Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

279. fundur

Árið 2002, mánudaginn 28. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

Í upphafi fundar fór fram kosning formanns bæjarráðs, þar sem Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs, hefur óskað eftir lausn frá því embætti á fundi bæjarstjórnar þann 24. janúar s.l. Guðni G. Jóhannesson bar upp tillögu um Ragnheiði Hákonardóttur sem formann bæjarráðs, en Ragnheiður var kjörin aðalmaður í bæjarráð á fundi bæjarstjórnar þann 24. janúar s.l.

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

1. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild. - Samþykkt um búfjárhald í Ísafjarðarbæ. (2002-01-177)

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild, dagsett 24. janúar s.l., varðandi samþykkt um búfjárhald í Ísafjarðarbæ. Í bréfi Sigurðar kemur fram að landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest samþykkt um búfjárhald í Ísafjarðarbæ, sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 85. fundi sínum þann 7. september 2000. Hjálagt fylgir samþykkt um búfjárhald í Ísafjarðarbæ nr. 998/2001, er birt var í Stjórnartíðindum 17. desember 2001.

Bæjarráð felur landbúnaðarnefnd að vinna eftir samþykktinni og kynna hana fyrir hagsmunaaðilum og öðrum þeim aðilum er málið varðar.

2. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild. - Eignir Olíudreifingar á Flateyrarodda. (2002-01-0036)

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild, dagsett 24. janúar s.l., varðandi eignir Olíudreifingar ehf. á Flateyrarodda. Bréfinu fylgir minnisblað Andra Árnasonar hrl. bæjarlögmanns, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að Ísafjarðarbæ sé hvorki skylt að leysa til sín eignirnar né að gera lóðaleigusamning við væntanlegan eiganda að hluta eignanna þ.e. skúr sem tilheyrði starfsemi fyrirtækisins. Í ljósi meðfylgjandi upplýsinga er lagt til í bréfi Sigurðar Mar, að Olíudreifingu ehf. verði gert skylt að fjarlægja eignir sínar á Flateyrarodda og skila lóðinni til Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir tillögu Sigurðar Mar Óskarssonar.

3. Bréf Brynjólfs Þ. Brynjólfssonar. - Gamli slökkvibíllinn í Hnífsdal. (2002-01-178)

Lagt fram bréf frá Brynjólfi Þ. Brynjólfssyni, Miðtúni 17, Ísafirði, dagsett 22. janúar s.l., þar sem hann óskar eftir að fá keypta af Ísafjarðarbæ gamla slökkvibifreið sem staðsett er í Hnífsdal og er af gerðinni Ford trúlega frá árinu 1929. Tilgangur kaupanna er að gera bifreiðina upp og hafa til sýnis á hátíðis og tyllidögum eins og venja er um slíka bíla.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

4. Bréf Þorbjarnar J. Sveinssonar, slökkviliðsstjóra. - Brunavarnaráætlun fyrir Ísafjarðarbæ. (2002-01-126)

Lagt fram bréf Þorbjarnar J. Sveinssonar, slökkviliðsstjóra, dagsett 24. janúar s.l., um brunavarnaráætlun fyrir Ísafjarðarbæ. Bréfið kemur í framhaldi af fyrirspurn bæjarráðs frá 277. fundi bæjarráðs þann 14. janúar s.l. Í bréfinu kemur fram að unnið er að brunavarnaráætlun fyrir Ísafjarðarbæ og fylgja drög hennar með bréfinu til upplýsinga.

Bæjarráð þakkar slökkviliðsstjóra fyrir bréfið og leggur það fram til kynningar.

5. Bréf Húsafriðunarnefndar ríkisins. - Gamli barnaskólinn á Ísafirði. (2002-01-179)

Lagt fram bréf frá Húsafriðunarnefnd ríkisins dagsett 15. janúar s.l., varðandi Gamla barnaskólann á Ísafirði, minnisblað vegna samkeppni um nýbyggingar á lóð skólans. Í bréfinu kemur fram eftirfarandi bókun Húsafriðunarnefndar. ,,Mælt er með því að kennslustofur og gangar á 1. og 2. hæð verði varðveitt í upphaflegu horfi svo og framhlið hússins. Tengibyggingar verði látlausar þannig að gamla skólahúsið fái notið sín sem best."

