Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

278. fundur

Árið 2002, mánudaginn 21. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 15/1. 166. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 15/1. 140. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
1. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu fræðslunefndar. Kostnaður er kr. 112.509,- á ársgrundvelli þ.e. fyrir 9 mánuði.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 16/1. 71. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. – Varðveisla fjármuna.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 18. janúar s.l., varðandi varðveislu fjármuna, eftirstöðva söluandvirðis hlutabréfa í Orkubúi Vestfjarða. Í bréfinu svarar fjármálastjóri bókun bæjarráðs við 13. lið 277. fundargerðar þann 14. janúar s.l. Meðfylgjandi bréfi fjármálastjóra er afrit bréfs Landsbanka Íslands hf. varðandi ávöxtun fjármuna. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, kom á fund bæjarráðs undir þessum lið.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarráðsmaður, leggur fram svohljóðandi tillögu. ,,Legg til að bæjarráð afgreiði þetta mál á sama hátt og bæjarráð lagði til á fundi sínum nr. 275 þann 20. desember 2001." Greinargerð: Undirritaður hvetur bæjarfulltrúa meirihluta Ísafjarðarbæjar til að koma sér sem fyrst saman um vilja sinn og ákvörðun í þessu efni. Undirritað af Sæmundi Kr. Þorvaldssyni.

Ragnheiður Hákonardóttir, bæjarráðsmaður, lagði fram svohljóðandi bókun. ,,Tel tillögu bæjarfulltrúa Sæmundar Kr. Þorvaldssonar alsendis ótímabæra þar sem ekki liggja fyrir staðfestingar frá öllum þeim bankastofnunum sem buðu í varðveislu fjármuna fyrir Ísafjarðarbæ í desember s.l., um að óbreytta ávöxtun verði um að ræða þótt fjárvarsla verði ekki nema á hluta þeirrar upphæðar sem í tilboðsgögnum var gert ráð fyrir." Undirritað af Ragnheiði Hákonardóttur.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarráðsmaður, lét bóka svohljóðandi við bókun Ragnheiðar Hákonardóttur, bæjarráðsmanns. ,,Ég lít að sjálfsögðu svo á að því aðeins verði gengið frá samningi við einstaka bankastofnanir að þær standi við tilboð sitt". Undirritað af Sæmundi Kr. Þorvaldssyni.

Ragnheiður Hákonardóttir, bæjarráðsmaður, lét bóka eftirfarandi í framhaldi af bókun Sæmundar Kr. Þorvaldssonar, bæjarráðsmanns. ,,Í forsendu tilboðs Ísafjarðarbæjar í desember 2001 er gert ráð fyrir 100% hluta fjárvörslu fjármagns og því eðlilegt að óskað sé staðfestingar frá íbjóðendum ef til skiptingar á þeim hluta kemur." Undirritað af Ragnheiði Hákonardóttur.

Tillaga Sæmundar Kr. Þorvaldssonar borin undir atkvæði og féll á jöfnum atkvæðum 1-1.

Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra að afla sambærilegra upplýsinga frá sparisjóðunum og Íslandsbanka eins og fram kemur í ofangreindu bréfi Landsbanka.

3. Bréf fjármálastjóra. – Sorpeyðingagjöld á lögaðila 2002.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 15. janúar s.l., varðandi sorpeyðingagjöld á lögaðila 2002. Með bréfinu fylgja drög að álagningalista yfir fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir. Listinn er unnin samkvæmt tillögu stöðvarstjóra Funa í samvinnu við bæjarskrifstofu.

Bæjarráð samþykkir lista fjármálastjóra um sorpeyðingargjöld á lögaðila 2002.

4. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar janúar - nóvember 2001.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 17. janúar s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar janúar - nóvember 2001.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf stjórnar HSV. - Ályktanir stjórnar varðandi Landsmót UMFÍ 2004.

