Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

300. fundur

Árið 2002, mánudaginn 8. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 2/7. 13. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 2/7. 183. fundur.
5. liður. Tillögur félagsmálanefndar um tilnefningu í þjónustuhóp aldraðra samþykktar í bæjarráði.
Bæjarráð samþykkir að fulltrúar Ísafjarðarbæjar í þjónustuhópi aldraðra verði launaðir eins og nefndarmenn í fastanefndum hjá Ísafjarðarbæ.
Samanber samþykkt bæjarstjórnar um greiðslu nefndarlauna.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Fræðslunefnd 4/7. 150. fundur.
1. liður. Bæjarráð samþykkir ráðningu Jóhönnu Gunnarsdóttur, sem forstöðumann Íþróttahússins á Torfnesi.
2. liður. Bæjarráð samþykkir ráðningu Þorbjargar Gunnarsdóttur, sem forstöðumann Íþróttamiðstöðvar á Þingeyri.
3. liður. Bæjarráð samþykkir ráðningu Jóhanns Torfasonar, sem forstöðumann skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar.
4. liður. Bæjarráð staðfestir ráðningu Jóhönnu Ásgeirsdóttur, sem aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Ísafirði og Jónu Benediktsdóttur, sem annars aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Ísafirði.
6. liður. Bæjarráð vísar 6. lið 150. fundargerðar fræðslunefndar til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.
8. liður. Umræður urðu í bæjarráði um aðstöðu til íþróttakennslu á Suðureyri.
13. liður. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um aldursdreifingu barna í grunnskólum Ísafjarðarbæjar.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Stjórn Þróunar- og starfsmenntunarsjóðs Ísafjarðarbæjar 1/7. 5. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Búnaðarsamband Vestfjarða. - Samþykktir aðalfundar. 2002-07-0026.

Lagt fram bréf frá Búnaðarsambandi Vestfjarða dagsett 4. júlí s.l., þar sem greint er frá samþykktum frá aðalfundi Búnaðarsambandsins er haldinn var í Bolungarvík þann 14. júní 2002. Samþykktirnar eru um eyðingu refa, fyrirspurnir um greiðslur vegna eyðingu minka og refa og framfylgni laga um forðagæslu.

Bæjarráð vísar bréfinu til landbúnaðarnefndar til afgreiðslu.

3. Bréf bæjarstjóra. - Hafnarstræti 11, Flateyri, hús fyrir samfélagslegt starf. 2002-06-0061.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 28. júní s.l., varðandi Hafnarstræti 11, Flateyri, sem hús fyrir samfélagslegt starf. Bréfinu fylgir fundarboð frá Íbúasamtökum Önundarfjarðar um almennan fund fimmtudaginn 27. júní s.l. kl. 20:00, dagskrá fundarins og hugmyndir um hugsanleg kaup á húsnæði og rekstur.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. - Íþróttamiðstöðin á Þingeyri. 2002-07-0002.

Lagt fram bréf frá Birni Helgasyni, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, ódagsett varðandi beiðni um aukafjárveitingu að upphæð kr. 900.000.- til framkvæmda við viðgerðir á Íþróttamiðstöðinni á Þingeyri.

Bæjarráð samþykkir umbeðna aukafjárveitingu er bókist á liðinn ófyrirséð í fjármagnsstreymi.

5. Saman-hópurinn. - Stuðningur við forvarnarstarf. 2002-07-0029.

Lagt fram bréf frá Saman-hópnum dagsett 2. júlí s.l., varðandi stuðning við forvarnarstarf. Saman-hópurinn er samstarfsvettvangur ýmissa stofnana og samtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna. Hópurinn vinnur að því að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af útbreiðslu áfengis og vímuefna. Óskað er eftir fjárstuðningi sveitarfélaga til eflingar forvarnarstarfi.

Bæjarráð sendir erindið til félagsmálanefndar og VÁ-Vest hópsins til kynningar.

6. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar. - Niðurstöður dómnefndar í hugmyndasamkeppni um framtíðarhúsnæði Grunnskólans á Ísafirði. 2002-07-0025

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni, sviðsstjóra, dagsett 5. júlí s.l., varðandi niðurstöður dómnefndar í hugmyndasamkeppni um framtíðarhúsnæði fyrir Grunnskólann á Ísafirði. Dómnefnd hefur lokið störfum. Sjö tillögur bárust og var niðurstaða dómnefndarinnar sú að veita 1. og 2. verðlaun og jafnframt að kaupa inn þrjár aðrar tillögur.
Verðlaunatillöguna reyndust arkitektarnir Einar Ólafsson og Örn Þór Halldórsson eiga. Önnur verðlaun hlaut tillaga Albínu Thordarson arkitekts. Umsögn um tillögurnar eru í meðfylgjandi greinargerð dómnefndar.
Það er álit dómnefndar að niðurstöður samkeppninnar gefi bæjaryfirvöldum færi á að skapa Grunnskólanum á Ísafirði þá umgjörð er hæfir skólastarfi á nýrri öld og að þær falli að þeim markmiðum sem starfshópur er bæjarráð skipaði haustið 2000 setti sér.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði á þessu stigi málsins. Bæjarráð þakkar dómnefndinni fyrir gott starf við hugmyndasamkeppnina.

7. Bréf Orkubús Vestfjarða. - Jarðstrengir í Önundarfirði og Arnarfirði. 2002-07-0020.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða dagsett 2. júlí s.l., þar sem leitað er heimildar Ísafjarðarbæjar vegna fyrirhugaðra jarðstrengjalagna í Önundarfirði og Arnarfirði. Um er að ræða þrjú verkefni, tvö eru í Önundarfirði og eitt í Arnarfirði.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

8. Bréf landbúnaðarráðuneytis. - Fjallskilasamþykkt fyrir Ísafjarðarsýslur. 2002-07-0014.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneyti dagsett 1. júlí s.l., ásamt fjallskilasamþykkt fyrir Ísafjarðarsýslur, sem birt hefur verið í B-deild stjórnartíðinda og hlotið númerið 434/2002.

Bæjarráð vísar bréfinu ásamt fjallskilasamþykkt fyrir Ísafjarðarsýslur til landbúnaðarnefndar

9. Landskerfi bókasafna hf. - Tölvukerfi fyrir bókasöfn. 2002-07-0008.

Lagt fram bréf frá Landskerfi bókasafna hf., Reykjavík, dagsett 12. júní s.l., þar sem kynnt er tölvukerfi fyrir bókasöfn er gæti orðið sameiginlegt fyrir allt landið.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

10. Fundargerð starfshóps um íþróttasvæðið á Torfnesi. 2002-01-0135.

Lögð fram fundargerð starfshóps um íþróttasvæðið á Torfnesi frá 4. fundi þann 3. júlí 2002. Megin efni fundarins var að fara yfir skýrslu frá VSÓ um byggingu gervigrasvallar á Torfnesi á Ísafirði.
Nefndin leggur til að byggður verði gervigrasvöllur á Torfnesi samkvæmt tillögu D og að framkvæmdir hefjist sem fyrst. Þá leggur nefndin til að gerður verði rammasamningur við Boltafélag Ísafjarðar um uppbyggingu á Torfnessvæðinu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna drög að rammasamningi við BÍ 88, um uppbyggingu knattspyrnuaðstöðu á Torfnesi í samráði við Héraðssamband Vestfirðinga.

11. Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis.-Lögreglusamþykkt fyrir Ísafjarðarbæ. 2002-07-0028.

Lagt fram bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti dagsett 4. júlí s.l., þar sem tilkynnt er að ráðuneytið hafi samþykkt nýja lögreglusamþykkt fyrir Ísafjarðarbæ, sem samþykkt hafði verið á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 3. október 2001. Samþykktin verður bráðlega birt í B-deild stjórnartíðinda.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Lögreglusamþykktin hefur verið birt á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.