Bæjarráð telur rétt að hafa tilmæli Húsafriðunarnefndar til hliðsjónar, en leggur áherslu á að nýbyggingar og viðgerð á Gamla skólahúsinu þjóni því hlutverki, sem nútíma skólahúsnæði krefst.

Bæjarráð vísar erindi Húsafriðunarnefndar og bókun bæjarráðs til dómnefndar um arkitektasamkeppni fyrir skólahúsnæði Grunnskólanns á Ísafirði.

6. Bréf Nordjobb. - Nordjobb stöður á Ísafirði sumarið 2002. (2002-01-180)

Lagt fram bréf frá Nordjobb verkefnisstjórn á Íslandi dagsett 21. janúar s.l., með beiðni um Nordjobb stöður á Ísafirði sumarið 2002. Nordjobb er verkefni sem gefur norrænum ungmennum á aldrinum 18-25 ára kost á sumarstarfi í öðru norrænu landi.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

7. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. - Fundur um þorskeldi á Vestfjörðum. (2002-01-181)

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 23. janúar s.l., þar sem fulltrúum bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og þeim fulltrúum nefnda og starfsmönnum sem bæjarstjórn telur málið varða er boðið til fundar miðvikudaginn 13. febrúar n.k. í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Efni fundarins er um stöðu og framtíðarsýn í þorskeldi á Vestfjörðum.

Bæjarráð hvetur bæjarfulltrúa til að mæta á fundinn og vísar erindinu til atvinnumálanefndar og umhverfisnefndar.

8. Hag- og upplýsingasvið Samb. ísl. sveitarf. - Hlutdeild sveitarfélaga í þróun vísitölu neysluverðs. (2002-01-131)

Lögð fram frá Hag- og upplýsingasviði Samb. ísl. sveitarf. greinargerð um hlutdeild sveitarfélaga í þróun vísitölu neysluverðs s.l. 12 mánuði. Þeir þættir innan vísitölunnar sem eru á ábyrgð sveitarfélaganna vega samtals 5,61% af vísitölu neysluverðs. Því er sá hluti neysluverðsvísitölunnnar, sem sveitarfélögin og stofnanir þeirra hafa áhrif á og varða þróun hennar, tiltölulega lítil í því heildar samhengi sem verður að líta til varðandi verðlagsþróun í landinu og mælingar á breytingum þar á.

Bæjarstjóri upplýsti að framundan er fundur forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra með forsvarsmönnum ASÍ. Lagt fram til kynningar.

9. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Tekju- og eignamörk vegna viðbótarlána og félagslegra leiguíbúða. (2002-01-182)

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 21. janúar s.l., varðandi uppreiknuð tekju- og eignamörk vegna viðbótarlána og félagslegra leiguíbúða.

Lagt fram til kynningar.

10. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða. - Umsögn um gjaldskrár fyrir sorp og hundahald í Ísafjarðarbæ. (2002-01-183)

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 21. janúar s.l., umsögn um gjaldskrá fyrir sorp og hundahald í Ísafjarðarbæ. Heilbrigðisnefnd fjallaði um framlagðar gjaldskrár á fundi sínum þann 18. janúar s.l. og samþykkti gjaldskrárnar, en tekur ekki efnislega afstöðu til upphæða gjaldanna.

Lagt fram til kynningar.

11. Heilbrigðisnefnd Vestfjarða. - Fundargerð frá 18. janúar 2002. (2002-01-184)

Lögð fram fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá fundi er haldinn var þann 18. janúar s.l. Fundargerðinni fylgir greinargerð heilbrigðisfulltrúa um matvælaeftirlit, sem kynnt var á fundinum.

Bæjarráð telur að þessi málaflokkur eigi að vera hjá sveitarfélögum. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög. (2002-01-185)

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 23. janúar s.l., varðandi ráðstefnu um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög, er haldin verður þann 8. febrúar n.k. í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs. Bréfinu fylgir dagskrá ráðstefnunnar.

Bæjarráð felur formanni bæjarráð að sækja ráðstefnuna.

13. Bréf Bryndísar G. Friðgeirsdóttur. - Yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag. (2002-01-186)

Lagt fram bréf frá Bryndísi G. Friðgeirsdóttur, bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ, dagsett 25. janúar s.l., varðandi yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag. Erindið felur í sér tillögu um að bæjarstjórn samþykki yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag.

Bæjarráð mælir með samþykktinni.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.