Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

291. fundur

Árið 2002, mánudaginn 22. apríl kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:

1. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Eignarhaldsfélag Vestfjarða. 2002-04-0061.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf., dagsett 17. apríl s.l., varðandi Eignarhaldsfélag Vestfjarða. Atvinnuþróunarfélagið fékk það verkefni á fundi stofnaðila EV í nóvember s.l., að kanna með endurstofnun félagsins á grundvelli reglugerðar um eignarhaldsfélög. Íslensk Verðbréf hafa áhuga á stofnun eignarhaldsfélags á Vestfjörðum í ljósi reynslu og þekkingar af starfsemi Tækifæris, eignarhaldsfélags Norðurlands. Leitað er til Ísafjarðarbæjar sem stærsta og öflugasta sveitarfélagsins á Vestfjörðum um aukna þáttöku í Eignarhaldsfélagi Vestfjarða. Miðað við 100 milljón króna stofnfé er gerð tillaga um að hlutur Ísafjarðarbæjar verði 20 milljónir króna.

Til fundar við bæjarráð undir þessum lið dagskrár eru mættir þeir Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Torfi Jóhannsson forstöðumaður Íslenskra Verðbréfa á Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar óskar eftir upplýsingum frá stjórn Byggðstofnunar, hvort búið sé að ráðstafa einhverjum af þeim fjármunum sem ætlaðir voru sem framlag ríkisins til stofnunar eignarhaldsfélags á Vestfjörðum.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 16/4. 175. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 16/4. 145. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 18/4. 63. fundur.
Sæmundur Kr. Þorvaldsson óskaði svohljóðandi bókunar undir fundargerð hafnarstjórnar. ,,Undirritaður dregur í efa að rétt sé að ganga frá ráðningu yfirmanns Hafna Ísafjarðarbæjar á þessum tímapunkti þar sem bæjarstjórn hefur nú ákveðið að sameina umhverfis- og hafnarsvið. Tekið skal fram að í þessu felst enginn efi um niðurstöðu hafnarstjórnar hvað varðar umsækjanda."
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, óskaði svohljóðandi bókunar undir fundagerð hafnarstjórnar. ,,Undirritaður minnir á 9-0 samþykkt bæjarstjórnar frá 28. febrúar s.l. fyrir því að ráða yfirmann fyrir Hafnir Ísafjarðarbæjar. Eftir þeirri samhljóða samþykkt bæjarstjórnar hefur verið unnið og því liggur þessi tillaga hafnarstjórnar nú fyrir."
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 17/4. 74. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar. - Opnun tilboða í 2. áfanga Safnahúss. 2002-03-0058.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, sviðsstjóra, dagsett 17. apríl s.l., varðandi opnun tilboða í 2. áfanga Safnahúss á Ísafirði. Alls bárust þrjú tilboð, þar af eitt frávikstilboð.

Bjóðendur.
Eiríkur og Einar Valur hf., Ísafirði, kr. 44.550.000.- (93%)
Ágúst og Flosi ehf., Ísafirði, kr. 46.221.580.- (96%)
Ágúst og Flosi ehf., Ísafirði, frávik, kr. 44.744.605.- (93%)
Kostnaðaráætlun verkkaupa, kr. 47.995.514.- (100%)

Lagt er til að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda Eirík og Einar Val hf., Ísafirði. Jafnframt er lagt til í bréfinu að verklok verði færð frá 15. október 2002 til 1. mars 2003, einkum til að tryggja fjármögnun, þar sem ekki er nægjanlegt fjármagn í fjárhagsáætlun 2002 til að framkvæma verkið.

Bæjarráð leggur til að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda á grundvelli tilboðs.

4. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar. - Deiliskipulag á Torfnesi. 2002-01-0135.