12. Kirkjugarðasamband Íslands. - Legstaðaskrár ofl. 2002-07-0006.

Lagt fram bréf frá Kirkjugarðasambandi Íslands dagsett 24. júní s.l., þar sem öllum stærri bæjar- og sveitarfélögum er boðið upp á að taka saman helstu ævidrög látinna heiðursborgara og eða annarra látinna einstalinga.

Lagt fram til kynningar.

13. Fasteignamat ríkisins. - Athugasemdir við endurmat 2002. 2002-07-0035.

Lagt fram bréf frá Fasteignamati ríkisins dagsett 3. júlí s.l., tilkynning til sveitarfélaga um fasteignamat eigna sem athugasemd var gerð við vegna endurmats 2001. Alls bárust ríflega 13.000 athugasemdir þar af um 11.000 á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Fasteignamat ríkisins hefur nú hafið útsendingar til sveitarfélaga á breytingum á fasteignamatsskrá 31. desember 2001.

Bæjarráð vísar bréfinu til byggingarfulltrúa og fjármálastjóra.

14. Vegagerðin. - Fréttatilkynning um veg á Skálavíkurheiði, Bolafjalli.

Lögð fram fréttatilkynning frá Vegagerðinni er barst bæjarstjóra í tölvupósti þann 4. júlí s.l. og varðar opnun vegar á Skálavíkurheiði upp á Bolafjall fyrir almenning nú í sumar.

Lagt fram til kynningar.

15. Sóknarnefnd Flateyrarkirkju. - Flateyrarkirkjugarður. 2002-07-0016.

Lagt fram bréf frá Sóknarnefnd Flateyrarkirkju dagsett 28. júní s.l., er varðar skuldir Ísafjarðarbæjar vegna endurbyggingar á Flateyrarkirkjugarði. Skuldin var á sínum tíma kr. 4.252.955.- en hefur hækkað sökum vaxtakostnaðar og er nú kr. 5. 130.875.- Skorað er á bæjarráð Ísafjarðarbæjar að greiða skuldina sem fyrst.
Jafnfram er lagt fram undir þessum lið bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett 5. júlí s.l., til upplýsinga um stöðu málsins hjá Ísafjarðarbæ og nokkra forsögu þess.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá málinu á grundvelli bréfs bæjarstjóra.

16. Drög að rammasamningi við Golfklúbb Ísafjarðar, með tilvísun í samþykkt bæjarráðs á 294. fundi 8. lið. Drögin eru lögð fram hér á fundinum.

Lögð fram af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, drög að samningi við Golfklúbb Ísafjarðar um uppbyggingu golfvallar, með tilvísun til samþykktar bæjarráðs á 294. fundi sínum undir 8. lið dagskrár. Í samningnum er gert ráð fyrir að gerður verði 7 ára rammasamningur um uppbyggingu og viðhald golfvallarins með framlagi Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð kom með nokkrar ábendingar við samningsdrögin. Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu og leggja ný drög fyrir bæjarráð. Samningsdrögin verði kynnt fyrir Héraðssambandi Vestfirðinga.

17. Tilraunaverkefni Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar á sviði tónmenntakennslu og lúðraþyts 2000-2002. 2002-06-0058.

Lögð fram greinargerð unnin af Tómasi Guðna Eggertssyni í júní 2002, um tilraunaverkefni Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar á sviði tónmenntakennslu og lúðraþyts 2000-2002. Í greinargerðinni er gert grein fyrir forsögu málsins, hljóðfærakaupum, starfinu í stórum dráttum og þeim árangri er náðst hefur.

Bæjarráð vísar greinargerðinni til Skóla- og fjölskylduskrifstofu og minnir á mikilvægi þess að verkefninu verði fundinn fastur staður innan stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.