Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

301. fundur

Árið 2002, mánudaginn15. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Landbúnaðarnefnd 11/7. 48. fundur.
1. liður. Bæjarráð samþykkir, að tillögu landbúnaðarnefndar, ráðningu Karls Guðmundssonar í Bæ, Súgandafirði, sem búfjáreftirlits- og forðagæslumann Ísafjarðarbæjar.
4. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á fundi með Gísla Eiríkssyni, umdæmisverkfræðingi Vegagerðarinnar á Ísafirði, um þetta mál og önnur er varða samskipti Vegagerðarinnar og Ísafjarðarbæjar.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Umhverfisnefnd. 10/7. 151. fundur.
5. liður. Bæjarráð staðfestir afgreiðslur umhverfisnefndar undir þessum lið fundargerðarinnar.
9. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisnefndar um staðsetningu auglýsingastands á lóðinni við Hafnarstræti 17, Ísafirði, enda verði í samningnum gagnkvæmt uppsagnarákvæði og verði uppsagnarfrestur eitt ár.
Fundargerðin í heild sinni staðfest af bæjarráði.

2. Rammasamningur Golfklúbbs Ísafjarðar og Ísafjarðarbæjar. 2002-03-0018.

Lögð fram drög að rammasamningi á milli Golfklúbbs Ísafjarðar og Ísafjarðarbæjar um áframhaldandi uppbyggingu golfvallar í Tungudal í Skutulsfirði. Samningurinn er til 7 ára og er árleg föst peningagreiðsla til G.Í. kr. 2.100.000,- Samningsdrögin hafa verið lögð fyrir stjórnarfund hjá Héraðssambandi Vestfirðinga og fagnar stjórn HSV því að hægt sé að auka fjármagn til íþróttamála í Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð samþykkir framlögð drög að rammasamningi við Golfklúbb Ísafjarðar og felur bæjarstjóra undirritun hans. Kostnaður vegna samningsins á þessu ári verði bókfærður á liðinn ófyrirséð í fjármagnsstreymi.

3. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Málefni íþróttafélaga. 2002-07-0054.

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 11. júlí 2002, þar sem fram kemur að borist hafi erindi til HSV, frá Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar varðandi fjárþörf til framkvæmda, frá Íþróttafélaginu Gretti á Flateyri varðandi beiðni um aðstoð til að koma grasvelli félagsins í notkun og frá Íþróttafélaginu Stefni á Suðureyri vegna aðstöðuleysis og þarfa félagsins á að fá til ráðstöfunar tíma í Íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar og íþrótta- og æskulýðsnefndar.

4. Bréf bæjarstjóra. - Þekking í þágu þjóðar. 2002-01-0134.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 8. júlí s.l., varðandi verkefnið ,,Þekking í þágu þjóðar", sem er samstarfsverkefni Ísafjarðarbæjar og Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Í bréfinu kemur fram að úthlutað hefur verið styrkjum vegna verkefnisins og hafa eftirtaldir aðilar fengið styrk vegna verkefna er tengjast Ísafjarðarbæ. Þau eru: Björg A. Jónsdóttir í verkefnið ,,Hefur framboð fjarnáms á háskólastigi haft jákvæð áhrif á búsetuskilyrði?", Vilborg Davíðsdóttir í verkefnið ,,Þrettándasiðurinn á Þingeyri" og Brynja Dögg Friðriksdóttir í verkefnið ,,Líf í nýju landi, júgóslavneskir flóttamenn".

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur fjárfestingar janúar-apríl 2002. 2002-01-0093.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 10. júlí s.l., mánaðar- skýrsla um rekstur og fjárfestingar fyrir tímabilið janúar-apríl. 2002. Niðurstaða rekstrar er álíka fyrir tímabilið nú eins og síðastliðið ár eða kr. 162 millj. framlegð uppí afborganir, en var á sama tíma árið 2001 kr. 169 millj. Útsvar einstaklinga var á tímabilinu kr. 248 millj., en var á sama tíma í fyrra kr. 219 milljónir.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf umhverfisráðuneytis. - Endursala Grænagarðs. 2002-01-0037.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 1. júlí s.l., þar sem ráðuneytið samþykkir endursölu fasteignarinnar Grænagarðs við Seljalandsveg á Ísafirði, að fenginni tillögu Ofanflóðanefndar. Eignin verði seld með kvöðum um nýtingu hennar og verði þeim þinglýst, eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá sölunni.

