Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

295. fundur

Árið 2002, þriðjudaginn 21. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 10/5. 12. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 14/5. 181. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarritara. - Velunnarafélag Sérsveitarinnar, lúðrasveitar í Ísafjarðarbæ og í Bolungarvík. 2002-05-0040

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 17. maí s.l., varðandi viðræður er bæjarstjóri hefur átt við fulltrúa Velunnarafélags Sérsveitarinnar, lúðrasveitar í Ísafjarðarbæ og í Bolungarvík. Á viðskiptareikningi hjá Ísafjarðarbæ skuldar Sérsveitin kr. 1.232.944.- vegna hljóðfærakaupa er greidd voru af Ísafjarðarbæ, en endurgreiða átti með söfnunarfé. Þess er nú farið á leit við Ísafjarðarbæ að Sérsveitin fá styrk til greiðslu ofangreindrar fjárhæðar.

Bæjarráð samþykkir að greiða eftirstöðvar vegna hljóðfærakaupa, með það að markmiði að rekstri lúðrasveitar verði fundinn samastaður í tónlistar- og grunnskólakerfi Ísafjarðarbæjar. Bæjarstjóra falið að koma með tillögu að bókunarlykli og fjármögnun á næsta fund bæjarráðs.

3. Bréf byggingarfulltrúa. - Lóðamál Pólsins við Aðalstræti og Pollgötu á Ísafirði. 2002-02-0051

Lagt fram bréf Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, dagsett 17. maí s.l., varðandi lóðamál Pólsins við Aðalstræti og Pollgötu á Ísafirði. Bréfinu fylgja drög að samningi við Pólinn er felur í sér m.a. fullnaðargreiðslu fyrir fyllingar og grjótgarða á lóðinni Aðalstræti 9 og fyrir uppfyllingu Pollmegin við Aðalstræti 9 (Pollgata 2), Ísafirði. Fjárhæð í samningi er kr. 3.070.000.-

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samningurinn verði samþykktur. Kostnaður bókist á liðinn 09-2 skipulagsmál í fjárhagsáætlun.

4. Bréf bæjarritara. - Drög að samkomulagi við Íslandssögu hf., Suðureyri, um niðurrif fasteigna. 2002-05-0041

Lagt fram bréf frá bæjarritara dagsett 17, maí s.l., ásamt drögum að samningi við Íslandssögu hf., Suðureyri, um niðurrif fasteigna vegna deiliskipulags fyrir Suðureyri neðan Aðalgötu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 3. febrúar 2000.

Bæjarráð mælir með samkomulaginu og óskar eftir kostnaðarútreikningi á niðurrifi eignanna.

5. Bréf fjármálastjóra. - Netos ehf., samningur um kerfisleigu. 2002-05-0023

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 14. maí s.l., varðandi samning um kerfisleigu við Netos ehf., Ísafirði. Óskað er eftir staðfestingu á að Netos ehf., yfirtaki kerfisleigusamning milli Ísafjarðarbæjar og Vestmarks ehf. og gildi sú yfirtaka frá og með 1. febrúar 2002.

Bæjarráð óskar umsagnar bæjarlögmanns á drögum að samningi við Netos hef., með tilliti til forsögu málsins.

Guðni G. Jóhannesson vék af fundi undir afgreiðslu þessa liðar.

6. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Þjónustuframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. 2002-05-0043

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 14. maí s.l., varðandi umsókn Ísafjarðarbæjar um sérstakt þjónustuframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra barna í leikskólum á árinu 2001. Með tilvísun til 12. greinar reglugerðar nr. 44/1994 um sérstök þjónustuframlög til sveitarfélaga er umsókninni hafnað, þar sem ekki er um að ræða sveitarfélag með færri en 2000 íbúa.

Bæjarráð bendir á það misræmi sem fólgið er í forsendum þessarar niðurstöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga annars vegar og hins vegar þeim forsendum er gefnar eru vegna stærðarmarka við sameiningu sveitarfélaga. Bæjarstjóra falið að koma athugasemdum á framfæri við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Fasteignamiðstöðvarinnar. - Kaupsamningur með afsali vegna sölu á hluta jarðarinnar Neðri-Breiðadal, Önundarfirði. 2002-05-0044

Lagt fram bréf frá Fasteignamiðstöðinni, Reykjavík, dagsett 14. maí s.l., varðandi sölu á hluta jarðarinnar Neðri-Breiðadal í Önundarfiri. Spurst er fyrir um hvort Ísafjarðarbær muni neyta forkaupsréttar síns samkvæmt heimild í Jarðalögum. Bréfinu fylgir kaupsamningur með afsali undirritaður af seljendum og kaupanda.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forkaupsréttur verði ekki nýttur.

8. Bréf Hagstofu Íslands. - Leiðrétting á kjörskrá. 2002-05-0045

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 15. maí s.l., þar sem gerð er leiðrétting á kjörskrárstofni fyrir Ísafjarðarbæ í komandi bæjarstjórnarkosningum 25. maí 2002.

Bæjarráð vísar erindinu til aukafundar í bæjarstjórn sem haldinn verði fyrir kjördag þann 25. maí n.k.

9. Bréf Kammerkórsins á Ísafirði. - Beiðni um styrk. 2002-05-0046

Lagt fram bréf frá Kammerkórnum á Ísafirði ódagsett, þar sem kórinn sækir um styrk frá Ísafjarðarbæ að upphæð kr. 200.000.-

Bæjarráð samþykkir styrk að fjárhæð kr. 50.000.- er færður verði á liðinn 21-81-995-1.

10. Bréf Kómedíuleikhússins. - Leikritið Muggur, styrbeiðni. 2002-05-0047

Lagt fram bréf frá Kómedíuleikhúsinu dagsett 30. apríl s.l., í bréfinu er greint frá starfsemi leikhússins og fyrirhuguðu verkefni. Sótt er um styrk að upphæð kr. 200.000.- frá Ísafjarðarbæ til að setja upp leiksýningu sem byggð er á ævi Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) listmálara frá Bíldudal. Áætlað er að leikritið verði frumsýnt á Bíldudal í október 2002.

Bæjarráð samþykkir styrk að fjárhæð kr. 50.000.- er færður verði á liðinn 21-81-995-1.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.