Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

307. fundur

Árið 2002, mánudaginn 2. september kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 27/8. 154. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Magnúsar Reynis Guðmundssonar, bæjarfulltrúa. - Seta í bæjarráði.

Lagt fram bréf frá Magnúsi Reyni Guðmundssyni, bæjarfulltrúa, dagsett 29. ágúst s.l., þar sem hann óskar eftir setu í bæjarráði Ísafjarðarbæjar með málfrelsi og tillögurétt með tilvísun til 49. gr. bæjarmálasamþykktar og 38. gr. sveitarstjórnarlaga.

Bæjarráð vísar erindinu til ákvörðunartöku í bæjarstjórn.

3. Bréf bæjarstjóra. - Gamla apótekið, drög að samkomulagi um starfsemi.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 29. ágúst s.l., ásamt drögum að samkomulagi um starfsemi Gamla apóteksins á Ísafirði. Drögin eru unnin af Elsu Friðfinnsdóttur, aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra. Bæjarstjóri gerði athugasemdir við drögin þann 13. ágúst s.l. Athugasemdirnar eru tilgreindar í ofangreindu bréfi.

Bæjarráð fagnar því að drög séu komin að samkomulagi um verkefnið milli þriggja ráðuneyta og Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð samþykkir athugasemdir bæjarstjóra við drögin og felur honum að athuga möguleika á aðkomu menntamálaráðuneytisins að verkefninu.

4. Bréf bæjarstjóra. - Funi, almennt ástand stöðvarinnar.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 30. ágúst s.l., þar sem hann vitnar til afgreiðslu bæjarráðs á bréfi forstöðumanns Funa frá 25. júlí s.l., þar sem sótt er um aukafjárveitingu vegna endurnýjunar á sorpkvörn í Sorpbrennslustöðinni Funa í Engidal. Bréfi bæjarstjóra fylgir bréf Víðis Ólafssonar, stöðvarstjóra Funa, dagsett 21. ágúst s.l., þar sem fjallað er um mat á ástandi Funa.

Bæjarráð samþykkir aukafjárveitingu fyrir nýrri sorpkvörn að upphæð 11.000.000,- kr. og felur fjármálastjóra að koma með tillögu að fjármögnun.

5. Drög að erindisbréfi fyrir íþrótta- og æskulýðsnefnd Ísafjarðarbæjar.

Lögð fram drög að erindisbréfi fyrir íþrótta- og æskulýðsnefnd Ísafjarðarbæjar. Drögin eru samin af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, í lok ágúst 2002.

Bæjarráð mælir með samþykkt erindisbréfsins með þeim breytingum sem fram komu í bæjarráði. Bæjarstjóra falið að breyta erindisbréfinu og senda út með gögnum fyrir bæjarstjórnarfund n.k. fimmtudag.

6. Bréf bæjarstjóra. - Rannsóknarverkefni um sjávarbyggðir í Kanada og á norðurslóðum.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 29. ágúst s.l., ásamt drögum að umsókn til Canadian research council, vegna rannsóknarverkefnis um sjávarbyggðir í Kanada og á norðurslóðum. Ef af verkefninu verður mun hluti þess verða unninn í Ísafjarðarbæ ásamt því að ráðstefna um verkefnið verði haldin í bænum.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf bæjarstjóra. - Upplýsingar við fundargerð félagsmálanefndar frá 20. ágúst s.l., er varða 4. og 5. tölulið.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 29. ágúst s.l., ásamt upplýsingum við 4. og 5. tölulið fundargerðar félagsmálanefndar þann 20. ágúst s.l., en bæjarráð óskaði eftir gögnum varðandi þessa liði á fundi sínum þann 26. ágúst s.l.

Í bókun félagsmálanefndar kemur fram að samningur um þjónustu og aðstöðu fótaaðgerðarfræðings verði yfirfarinn af bæjarlögmanni m.a. vegna samkeppnisákvæða. Bæjarráð óskar eftir að athugað verði hvort samningur geti einnig verið um þjónustu við eldri borgara í öðrum þéttbýliskjörnum bæjarfélagsins.

8. Afrit bréfs bæjarstjóra til Halldórs Matthíassonar vegna mjólkurkvóta. 2002-06-0035.

Lagt fram afrit bréfs Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 28. ágúst s.l., til Halldórs Matthíassonar, Fremrihúsum í Arnardal, Skutulsfirði, um fullvirðisrétt í mjólkurframleiðslu og samning við Ísafjarðarbæ. Samkvæmt samningi við Halldór Matthíasson frá 30. desember 1997 á Ísafjarðarbær forkaupsrétt að 7.134 lítrum af fullvirðisrétti verði mjólkurframleiðslu hætt að Fremrihúsum í Arnardal.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að bjóða mjólkurframleiðendum innan Ísafjarðarbæjar til kaups.

9. Kauptilboð í íbúð að Hjallavegi 21, Suðureyri.

Lagt fram að nýju kauptilboð frá Antoni Magnússyni, Suðureyri, í íbúð að Hjallavegi 21, efri hæð á Suðureyri. Kauptilboðið hljóðar upp á kr. 2.600.000.-. Íbúðin er í eigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir kauptilboðið.

10. Kauptilboð í íbúð að Fjarðarstræti 59, Ísafirði.

Lagt fram kauptilboð frá Albert Haraldssyni og Elvie Soon Bacalso, Hlíðarvegi 29, Ísafirði, dagsett 29. júlí s.l., í íbúð 0201 að Fjarðarstræti 59, Ísafirði. Kauptilboðið er að upphæð kr. 5.200.000.- Íbúðin er í eigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Að teknu tilliti til ástands íbúðarinnar samþykkir bæjarráð kauptilboðið.

11. Bréf Þóris Sveinssonar, formanns Grænlandsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. - Vinabæjartengsl við sveitarfélög á Grænlandi.

Lagt fram bréf, dagsett 28. ágúst s.l., varðandi ársfund Grænlenska sveitarfélagasambandsins er haldinn verður á Íslandi dagana 3.-6. september. Á fundinum gefst sveitarstjórnarmönnum á Íslandi tækifæri til að hitta fulltrúa vinabæja sinna á Grænlandi svo og ef þeir vilja stofna til nýrra vinabæjatengsla. Bréfinu fylgir dagskrá og listi með nöfnum þátttakenda.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda vinabæ Ísafjarðarbæjar kveðjur.

12. Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga - XVII. landsþing sambandsins, tillögur að breytingum á lögum sambandsins. 2002-06-0043.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 22. ágúst s.l., er varðar XVII. landsþing sambandsins og tillögur að breytingum á lögum þess. Landsþingið verðu haldið á Akureyri dagana 25.-27. september n.k. Bréfi sambandsins fylgja ýmis gögn varðandi þingið, undirbúning þess og þau atriði er helst varða þáttöku sveitarfélaganna svo sem tilkynningar um þátttöku ofl.

Lagt fram til kynningar.

13. Fundargerð frá fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, bæjarráðs Bolungarvíkur- kaupstaðar og hreppsnefndar Súðavíkurhrepps.

Lögð fram fundargerð frá fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar og hreppsnefndar Súðavíkurhrepps, er haldinn var í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þann 28. ágúst 2002.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með fundinn og væntir þess að hann marki mikilvægt skref til enn frekara samstarfs sveitarfélaganna.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:41

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri ritaði einnig fundargerð

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.