Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

308. fundur

Árið 2002, mánudaginn 9. september kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:

1. Lýður Árnason mætir til fundar við bæjarráð vegna kynningar á gerð kvikmyndar á norðanverðum Vestfjörðum.

Til fundar við bæjarráð er mættur Lýður Árnason, læknir, til að kynna gerð kvikmyndar á norðanverðum Vestfjörðum á vegum Í einni sæng ehf. Gerð myndar: Kómídrama, sögusvið íslensk sveit rétt eftir 1800, tímabil eitt ár. Lengd myndar verður um 90-100 mín. Leitað er eftir aðstoð frá Ísafjarðarbæ í einni og eða annari mynd.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og leggur til við bæjarstjórn að Ísafjarðarbær taki þátt í verkefninu með aðstöðusköpun.

2. Pétur Sigurðsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, mætir til fundar við bæjarráð.

Á 304. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 12. ágúst s.l., var fram lagt bréf frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga dagsett 18. júlí s.l., þar sem fjallað var um endurskipulagningu á þjónustudeild Hlífar á Ísafirði og uppsagnir starfsfólks. Bæjarráð bauð þá formanni verkalýðsfélagsins til fundar um málið og er koma Péturs Sigurðssonar nú á fund bæjarráðs í framhaldi af því. Jafnframt eru mætt á fund bæjarráðs Margrét Geirsdóttir, ráðgjafi á Skóla- og fjölskylduskrifstofu og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri.

Rætt var um endurskipulagningu á þjónustudeild Hlífar, uppsögn starfsmanna, ráðningar og endurráðningar starfsfólks. Jafnframt kom inn í umræðuna vinnuaðstaða á þjónustudeildinni.

3. Fundargerðir nefnda.

Almannavarnanefnd 5/9.
Fundargerðin er í sex liðum.
1. liður. Bæjarráð bendir á að héraðslækni og varamann hans vantar í upptalningu nefndarmanna.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 4/9. 49. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Bréf bæjarritara. - Sala sumarhúsa á Flateyri. 2002-09-0026.

Lagt fram bréf frá bæjarritara dagsett 6. september s.l., þar sem óskað er heimildar bæjarráðs til að selja tvö sumarhús við Oddatún á Flateyri. Í bréfi bæjarritara er vitnað til hugmynda Íbúasamtaka Önundarfjarðar frá því s.l. vor um að nota m.a. andvirði þriggja sumarhúsa á Flateyri til að fjármagna kostnað við félagsaðstöðu að Hafnarstræti 11, Flateyri.

Bæjarráð samþykkir að tveir bústaðir við Oddatún á Flateyri verði auglýstir til sölu.

5. Bréf Byggðastofnunar. - Framlag til stofnunar eignarhaldsfélags á Vestfjörðum. 2002-04-0061.

Lagt fram bréf frá Byggðastofnun dagsett þann 3. september s.l., þar sem svarað er bréfi Ísafjarðarbæjar frá 23. apríl s.l., varðandi fyrirspurn um ráðstöfun fjármagns, sem ætlað er sem framlag ríkisins til stofnunar eignarhaldsfélags á Vestfjörðum. Í bréfinu kemur fram að þann 12. apríl s.l. var samþykkt hlutafjárframlag í stjórn Byggðastofnunar samtals að fjárhæð kr. 118.000.000.- til Byggingalistar ehf., Fiskvinnslunnar Drangs ehf. og Þórodds ehf., þannig að um eitt sameiginlegt eignarhaldsfélag verði að ræða.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að leita frekari upplýsinga um ráðstöfun þess fjár er ætlað var frá ríkinu til stofnunar eignarhaldsfélags á Vestfjörðum. Mikilvægt er að fá þessar upplýsingar þar sem unnið er að undirbúningi stofnunar eignarhaldsfélags á vegum atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. ásamt fl. er tengjast undirbúningnum.

6. Bréf sóknarnefndar Staðarprestakalls. - Girðing um Staðarkirkjugarð. 2002-09-0027.

Lagt fram bréf frá Birni Birkissyni f.h. Staðarprestakalls í Súgandafirði, dagsett 3. september s.l., þar sem greint er frá að fyrir liggi að ljúka gerð girðingar umhverfis Staðarkirkjugarð og er áætlaður framkvæmdatími á vori komanda.
Samkvæmt lögum mun efniskostnaður slíkrar girðingar falla á sveitarfélagið. Áætlaður kostnaður er um kr. 600 þúsund.

Bæjarráð vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003.

7. Kauptilboð í húseignina Sundstræti 21, Ísafirði. 2002-09-0028.

Lagt fram kauptilboð frá Kristni Þ. Jónssyni, Urðarvegi 27, Ísafirði, í húseignina Sundstræti 21, Ísafirði. Tilboðið er dagsett þann 3. september s.l.

Bæjarráð frestar afgreiðslu að sinni þar sem í ofangreint tilboð vantar skilyrði bæjarráðs fyrir sölu eignarinnar sem bókuð voru á 305. fundi bæjarráðs 8. lið og að ekki verði um sölu eignarlóðar að ræða.

