.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Súðavíkurhrepps. - Náttúrustofa Vestfjarða. 2002-10-0078.

Lagt fram bréf frá Súðavíkurhreppi dagsett 6. nóvember s.l., varðandi drög að samningi um rekstur Náttúrustofu Vestfjarða. Í bréfinu kemur fram að hreppsnefnd Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að fresta afgreiðslu að sinni og leggja það til að fleiri sveitarfélög verði aðilar að samningnum. Einnig væri æskilegt að frekari skipting á rekstrarkostnaði liggi fyrir í samningsdrögum.

Bæjarstjóri upplýsti að hvað Ísafjarðarbæ varðaði væri málið í vinnslu hjá bæjarstjóra og að frestur til að skila umsögn um drög að samningnum hefur verið framlengdur til 20. nóvember n.k.

9. Snorraverkefnið. - Styrkbeiðni. 2002-11-0018.

Lagt fram bréf frá Ástu S. Kristjánsdóttur, verkefnisstjóra Snorraverkefnisins, dagsett þann 1. nóvember s.l., þar sem sótt er um styrk til Snorraverkefnisins fyrir árið 2003. Tilgangur verkefnisins er að auka tengsl við Vestur-Íslensk ungmenni og kynna þeim tungumálið, söguna, menningu o.fl.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

10. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Fundargerðir stjórnar. 2002-01-0191.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða frá 54, 55, 56, 57 og 58 fundi.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf félagsmálanefndar Alþingis. - Frumvarp til sveitarstjórnarlaga. 2002-11-0026.

Lagt fram bréf frá félagsmálanefnd Alþingis dagsett 6. nóvember s.l., ásamt frumvarpi til sveitarstjórnarlaga, 15. mál, íbúaþing. Óskað er umsagnar sveitarfélagsins er berist eigi síðar en 20. nóvember n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá drögum að umsögn Ísafjarðarbæjar og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:21

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Kristján Andri Guðjónsson, áheyrnarfulltrúi.