Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

293. fundur

Árið 2002, mánudaginn 6. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 30/4. 178. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 1/5. 179. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 30/4. 146. fundur.
4. liður. Samkvæmt upplýsingum frá bæjarstjóra fellur verkefnið að reglum Þróunar- og starfsmenntunarsjóðs Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð samþykkir að veita kr. 200.000,- í styrk til sjóðsins, þar sem fjármagni hans samkvæmt fjárhagsáætlun hefur verið ráðstafað. Færist á liðinn 21-81-995-1.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. - Rekstur og fjárfestingar janúar - desember 2001.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra dagsett 2. maí s.l., yfirlit um rekstur og fjárfestingar janúar - desember 2001.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með að niðurstaða ársreiknings 2001 skuli vera 22 milljónum króna betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

3. Bréf bæjarstjóra. - Drög að kaupsamningi og samkomulagi vegna Kirkjubóls VI Engidal.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 3. maí s.l., ásamt drögum að kaupsamningi og samkomulagi við Aðalstein Ómar Ásgeirsson vegna kaupa Ísafjarðarbæjar á eigninni Kirkjubóli VI í Engidal, Skutulsfirði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að kaupsamningurinn og samkomulagið verði samþykkt.

4. Bréf Jósefs H. Vernharðssonar. - Kaup átthagafélaga á Stað og hjáleigunni Læk í Aðalvík.

Lagt fram bréf frá Jósef H. Vernharðssyni dagsett 2. maí s.l., þar sem hann fyrir hönd Átthagafélaga Sléttuhreppinga á Ísafirði og í Reykjavík, fer fram á að félögin fái keyptar af ríkinu jörðina Stað og hjáleiguna Læk í Aðalvík í fyrrum Sléttuhreppi. Hugmyndin er sú að Ísafjarðarbær kaupi jarðirnar af landbúnaðarráðuneytinu og endurselji þær síðan átthagafélögunum á sama verði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga um erindið m.a. í landbúnaðarráðuneytinu.

5. Erindi bæjarritara. - Auglýsingastyrkir til framboða í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Lagt fram bréf frá bæjarritara dagsett 30. apríl s.l., þar sem hann gerir tillögu um að auglýsingastyrkir til framboða í komandi sveitarstjórnarkosningum verði kr. 50.000.- fyrir hvert framboð. Þessi upphæð var kr. 40.000.- fyrir kosningarnar í maí 1998.

Bæjarráð samþykkir að auglýsingastyrkurinn verði kr. 75.000.- til hvers framboðs í komandi sveitarstjórnarkosningum, enda rýmist það í fjárhagsáætlun ársins 2002.

6. Bréf Ingólfs Kjartanssonar. - Vínveitingaleyfi í Dalbæ, Snæfjallaströnd.

Lagt fram bréf frá Ingólfi Kjartanssyni, Tálknafirði, dagsett 23. apríl s.l., þar sem hann óskar eftir bráðabirgðavínveitingaleyfi frá 20. júní til 20. ágúst n.k., vegna veitinga- reksturs og gistiþjónustu í Dalbæ á Snæfjallaströnd á komandi sumri.

Bæjarráð óskar umsagnar umhverfisnefndar.

7. Bréf HSV. - Þingboð vegna ársþings Héraðssambands Vestfirðinga.

Lagt fram bréf frá stjórn Héraðssambands Vestfirðinga dagsett þann 30. apríl s.l., þar sem boðað er til ársþings sambandsins sunnudaginn 12. maí n.k. að Hótel Ísafirði og hefst þingið kl. 10:00 árdegis. Fulltrúum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er boðið að sitja þingið með málfrelsi og tillögurétt.

Bæjarráð hvetur bæjarfulltrúa til að mæta á ársþingið.

8. Bréf Sindrabergs ehf., Ísafirði. - Hlutafjárframlag.

Lagt fram bréf frá Sindrabergi ehf., Ísafirði, dagsett þann 24. apríl s.l., þar sem félagið óskar eftir að Ísafjarðarbær leggi fram nýtt hlutafé í fyrirtækið að upphæð kr. 8.000.000.- Fram kemur í bréfinu að fyrirtækið hefur verið að leita eftir auknu hlutafé m.a. frá Byggðastofnun. Hjá félaginu starfa nú um 30 manns.

Bæjarráð telur nauðsynlegt að skoða aðkomu bæjarfélagsins að atvinnurekstri eftir almennum faglegum reglum. Bæjarstjóra falið að undirbúa málið og leggja drög að reglum fyrir bæjarráð.

9. Bréf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. - Háskólasetur.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 23. apríl s.l., þar sem í framhaldi af stjórnarfundi Fræðslumiðstöðvarinnar þann sama dag er óskað eftir tilnefningu Ísafjarðarbæjar á fulltrúa í samstarfsnefnd til að leggja fram tillögur um húsnæðismál Fræðslumiðstöðvarinnar fyrir lok maí n.k.

Bæjarráð tilnefnir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, sem fulltrúi Ísafjarðarbæjar í samstarfsnefndina.

10. Bréf umhverfisnefndar Alþingis. - Tillaga til þingsályktunar um óhreyfð skip í höfnum og skipsflök.

Lagt fram bréf frá umhverfisnefnd Alþingis dagsett 2. maí s.l., þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á tillögu til þingsályktunar um óhreyfð skip í höfnum og skipsflök, 586. mál. Svar berist eigi síðar en 23. maí 2002.

Bæjarráð mælir með tillögu til þingsályktunar um óhreyfð skip í höfnum og skipsflök.

11. Samb. ísl. sveitarf. - Fundur um þjóðlendur 15. maí 2002.

Lagt fram fundarboð frá Samb. ísl. sveitarf. um fyrsta úrskurð óbyggðanefndar um þjóðlendur, viðbrögð einkaaðila og sveitarfélaga. Fundurinn verður haldinn á Hótel Íslandi í Reykjavík þann 15. maí n.k. og hefst kl. 13:30

Bæjarráð mælist til að sviðsstjóri umhverfissviðs sæki fundinn.

12. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 2. maí s.l., varðandi frumvarp um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Frumvarpið var samþykkt þann 10. apríl s.l. og fylgir sérprentun laganna bréfinu þar sem breytingarlögin nr. 27/2002, eru felld inn í meginmál laga nr. 5/1998.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.