8. Bréf húsnæðisfulltrúa og bæjarritara. - Hundahald í fjölbýlishúsum. 2002-09-0031.

Lagt fram bréf húsnæðisfulltrúa og bæjarritara dagsett 6. september s.l., þar sem óskað er samþykkis bæjarráðs á að með öllu verði bannað hundahald í fjölbýlishúsum í eigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar, þrátt fyrir heimild til undanþágu er fram kemur í samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð samþykkir erindið, enda sé ekki verið að ganga á rétt þeirra sem e.t.v. hafa nú þegar fullt samþykki annara íbúa fyrir að halda hund í íbúð sinni.

9. Bréf heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytis. - Viðhald á þaki Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. 2002-09-0032.

Lagt fram bréf frá heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti dagsett 3. september s.l., þar sem greint er frá fyrirhuguðum framkvæmdum við viðhald á þaki Fjórðungs- sjúkrahússins á Ísafirði. Gerður hefur verið verksamningur við Helgason & co. hf. í Reykjavík, um verkið og hljóðar hann upp á kr. 6.114.872.- og koma 15% af þeim kostnaði í hlut Ísafjarðarbæjar og til greiðslu í janúar 2003.

Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2003.

10. Saga bílsins á Íslandi. - Eitthundrað ára afmæli 2004. 2002-09-0015.

Lagt fram bréf frá Sögu bílsins á Íslandi ehf., Reykjavík, þar sem greint er frá að 100 ár verða liðin árið 2004 síðan fyrsti bíllinn kom til Íslands. Ákveðið hefur verið að minnast þessara tímamóta með bókaútgáfu og með bréfi þessu er leitað eftir framlagi til verksins.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

11. Drög að samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar og Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar. 2002-05-0012.

Lögð fram drög að samstarfssamningi á milli Ísafjarðarbæjar og Körfuknattleiks- félags Ísafjarðar sem tekur til samstarfs næstu fimm árin. Á því tímabili mun Ísafjarðar- bær greiða KFÍ kr. 1.000.000.- á ári í peningum, gegn vinnuframlagi og efni frá KFÍ. Samningsdrögin eru unnin af íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Bæjarráð vísar drögum að samningi við KFÍ til íþrótta- og æskulýðsnefndar Ísafjarðarbæjar og Héraðssambands Vestfirðinga til umsagnar.

12. Drög að samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar og Boltafélags Ísafjarðar. 2002-01-0135.

Lögð fram drög að samningi á milli Ísafjarðarbæjar og Boltafélags Ísafjarðar um framkvæmdir við uppbyggingu íþróttaaðstöðu á Torfnesi á Ísafirði. Verkinu verði áfangaskipt þannig að 1. áfangi verði 2002 og 2003, 2. áfangi verði síðan 2004 og 2005. Greiðslur Ísafjarðarbæjar til framkvæmdanna verða um kr. 88,5 milljónir króna, er dreifast á framkvæmdatímann þó mest fyrstu tvö árin. Verkið verði framkvæmt samkvæmt fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. Samningsdrögin eru unnin af íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Bæjarráð vísar drögum að samningi við BÍ til íþrótta- og æskulýðsnefndar Ísafjarðarbæjar og Héraðssambands Vestfirðinga til umsagnar.

13. Drög að samstarfssamningi á milli Héraðssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar. 2002-03-0019.

Lögð fram drög að samstarfssamningi á milli Héraðssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar, en markmið samningsins er að:
a. Auka gæði íþrótta í Ísafjarðarbæ (íþróttafélaga) og fjölga þátttakendum.
b. Stuðla að því að unnið sé samkvæmt fagstefnu.
c. Efla meðvitað forvarnarstarf íþróttafélaganna.
d. Efla samstarf og samráð íþróttafélaga í bænum.
e. Bæta samstarf og samráð HSV og Ísafjarðarbæjar.
f. Auka vægi íþróttastarfs í æskulýðsstarfsemi sveitarfélagsins.
Samningurinn er til tveggja ára og er rekstrarstyrkur Ísafjarðarbæjar til Héraðssambandsins kr. 5.500.000.- fyrir hvort samningsár og skal styrknum varið til eflingar æskulýðsstarfs íþróttafélaganna.

Bæjarráð vísar drögum að samstarfssamningi við HSV til íþrótta- og æskulýðsnefndar Ísafjarðarbæjar til umsagnar.

14. Samband ísl. sveitarf. - Breyting á lögum sambandsins, fækkun fulltrúaráðsmanna.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að svohljóðandi bókun verði samþykkt. ,, Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir fyrirhugaðri fækkun fulltrúaráðsmanna og stjórnarmanns frá Norðvesturkjördæmi í stjórn fulltrúaráðs Samb. ísl. sveitarf., á sama tíma og verið er að fjölga í yfirstjórn sambandsins. Þessi fyrirhugaða breyting er ekki í takt við yfirlýst markmið sambandsins að efla sveitarfélögin og sveitarstjórnarstigið. Þar sem sveitarstjórnastigið er sjálfstætt stjórnsýslustig er það ekki sjálfgefið, að það fylgi ríkisvaldinu við jöfnun atkvæðavægis og breytingu kjördæma."

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:52

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.