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni, sviðsstjóra, dagsett 18. apríl s.l., varðandi deiliskipulag knattspyrnusvæðis á Torfnesi, Ísafirði. Í bréfinu er komið á framfæri ósk frá starfshópi um endurskipulagningu knattspyrnusvæðisins á Torfnesi, um að hafin verði vinna við breytingu á gildandi deiliskipulagi á Torfnesi. Í bréfinu eru tilgreindar tillögur að helstu breytingum.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

5. Minnisblað Andra Árnasonar hrl. - Skíðaskáli í Tungudal. 2002-02-0056.

Lagt fram minnisblað frá Andra Árnasyni hrl., bæjarlögmanni, dagsett 15. apríl s.l., varðandi rekstrarsamning Ísafjarðarbæjar og Foreldrafélags skíðabarna vegna skíðaskálans í Tungudal í Skutulsfirði. Í minnisblaðinu kemur fram að ekki sé með samningi við Foreldrafélagið verið að raska eðlilegri samkeppni milli þjónustuaðila og eða raski samkeppni í veitingahúsarekstri á Ísafirði.

Miðað við niðurstöðu bæjarlögmanns telur bæjarráð ekki ástæðu til að endurskoða samning Ísafjarðarbæjar og Foreldrafélags skíðabarna.

6. Bréf Sveins G. Arnarssonar. - Kauptilboð í Fjarðargötu 5, Þingeyri. 2002-04-0062.

Lagt fram bréf frá Sveini G. Arnarssyni, kt. 261276-3059, dagsett 17. apríl s.l., þar sem hann gerir kauptilboð í Fjarðargötu 5, Þingeyri, að upphæð kr. 20.000.- Í bréfinu kemur fram hugmynd um ákveðna tilfærslu hússins á lóðinni.

Bæjarráð leggur til að tilboðinu verði tekið og kannað verði hvort tilfærsla hússins á lóðinni sé möguleg.

7. Afrit bréfs bæjarstjóra til Framkvæmdasýslu ríkisins. - Heilsugæslustöðin á Þingeyri. 2002-04-0019.

Lagt fram afrit bréfs Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Framkvæmdasýslu ríkisins dagsett 17. apríl s.l., þar sem hann kemur á framfæri tillögu verktaka við íbúðir aldraðra á Þingeyri, þess efnis að hætt verði að setja upp hitakút þar sem í húsinu sé fyrir nægur tækjabúnaður til hitunar á vatni. Sparnaður gæti verið um kr. 1.500.000.-. Lagt er til að sparnaður verði nýttur í upphitun stétta, hellulögn og almennan lóðafrágang.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar 12. apríl 2002. 2002-01-0184.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 16. apríl s.l., ásamt 29. fundargerð heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 12. apríl s.l.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Tilnefning í starfshóp um málefni fólks af erlendum uppruna. 2002-04-0063.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 17. apríl s.l., þar sem tilkynnt er tilnefning Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, sem fulltrúa Samb. ísl. sveitarf., í starfshóp um málefni fólks af erlundum uppruna.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf menntamálaráðuneytis. - Skýrsla um sérfræðiþjónustu grunnskóla. 2002-04-0060.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 15. apríl s.l., ásamt skýrslu um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga vegna grunnskóla, sem er niðurstaða könnunar um málefnið frá nóvember 2001 til janúar 2002.

Bréfinu vísað til fræðslunefndar.

11. Bréf forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Liðveisla.

Lagt fram bréf Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, dagsett 19. apríl s.l., þar sem m.a. er komið á framfæri eftirfarandi bókun félagsmálanefndar frá 16. apríl s.l. varðandi liðveislu fyrir komandi sumar.

,,Þar sem umsóknir eru langt umfram heimiluð stöðugildi og þar sem um er að ræða dagvistun að hluta, felur nefndin starfsmanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu að deila út þeim stöðugildum sem til ráðstöfunar eru í samræmi við reglur, en vísar umsóknunum að öðru leyti til bæjarráðs, þar sem ekki er um lögbundna þjónustu sveitarfélagsins að ræða. Nefndin felur forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu að semja umsögn fyrir bæjarráð."

Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu, er mætt til fundar bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

Þar sem um hlutverk Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra er að ræða felur bæjarráð Skóla- og fjölskylduskrifstofu og félagsmálanefnd, að koma málinu í þann farveg sem nauðsynlegur er til að umbeðin þjónusta fáist.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:40

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.