Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

292. fundur

Árið 2002, mánudaginn 29. apríl kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 23/4. 176. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 23/4. 177. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 22/4. 47. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 24/4. 148. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Stjórn Þróunar- og starfsmenntunarsjóðs Ísafjarðarbæjar 22/4. 4. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Erindi fyrir bæjarráð. - Sjálfskuldarábyrgð.

Lagt fyrir bæjarráð mál vegna sjálfskuldarábyrgðar Ísafjarðarbæjar á skuldabréfi í vanskilum við Landsbanka Íslands hf., Ísafirði. Skuldari bréfsins er Togaraútgerð Ísafjarðar ehf., Ísafirði, uppgreiðslufjárhæð skuldabréfsins er nú um kr. 20,7 milljónir. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, kynnti málið fyrir bæjarráði. Málið er í vinnslu bæjarstjóra og fjármálastjóra.

Lagt fram til kynningar.

3. Bréf bæjarstjóra. - Drög að starfsmannastefnu Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 26. apríl s.l., ásamt drögum að starfsmannastefnu fyrir Ísafjarðarbæ. Jafnframt eru lögð fram drög að framkvæmdaáætlun starfsmannastefnu Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2002.

Bæjarráð vísar ofangreindum drögum til umræðu í bæjarstjórn.

4. Bréf menntamálaráðuneytis. - Framkvæmd áætlunar gegn einelti. 2002-04-0066.

Lagt fram afrit bréfs frá menntamálaráðuneyti til Grunnskólans á Ísafirði dagsett þann 22. apríl s.l., varðarndi framkvæmd áætlunar gegn einelti í grunnskólum 2002-2003. Í bréfinu kemur fram að samþykkt hafi verið að Grunnskólinn á Ísafirði verði einn af móðurskólum í þessu verkefni.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Sparisjóðs Vestfirðinga. - Tilnefning aðal- og varamanns í stjórn. Fundarboð um aðalfund Sparisjóðs Vestfirðinga 4. maí 2002. 2002-04-0067.

Lagt fram bréf frá Sparisjóði Vestfirðinga dagsett 21. apríl s.l., undirritað af Guðmundi Steinari Björgmundssyni, formanni stjórnar Sparisjóðs Vestfirðinga. Í bréfinu kemur fram að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og sveitarstjórn Súðavíkurhrepps skipi sameiginlega einn aðalmann og einn varamann í stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga og þarf tilnefning að liggja fyrir aðalfundi sjóðsins, sem haldinn verður þann 4. maí n.k. á Patreksfirði, samkvæmt boðaðri dagskrá sem fylgir með bréfinu.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Óskar Elíasson, Súðavík, verði áfram aðalmaður í stjórn SV og Jón Grétar Kristjánsson, Súðavík, verði áfram varamaður í stjórn SV.

6. Bréf Indriða S. Ingjaldssonar. - Kauptilboð í sorpbrennslustöðina á Skarfaskeri í Skutulsfirði. 2002-04-0068.

Lagt fram kauptilboð frá Indriða S. Ingjaldssyni, kt. 240869-4629, dagsett 26. apríl s.l., þar sem hann gerir kauptilboð í sorpbrennslustöðina á Skarfaskeri að upphæð kr. 100.000.- Í tilboðinu er fyrirvari um að nota megi húsið til ferðamannastarfsemi og veitingareksturs. Tilboðið gildir til kl. 16:00 þann 2. maí n.k.

Með tilvísun til samþykktar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 117. fundi, þar sem samþykkt var að auglýsa til niðurrifs sorpbrennsluna á Skarfaskeri og með tilvísun til afgreiðslu umhverfisnefndar á 148. fundi varðandi sama mál, leggur bæjarráð til að ofangreindu kauptilboði verði hafnað.

7. Samningur Ísafjarðarbæjar og félagsmálaráðuneytis vegna Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. 2002-02-0057.

Lagður fram samningur milli Ísafjarðarbæjar og félagsmálaráðuneytis vegna Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. Samningurinn felur í sér að Ísafjarðarbær veitir Fjölmenningarsetri styrk að upphæð kr. 1.000.000.- sem notaður verður til að afla og þjálfa túlka til starfa fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Samningurinn er undirritaður þann 22. apríl s.l. og er undirritun bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til að samningurinn verði samþykktur eftir leiðréttingu á fimmta lið samningsins.

8. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Starfsleyfi fyrir fiskeldi. 2002-04-0069.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 19. apríl s.l., þar sem fram kemur að heilbrigðisnefnd Vestfjarða hefur samþykkt að veita fjögur starfsleyfi fyrir fiskeldi, að undangenginni auglýsingu og kynningu í fjórar vikur. Starfsleyfin eru til Vísis hf., ECO sjávarafurða ehf., Fjölnis hf. og Búlandstinds hf.

Bæjarráð felur tæknideild Ísafjarðarbæjar að halda utan um veitt starfsleyfi til fiskeldis í Ísafjarðarbæ.

9. Bréf Framkvæmdasjóðs Skrúðs. - Ársreikningur fyrir árið 2001. 2002-04-0070.

Lagt fram bréf frá Framkvæmdasjóði Skrúðs dagsett í apríl 2002, sem í er greinargerð um starf Framkvæmdasjóðs Skrúðs. Í bréfinu kemur fram tillaga um að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag um rekstur Skrúðs, þar sem núverandi fyrirkomulag hefur ekki reynst nægilega vel. Ísafjarðarbær og Framkvæmdasjóðurinn geri með sér samning um rekstur garðsins, þar sem m.a. komi fram að umhverfissvið Ísafjarðarbæjar hafi yfirumsjón með framkvæmdum og haldi sérstakt yfirlit yfir kostnað.
Bréfinu fylgir óundirritaður ársreikningur Framkvæmdasjóðs Skrúðs fyrir árið 2001, sem unninn er af KPMG Endurskoðun hf. Þar kemur fram að óráðstafað eigið fé sjóðsins var um síðustu áramót kr. 4.734.546.- og hafði nær tvöfaldast á milli ára.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði að tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs Skrúðs um nýtt fyrirkomulag um rekstur.

10. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2001, lagður fram til fyrri umræðu.

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2001. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, mætti til fundar bæjarráðs og fór yfir einstaka liði ársreikningsins og gerði stuttan samanburð á fjárhagsáætlun og ársreikningi 2001. Niðurstöður ársreikningsins eru að frávik frá fjárhagsáætlun ársins er kr. 295 milljónir. Að teknu tilliti til reiknaðra verðbreytinga og áfallinna lífeyrisskuldbindinga er rekstrarniðurstaða kr. 22 milljónum betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Heildartekjur voru kr. 1.823 milljónir en heildargjöld án reiknaðra liða kr. 1.828 milljónir. Heildarskuldir bæjarsjóðs og stofnana hans námu kr. 3.148 milljónir í árslok 2001 borið saman við kr. 2.931 milljónir í árslok 2000 og jukust um kr. 217 milljónir á milli ára. Skuldir vegna félagslegra íbúða húsnæðisnefndar, hafnarsjóðs og sorpbrennslustöðvarinnar Funa hækkuðu á milli ára á meðan að skuldir bæjarsjóðs og vatnsveitu lækkuðu.

Bæjarráð vísar ársreikningi Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2001, til fyrri umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.

11. Undirkjörstjórnir til sveitarstjórnarkosninga.

Lagt fram yfirlit um undirkjörstjórnir er kjörnar vor í júní árið 1998. Endurskoða þarf tilnefningar í kjörstjórnir með tilliti til þeirra er flutt hafa burt á tímabilinu og þeirra er látist hafa.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.