Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

312. fundur

Árið 2002, mánudaginn 7. október kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Drög að samningi við BÍ um íþróttasvæðið á Torfnesi. - Fulltrúar íþrótta- og æskulýðsnefndar, BÍ og HSV mæta á fund bæjarráðs.

Til fundar við bæjarráð eru mættir fulltrúar íþrótta- og æskulýðsnefndar þeir Ingi Þór Ágústsson og Sturla Páll Sturluson, fulltrúar BÍ þeir Kristján Pálsson og Óli M. Lúðvíksson og fulltrúrar HSV þeir Kristinn Jón Jónsson og Björgmundur Ö. Guðmundsson. Jafnframt er Björn Helgason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Ísafjarðarbæjar, mættur á fundinn. Umræðuefnið er uppbygging á íþróttasvæðinu á Torfnesi, Ísafirði.

Bæjarráð telur að umræður um málið hafi verið mjög gagnlegar og nýtist sem góður undirbúningur við gerð fjárhagsáætlunargerðar ársins 2003.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 1/10. 189. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
2. liður. Bæjarráð vísar beiðni félagsmálanefndar til endurskoðunar á fjárhagsáætlun er nú stendur yfir. Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera stjórn Samb. ísl. sveitarf. grein fyrir stöðu mála varðandi greiðslu húsaleigubóta hjá Ísafjarðarbæ.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Þróunar- og starfsmenntunarsjóður Ísafjarðarbæjar 30/9. 6. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
2. liður. Bæjarráð bendir á að fjármagni til úthlutunar námsleyfa á þessu ári hefur verið ráðstafað og vísar umsókninni til almennrar afgreiðslu með tilvísan til 3. liðar þessarar fundargerðar.
Lárus G. Valdimarsson óskaði bókaða hjásetu sína við afgreiðslu þessa liðar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf skipulags- og byggingarfulltrúa. - Göngustígur, Vallartún - Seljaland. 2002-10-0024.

Lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa, dagsett 4. október s.l., varðandi göngustíg frá Vallartúni að Seljalandi í Skutulsfirði. Upplýsingar í bréfi Stefáns eru fram komnar að beiðni bæjarráðs frá 311. fundi þann 30. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. - Beiðni um styrk. 2002-10-0025.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 4. október s.l., þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 60.000.- frá Ísafjarðarbæ vegna fyrirhugaðs námskeiðs er nefnist ,,Öflugt sjálfstraust" og er ætlað fyrir foreldra barna í leikskólum og grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarritara að annast afgreiðslu þess.

5. Bréf Hvíldarkletts ehf. - Umsókn um vínveitingaleyfi. 2002-10-0009.

Lagt fram bréf frá Hvíldarkletti ehf., dagsett 27. september s.l. þar sem fyrirtækið sækir um vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn Kaffi Ísafjörð, sem staðsettur verður við Mánagötu 1 á Ísafirði.
Bæjarstjóri upplýsti að hann hafi rætt við rekstraraðila er tjáði bæjarstjóra að aðal inngangur hússins yrði við Hafnarstræti.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að veitt verði vínveitingaleyfi til Hvíldarkletts ehf. vegna Kaffi Ísafjörður, að uppfylltum þeim skilyrðum er lög og reglugerðir kveða á um.

6. Bréf Ágústar og Flosa ehf. - Sölutilboð, Austurvegur 2, Ísafirði. 2002-10-0026.

Lagt fram bréf frá Ágústi og Flosa ehf., Ísafirði, dagsett 2. október s.l., þar sem Ísafjarðarbæ er boðin til kaups fasteignin að Austurvegi 2 á Ísafirði. Um er að ræða þann hluta húsnæðisins að Austurvegi 2, sem áður var nýttur sem kjötvinnsluhúsnæði af Kaupfélagi Ísfirðinga. Söluverð taki mið af gatnagerðargjöldum af sambærilegri eign að frádregnum kostnaði við niðurrif.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við tilboðsgjafa.

7. Bréf bæjarstjóra. - Drög að umsögn Ísafjarðarbæjar vegna Breiðafjarðarferju. 2002-09-0103.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 3. október s.l., drög að umsögn Ísafjarðarbæjar um Breiðafjarðarferjuna Baldur, með tilvísun til bréfs Siglingastofnunar er tekið var fyrir á 311. fundi bæjarráðs þann 30. september s.l.

Bæjarráð samþykkir drög bæjarstjóra með þeim áherslum er fram komu á fundi bæjarráðs.

8. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Reglur um félagslega heimaþjónustu í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar. Í bréfinu koma fram breytingatillögur félagsmálanefndar við reglur um félagslega heimaþjónustu í Ísafjarðarbæ. Bréfinu fylgja og eldri reglur um félagslega heimaþjónustu.

Bæjarráð mælir með staðfestingu á reglum um félagslega heimaþjónustu í Ísafjarðarbæ.

9. Bréf landbúnaðarráðuneytis. - Jörðin Staður í Aðalvík. 2002-05-0028.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneyti dagsett 30. september s.l., svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 22. júlí s.l., varðandi hugsanlega sölu jarðanna Staðar og hjáleigunnar Læks í Aðalvík til Ísafjarðarbæjar. Í svari ráðuneytisins kemur fram að ekki sé fyrirhugað að selja jarðirnar að sinni.

Lagt fram til kynningar.

10. Kauptilboð Ingibjargar Valdimarsdóttur og Hrólfs Valdimarssonar í íbúð að Eyrargötu 6, Ísafirði.

Lagt fram kauptilboð Ingibjargar Valdimarsdóttur og Hrólfs Valdimarssonar í íbúð 0102 að Eyrargötu 6, Ísafirði. Kauptilboðið hljóðar upp á kr. 5.000.000.- Kaupverð greiðist við undirritun samnings.

Bæjarráð samþykkir ofangreint kauptilboð.

11. Kauptilboð Fjölnis M. Baldurssonar og Lidiu Nowrocka í íbúð að Eyrargötu 6, Ísafirði.

Lagt fram kauptilboð Fjölnis M. Baldurssonar og Lidiu Nowrocka í íbúð 0102 að Eyrargötu 6, Ísafirði. Kauptilboðið hljóðar upp á kr. 5.000.000.- Við undirritun samnings greiðast kr. 500.000.-, greitt með húsbréfum kr. 3.250.000.- og andvirði viðbótarláns kr. 1.250.000.-

Bæjarráð hafnar ofangreindu kauptilboði.

12. Bréf atvinnumálanefndar. - Könnun á stöðu atvinnumála í Ísafjarðarbæ. 2002-09-0104.

Lagt fram bréf frá atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar dagsett 24. september s.l., varðandi væntanlega könnun á stöðu atvinnumála í Ísafjarðarbæ. Bréfinu fylgja atvinnumálakannanir frá Húsavíkurkaupstað og Eyjafjarðarsvæðinu.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:51

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.