Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

309. fundur

Árið 2002, mánudaginn 16. september kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 10/9. 155. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Bæjarráð óskar eftir að fá reglur þær er gilda um skólavist barna í skólum utan lögheimilissveitarfélags.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 12/9. 1. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 11/9. 154. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
5. liður. Bæjarráð telur ekki rétt að rífa íbúðarhúsið að Neðri Tungu og felur bæjarstjóra að ræða við forstöðumann tæknideildar Ísafjarðarbæjar um málið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla janúar-júlí 2002. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 13. september s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar janúar - júlí 2002. Fjármálastjóri kom á fund bæjarráðs.

Lagt fram til kynningar.

3. Bréf fjármálastjóra. - Aukafjárveitingar og endurskoðun fjárhagsáætlunar 2002. 2002-09-0060.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 13. september s.l., varðandi aukafjárveitingar á árinu og endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2002, til samræmis við 10. gr. bæjarmálasamþykktar sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga. Bréfi fjármálastjóra fylgja upplýsingar um aukafjárveitingar, lánveitingar og aukningu útgjalda utan fjárhagsáætlunar 2002. Fjármálastjóri kom á fund bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir að hafin verði vinna við endurskoðun á fjárhagsáætlun 2002 og tillögur liggi fyrir innan mánaðar.

4. Drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2003.

Lögð fram drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun fyrir árið 2003, sett upp af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra og Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra. Fjármálastjóri kom á fund bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2003.

5. Varðveisla gamalla húsa á Ísafirði. - Bréf undirbúningshóps. 2002-09-0063.

Lagt fram bréf frá undirbúningshópi um varðveislu gamalla húsa á Ísafirði dagsett 11. september s.l. Í bréfinu er óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ að upphæð kr. 100.000.- í verkefnið sem hloti hefur nafnið ,,Húsin á Tanganum". Að undirbúningi verkefnisins koma nokkrir einstaklingar sem hafa hug á að reyna nýjar leiðir við varðveislu menningarminja, í þessu tilviki þyrpingu gamalla húsa á Ísafirði. Bréfinu fylgir greinargerð og afrit bréfa frá menntamálaráðuneyti og Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Bæjarráð telur að um áhugavert verkefni sé að ræða og vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003.

6. Minnisblað bæjarstjóra. - Fundir bæjarstjóra vegna menningarhúsamála og samstarfs í háskólamálum.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 10. september s.l., varðandi fundi bæjarstjóra vegna menningarhúsamála og samstarfs í háskólamálum. Í minnisblaðinu er m.a. fjallað um fornleifarannsóknir á gamla bæjarstæðinu á Eyri í Skutulsfirði, menningarhús á Ísafirði og stofnun háskólaseturs á Vestfjörðum.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf bæjarstjóra. - Fjárlaganefnd Alþingis, fjárlagaerindi Ísafjarðarbæjar. 2002-09-0064.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 13. september s.l., varðandi fjárlaganefnd Alþingis og væntanlegan fund fulltrúa Ísafjarðarbæjar með nefndinni mánudaginn 23. september n.k. Meðfylgjandi er samantekt þeirra erinda sem formaður bæjarráðs og bæjarstjóri fóru með á síðasta fund fjárlaganefndar ásamt drögum að erindum ársins í ár.

Bæjarráð samþykkir framlögð drög.

8. Bréf Starfsmannafélags Orkubús Vestfjarða. Skipan í samráðsnefnd Ísafjarðarbæjar um málefni OV. 2002-08-0059.

Lagt fram bréf Starfsmannafélags Orkubús Vestfjarða dagsett 4. september s.l., varðandi tilnefningu félagsins í samráðsnefnd Ísafjarðarbæjar um málefni OV. Tilnefndir eru Þórður J. Skúlason, Gestur Kristinsson og Skúli Skúlason.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Starfsmannafélags Orkubús Vestfjarða. - Samþykkt aðalfundar. 2002-09-0029.

Lagt fram bréf frá Starfsmannafélagi Orkubús Vestfjarða dagsett 4. september s.l., þar sem fram kemur að á aðalfundi félagsins var fagnað og studd er ályktun 47. Fjórðungsþings Vestfirðinga í orkumálum. Aðalfundurinn hvetur sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum og þingmenn hins nýja Norðvesturkjördæmis til að fylgja þeirri ályktun eftir af festu við ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála svo og við ríkisstjórn Íslands.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. 2002-05-0043.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 9. september s.l., þar sem greint er frá afgreiðslu bréfs Ísafjarðarbæjar frá 12. júní s.l., varðandi sérstakt þjónustuframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í bréfi Ísafjarðarbæjar er bent á misræmi, sem er í forsendum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga annars vegar og hins vegar í þeim forsendum er gefnar eru vegna stærðarmarka við sameiningu svietarfélaga.

Erindi Ísafjarðarbæjar var lagt fyrir á fundi ráðgjafanefndar Jöfnnarsjóðs 5. september s.l. Á fundinum var samþykkt að leggja til að vísa erindinu til endurskoðunarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en nefndin hefur það hlutverk að endurskoða gildandi laga- og reglugerðarákvæði um sjóðinn.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.

11. Kauptilboð í Sundstræti 21, Ísafirði. 2002-08-0016.

Lagt fram kauptilboð frá Gísla Þór Guðmundssyni dagsett 28. ágúst s.l., í húseignina Sundstræti 21, Ísafirði.

Bæjarráð frestar afstöðu til tilboðsins að sinni.

12. Framkvæmdasýsla ríkisins. - Skoðunarferð til Frakklands og Sviss. 2002-09-0065.

Lagt fram tölvubréf frá Framkvæmdasýslu ríkisins dagsett 6. september s.l., varðandi fyrirhugaða ferð til Frakklands og Sviss til að kynna sér gerð snjóflóðavarna þ.e. snjóflóðavarnargarða og stoðvirkja í þessum löndum. Ferðin er dagana 29. september til 6. október og er opin fulltrúum bæjarfélaga og verkkaupa á snjóflóða- hættusvæðum.

Bæjarráð samþykkir að bæjartæknifræðingur fari í þessa ferð.

13. Fjarvinnslan á Suðureyti. - Símsvörunarþjónusta. 2002-09-0066.

Lagt fram dreifibréf frá Fjarvinnslunni á Suðureyri þar sem fyrirtækið er að kynna þjónustu sína við stofnanir og fyrirtæki. Bréfinu fylgir og umsögn nokkura viðskiptavina um fyrirtækið.

Lagt fram til kynningar.

14. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Ályktanir 47. Fjórðungsþings. 2002-06-0002.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 10. september s.l., varðandi 47. Fjórðungsþing er haldið var í Bolungarvík dagana 30. og 31. ágúst s.l. og ályktanir er gerðar voru á þinginu. Ályktanirnar fylgja bréfinu.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:52

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.