Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

311. fundur

Árið 2002, mánudaginn 30. september kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 25/9. 155. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
6. liður. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum varðandi tillögu um göngustíg.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. Framkvæmdir við Hlíf I. og II. 2002-05-0070.

Lagt fram bréf Margrétar Geirsdóttur, ráðgjafa hjá Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 24. september s.l., þar sem gerð er grein fyrir kostnaði við fyrri áfanga framkvæmda utanhúss á Hlíf I. og II. Samkvæmt áætlun sem unnin er af Árna Traustasyni hjá VST, kemur í ljós að kostnaður við þær framkvæmdir muni fara fram úr áætlun. Hlutur Ísafjarðarbæjar umfram það er áður hefur verið samþykkt verður um kr. 1.263.000.- og er óskað eftir aukafjárveitingu fyrir þeirri upphæð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara yfir meðfylgjandi útreikninga og leggja erindið aftur fyrir bæjarráð.

3. Bréf Lögfræðiskrifstofu T. Guðmundssonar ehf., - Forkaupsréttur. 2002-09-0108.

Lagt fram bréf frá Lögfræðiskrifstofu T. Guðmundssonar ehf., Ísafirði, dagsett þann 24. september s.l., þar sem Ísafjarðarbæ er boðinn forkaupsréttur að húseigninni Fjarðarstræti 18, Ísafirði, ásamt bílskúr að Fjarðarstræti 16, Ísafirði.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

4. Bréf Almennu málflutningsstofunnar. - Forkaupsréttur. 2002-09-0101.

Lagt fram bréf Almennu málflutningsstofunnar, Reykjavík, dagsett 24. september s.l., þar sem Ísafjarðarbæ er boðinn forkaupsréttur að hluta jarðarinnar Álfadal á Ingjaldssandi í Önundarfirði.

Bæjarráð óskar umsagnar jarðanefndar Vestur Ísafjarðarsýslu.

5. Áskorun til bæjaryfirvalda vegna veitingu vínveitingaleyfis.

Lagður fram undirskriftalisti, árskorun til bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ, þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að neita rekstraraðilum að Mánagötu 1, Ísafirði, um vínveitingaleyfi eftir kl. 24:00 jafnt virka daga sem helga. Áskorunin er undirrituð af níu íbúum við Mánagötu og Hrannargötu.
Bæjarstjóri upplýsti að inn hefur verið lögð umsókn frá Hvíldarkletti ehf., beiðni um vínveitingaleyfi fyrir Kaffi Ísafjörð, Mánagötu 1, Ísafirði. Jafnframt hefur lögreglustjórinn á Ísafirði óskað umsagnar Ísafjarðarbæjar vegna umsóknar um veitingaleyfi frá sama aðila.

Bæjarráð frestar afgreiðslu erindisins þar til fyrir liggur formleg umsókn um vínveitingaleyfi. Bæjarstjóra falið að upplýsa forsvarsmann undirskriftarlistans um stöðu mála.

6. Bréf Nýsis hf., Hafnarfirði. - Byggðakvóti Byggðastofnunar. 2002-09-0106.

Lagt fram bréf frá Nýsi hf., Hafnarfirði, er varðar ráðstöfun byggðakvóta Byggðastofnunar fiskveiðiárið 2002-2003. Byggðastofnun stefnir að úthlutun byggðakvóta sem fyrst. Úthlutun verði byggð á 5 ára samningi er stofnunin gerði við fiskverkunina Fjölni á Þingeyri og Vísi hf. og sveitarfélagið Ísafjarðarbæ. Óskað er eftir áliti Ísafjarðarbæjar á því hvort skilyrði fyrrgreinds samnings og afleiddra samninga hafi verið efnd á síðasta fiskveiðiári og hvort forsendur séu fyrir því að úthluta aftur á grundvelli þeirra til sömu aðila.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla upplýsinga um hvort ofangreindir aðilar hafi staðið við fyrrgreindann samning. Bæjarráð óskar eftir að fulltrúar Fjölnis á Þingeyri komi til fundar við bæjarráð er upplýsingarnar liggja fyrir.

7. Bréf Knattspf. Harðar, Ísafirði. - Handbolti og ,,Harpix". 2002-09-0097.

Lagt fram bréf frá Knattspf. Herði, Ísafirði, dagsett 23. september s.l., er varðar heimild til notkunar á ,,Harpix" í Íþróttahúsinu á Torfnesi, á handboltaæfingum félagsins.
Til upplýsinga er lögð fram umsögn starfsmanns í Íþróttahúsinu á Torfnesi til forstöðumanns, þar sem fram kemur að málið mun vera leyst.

Bæjarráð vísar erindinu til íþrótta- og æskulýðsnefndar og beinir því til nefndarinnar að skoða hvort ástæða sé til að endurskoða reglur um bann við notkun á ,,Harpix" í Íþróttahúsinu á Torfnesi.

8. Bréf Gísla Þ. Guðmundssonar. - Kauptilboð í Sundstræti 21, Ísafirði. 2002-08-0016.

Lagt fram bréf Gísla Þ. Guðmundssonar dagsett 23. september s.l., þar sem hann gerir kauptilboð í húseignina Sundstræti 21, Ísafirði, að upphæð kr. 150.000.- með fyrirvara um fjármögnun. Í tilboðinu kemur fram að húsið verði gert upp á næstu tveimur árum og verði komið í upprunalegt horf.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við tilboðsgjafa.

9. Kauptilboð Kristins Þ. Jónssonar í Sundstræti 21, Ísafirði. 2002-09-0028.

Lagt fram kauptilboð Kristins Þ. Jónsonar dagsett þann 10. september s.l., í Sundstræti 21, Ísafirði, að upphæð kr. 151.000.- Í tilboðinu kemur fram að tilboðsgjafa er kunnugt um skilyrði bæjarráðs fyrir sölu eignarinnar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við tilboðsgjafa.

10. Bréf Siglingastofnunar. - Breiðafjarðarferjan Baldur. 2002-09-0103.

Lagt fram bréf frá Siglingastofnun dagsett 25. september s.l., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar um siglingar Breiðafjarðarferju og framtíð þeirra í fyrirsjáanlegu breyttu umhverfi með bættum samgöngum á landi. Umsagnar er óskað fyrir 7. október n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera drög að umsögn og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

11. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Stefnumótun í menningarmálum. 2002-06-0055.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 20. september s.l., varðandi fund um stefnumótun í menningarmálum á vegum Fjórðungssambandsins.

Lagt fram til kynningar.

12. Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum. - Fundargerð 18. stjórnarfundar. 2002-09-0099.

Lögð fram fundargerð 18. stjórnarfundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum er haldinn var þann 16. september s.l. að Háaleitisbraut 11 og Arnarhvoli, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

13. Fundargerð 71. skólanefndarfundar Menntaskólans á Ísafirði. 2002-01-0192.

Lögð fram fundargerð 71. skólanefndarfundar Menntaskólans á Ísafirði, er haldinn var þann 16. september s.l.
Í fjórða lið fundargerðarinnar er rætt um aukafund bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 5. september s.l. svo er ekki, um var að ræða reglulegan fund bæjarstjórnar.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:53

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.