Lagt fram bréf frá stjórn HSV dagsett 14. janúar s.l., þar sem gert er grein fyrir ályktun stjórnar frá stjórnarfundi 14. janúar s.l., varðandi ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 111. fundi sínum þann 10. janúar s.l., um að Ísafjarðarbær taki ekki þátt í að halda Landsmót UMFÍ 2004.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfi stjórnar HSV og leggja afrit þess fyrir næsta fund bæjarráðs.

6. Bréf bæjarstjóra. - Neysluvísitala og hlutur sveitarfélaga í hækkun.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 18. janúar s.l. ásamt útreikningdrögum, varðandi hækkun neysluvísitölu og hlut sveitarfélaga í henni. Af 9,44% hækkun neysluvísitölu frá jan01 til jan02 eiga sveitarfélögin 0,329 prósentustig eða 3,48%

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Verslunarmannafélags Ísafjarðar. - Hækkun þjónustu sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá Verslunarmannafélagi Ísafjarðar dagsett 18. janúar s.l., varðandi verðbólgu, uppsagnarákvæði kjarasamninga og samkomulag ASÍ og SA frá 13. desember s.l. Í bréfinu er skorað á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eins og önnur sveitarfélög, að afturkalla nú þegar hækkanir á gjaldskrám og þjónustugjöldum.

Bæjarráð vísar til 6. liðar í þessari fundargerð bæjarráðs og tekur jafnframt fram að beðið er eftir staðfestinu Hagstofu Íslands á þætti sveitarfélaga í hækkun neysluvísitölu.

8. Bréf bæjarstjóra. - Kynning Flugmálastjórnar á skýrslu Integra Consult A/S.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 18. janúar s.l., ásamt afritum af glærum frá Flugmálastjórn vegna kynningar á skýrslu Integra Consult A/S, varðandi næturflug til og frá Ísafjarðarflugvelli.

Bæjarráð þakkar fyrir skýrslu Integra Consult A/S, og óskar eftir að Flugmálastjórn haldi áfram vinnu við að koma á næturflugi til Ísafjarðar. Í þeim tilgangi verði áhættuþættir skoðaðir með það í huga að fækka þeim svo næturflug verði ásættanlegt.

9. Bréf Stúdentaráðs HÍ. - Drög að samstarfssamningi.

Lagt fram bréf frá Þorvarði Tjörva Ólafssyni, formanni Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Bréfinu fylgja drög að samningi um samstarfsverkefnið ,,Þekking stúdenta í þágu þjóðar" til eflingar rannsókna á landsbyggðinni. Bréfinu fylgja og drög að reglugerð um styrktarsjóðinn ,,Þekking stúdenta í þágu þjóðar".

Bæjarráð samþykkir samstarfssamning við Stúdentaráð HÍ að upphæð kr. 200.000.- er bókist á liðinn 15-65-929-1.

10. Kvenréttindafélag Íslands. – Styrkbeiðni vegna afmælisráðstefnu KÍ.

Lagt fram bréf Kvenréttindafélags Íslands dagsett 14. janúar s.l., þar sem félagið biður um styrk að upphæð kr. 50.000.- frá Ísafjarðarbæ til að halda afmælisráðstefnu í tilefni af 95 ára afmæli félagsins. Efni ráðstefnunar er ,,Erlendar konur og íslenskt jafnrétti".

Bæjarráð samþykkir styrk að fjárhæð kr. 35.000.-, kostnaður færist á liðinn 15-65-929-1. Bæjarstjóra falið að bjóða fulltrúa frá Fjölmenningarsetir styrk til að sækja ráðstefnuna.

11. Forvarnarstarf lækna. - Styrkbeiðni til forvarnarstarfs.

Lagt fram bréf frá Rögnu Hlín Þorleifsdóttur, fyrir hönd forvarnastarfs lækna, dagsett 10. janúar s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til forvarnar-verkefnisins ,,Læknanemar gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum". Sótt er um styrk að upphæð kr. 50.000.-

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

12. Bréf stjórnar Boltafélags Ísafjarðar. - Beiðni um fund með bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf frá stjórn Boltafélags Ísafjarðar, þar sem stjórnin óskar eftir fundi með bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar um uppbyggingu knattspyrnusvæðis á Torfnesi ofl.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á fundi með stjórn HSV og formönnum íþróttafélaga innan HSV.