7. Bréf Súðavíkurhrepps. - Athugasemdir við aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999 - 2018. 2002-07-0039.

Lagt fram bréf frá Súðavíkurhreppi dagsett 3. júlí s.l., er varðar athugasemdir Ísafjarðarbæjar við aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018. Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 14. júní 2001 var svohljóðandi bókað. ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir landnýtingu jarðarinnar Seljalands í Álftafirði, sem er eign Ísafjarðarbæjar, eins og kynnt er í tillögu að aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 1999-2018. Bæjarstjóra falið að koma athugasemdum bæjarstjórnar og umhverfisnefndar til hreppsnefndar Súðavíkurhrepps og Skipulags ríkisins." Athugasemdir umhverfisnefndar voru um vegalagningu um eða yfir Reykjafjörð.
Í ofangreindu bréfi Súðavíkurhrepps er tilkynnt sú samþykkt hreppsnefndar að athugasemd Ísafjarðarbæjar um landnýingu jarðarinnar Seljalands í Álftafirði er hafnað og jörðin verði tilgreind sem hverfisverndarsvæði í skipulagi.

Bæjarráð mótmælir afgreiðslu hreppsnefndar Súðavíkurhrepps á athugasemd Ísafjarðarbæjar við aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018 hvað varðar landnýtingu jarðarinnar Seljalands í Álftafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna hjá bæjarlögmanni hugsanlegan skaðabóta-rétt Ísafjarðarbæjar vegna afgreiðslu hreppsnefndar Súðavíkurhrepps á athugasemd Ísafjarðarbæjar varðandi Seljaland í Álftafirð.

8. Áhugahópur um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum. - Þjóðahátíð Vestfirðinga 13.-15. september 2002. 2002-07-0038.

Lagt fram bréf frá Áhugahópi um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum dagsett 3. júlí s.l., þar sem tilkynnt er um að Þjóðahátíð Vestfirðinga verði haldin í Vesturbyggð dagana 13. - 15. september n.k. Óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til hátíðarinnar að upphæð kr. 150.000.-

Bæjarráð samþykkir erindið og færist styrkveitingin á bókhaldslið 05-72-995-1.

9. Bréf foreldrafélags Grunnskólans á Suðureyri. - Endurupptekið. 2002-07-0056.

Lagt fram að nýju bréf foreldrafélags Grunnskólans á Suðureyri frá 21. nóvember 2001, varðandi íþróttaaðstöðu og íþróttakennslu við Grunnskóla Suðureyrar. Málið er upp tekið að nýju að ósk Guðna G. Jóhannessonar, formanns bæjarráðs. Það var fyrst fyrir tekið í bæjarráði þann 3. desember 2001 og í fræðslunefnd þann 11. desember 2001.

Bæjarráð felur tæknideild Ísafjarðarbæjar, að kanna kostnað við byggingu á hentugu íþróttahúsi á Suðureyri.

10. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Námskeið fyrir nýkjörna sveitarstjórnarmenn. 2002-07-0048.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 9. júlí s.l., varðandi fyrirhugað námskeið á vegum sambandsins fyrir nýkjörna sveitarstjórnarmenn og skipan starfshóps til undirbúnings.

Bæjarráð felur bæjarritara að kanna hugsanlega þátttöku bæjarfulltrúa Ísafjarðar- bæjar í slíku námskeiði.

11. Bréf Orkustofnunar. - Niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar. 2002-07-0095.

Lagt fram bréf frá Orkustofnun dagsett í júlí 2002, þar sem vakin er athygli á nýjum lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnað og þeim breytingum er þau hafa í för með sér varðandi umsóknir um niðurgreiðslu. Bréfinu fylgir eyðublað, umsókn um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við Orkubú Vestfjarða, með hvaða hætti megi hvetja íbúa Ísafjarðarbæjar, sem eiga rétt á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar samkv. lögum nr. 78/2002, til að ganga frá umsóknum til Orkustofnunar fyrir 8. ágúst n.k.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:15

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.