13. Bréf Skipulagsstofnunar. - Listi yfir skipulagsfulltrúa og þá sem sinna skipulagsgerð.

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dagsett 9. janúar s.l., ásamt listum yfir skipulagsfulltrúa og þá sem sinna skipulagsgerð. Listinn er um þá aðila er sótt hafa um og uppfylla skilyrði til að vera á listum Skipulagsstofnunar.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til umhverfisnefndar.

14. Bréf Snæfellsbæjar. - Samúðarkveðjur.

Lagt fram bréf frá bæjarráði Snæfellsbæjar dagsett 11. janúar s.l., þar sem komið er á framfæri eftirfarandi bókun bæjarráðs Snæfellsbæjar frá 10. janúar s.l., varðandi hinn hörmulega bruna á Þingeyri 4. janúar s.l. ,,Bæjarráð og íbúar Snæfellsbæjar senda fjölskyldum, íbúum í Dýrafirði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar innilegar samúðarkveðjur vegna hins hörmulega bruna sem varð á Þingeyri þann 4. janúar s.l"

Bæjarráð fyrir hönd íbúa Ísafjarðarbæjar þakkar veitta samúð.

15. Félagsmálaráðuneytið. - Málþing um fjárhagsaðstoð í velferðarsamfélagi.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 10. janúar s.l., þar sem vakin er athygli sveitarstjórnarmanna á málþingi um fjárhagsaðstoð í velferðarsamfélagi, sem haldið verður á Grand Hótel í Reykjavík þann 1. febrúar n.k. Bréfinu fylgir dagskrá.

Bæjarráð vísar bréfinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

16. Bréf Þórðar Skúlasonar, Samb. ísl. sveitarf. - Flutningur matvælaeftirlits frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga.

Lagt fram tölvubréf frá Þórði Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samb. ísl. sveitarf., dagsett 10. janúar s.l., varðandi hugsanlegan flutning matvælaeftirlits frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga. Hjálagt fylgir ræða Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er flutt var á aðalfundi Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða er haldin var á Akureyri 17. september 2001.

Lagt fram til kynningar.

17. Samb. ísl sveitarf. - Ráðstefna um Staðardagskrá 21.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 11. janúar s.l., þar sem boðað er til ráðstefnu á vegum verkefnisins um Staðardagskrá 21 á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin á Akureyri föstudaginn 15. febrúar og laugardaginn 16. febrúar n.k. Drög að dagskrá ráðstefnunnar koma fram í bréfinu, en endanleg dagskrá verður send út á næstunni.

Lagt fram til kynningar.

18. Bréf byggingarfulltrúa. - Íbúðahverfi á Tunguskeiði.

Lagt fram bréf Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, dagsett 21. janúar 2002, varðandi íbúðahverfi á Tunguskeiði. Í bréfinu kemur fram að Múrkraftur ehf., Hermann Þorsteinsson, er tilbúinn að hefja framkvæmdir við byggingu 5 til 6 húsa í nýju hverfi á Tunguskeiði.
Byggingarfulltrúi bendir á að taka þarf ákvörðun um hvort ljúka skuli við hönnun og gerð útboðsgagna vegna lagna og gatnagerðar í þessu nýja hverfi, en ákvörðun um að ráðast í gatnagerðina sjálfa má fresta enn um sinn.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hönnun og gerð útboðsgagna vegna lagna og gatnagerðar hverfis á Tunguskeiði verði boðin út. Bæjarráð leggur áherslu á að fá þarf samþykkt deiliskipulag fyrir Tunguskeið.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.