Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

276. fundur

Árið 2002, mánudaginn 7. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Í kjölfar hörmulegra atburða á Þingeyri aðfaranótt 4. janúar s.l., vottar bæjarráð Ísafjarðarbæjar aðstandendum og vinum hinna látnu sína dýpstu samúð.

Þetta var gert:

1. Mættir til fundar við bæjarráð fulltrúar Sparisjóðs Vestfirðinga.

Mættir eru til fundar við bæjarráð þeir Guðmundur Steinar Björgmundsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Vestfirðinga og þeir Eiríkur Finnur Greipsson og Steinn Ingi Kjartansson, aðstoðarsparisjóðsstjórar, til viðræðna við bæjarráð um samþykkt þess frá 275. fundi þann 20. desember 2001, um ávöxtun vörslufjár og skiptingu þess milli Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Bolungarvíkur og Íslenskra Verðbréfa annars vegar og hins vegar Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var rætt almennt um stöðu Sparisjóðs Vestfirðinga.

Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, sat og fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 18/12. 165. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Áslaugar J. Jensdóttur. – Umsókn um vínveitingaleyfi.

Lagt fram bréf frá Áslaugu J. Jensdóttur, f.h. Gistiheimilis Áslaugar, dagsett 9. desember 2001, þar sem hún óskar eftir að veitt verði vínveitingaleyfi til eins árs í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað, Aðalstræti 42, Ísafirði. Hjálagt er afrit af veitingaleyfi útgefið af lögreglustjóranum á Ísafirði 30. nóvember 2001 og gildir það til 30. nóvember 2005.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að vínveitingarleyfið verði veitt að fenginni umsögn umhverfisnefndar.

4. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. – Afturköllun friðlýsingar æðarvarps.

Lagt fram bréf sýslumannsins á Ísafirði dagsett 20. desember 2001, þar sem hann tilkynnir um afturköllun á friðlýsingu æðarvarps í landi sem tilheyrir jörðinni Neðsta-Hvammi í Dýrafirði.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. – Eignarhaldsfélag Vestfjarða.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf. dagsett 18. desember 2001, þar sem fram kemur að Atvinnuþróunarfélagið hafi hafið þá vinnu er því var falið á fundi stofnaðila Eignarhaldsfélags Vestfjarða þann 16. nóvember 2001. Það er að kanna viðhorf sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á Vestfjörðum svo og annarra fjárfesta innan sem utan Vestfjarða, til fjármögnunar eignarhaldsfélags á Vestfjörðum.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Grunnskólans á Ísafirði. – Gjaldskrá í Dægradvöl.

Lagt fram bréf Kristins Breiðfjörð Guðmundssonar, skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði, dagsett 4. janúar 2002, varðandi hámarksgjald vegna tímagjalds sem foreldrar greiða fyrir vist barna í Dægradvöl við Grunnskólann á Ísafirði. Frá skólaárinu 1998/1999 hefur hámarksgjald verið í gildi og var síðast kr. 8.500.- Óskað er eftir að þessi viðmiðun verði hækkuð í kr. 9.223.- eða um 8,5%

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði veði samþykkt.

7. Bréf Fornleifaverndar ríkisins. – Þjóðminjalög.

Lagt fram bréf frá Fornleifavernd ríkisins dagsett 18. desember 2001, þar sem greint er frá að stofnunin varð til er ný lög um þjóðminjar nr. 107 voru samþykkt á Alþingi 31. maí 2001. Stofnunin fer með alla stjórnsýslu varðandi fornleifauppgröft, fornleifaskráningu og skráningu og friðlýsingu kirkjugripa og minningarmarka í kirkjugörðum. Jafnframt fer stofnunin með ákvörðunarvald varðandi meðferð fornleifa í skipulags- og umhverfismatsmálum og eru umsagnaraðilar vegna friðunar húsa.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar.

8. Bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands. – Rannsóknir stúdenta við Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

Lagt fram bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands dagsett 18. desember 2001, varðandi rannsóknir stúdenta við Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Innan skamms verður settur á laggirnar sérstakur styrktarsjóður fyrir stúdenta við Háskóla Íslands og heitir sjóðurinn ,,Þekking stúdenta í þágu þjóðar". Stúdentaráð leitar eftir samstarfi við ýmsar stofnanir og sveitarfélög til þess að bjóða upp á stuðning af þessu tagi við nemendur sem kjósa að sinna rannsóknum víðs vegar um landið.

Bæjarráð tekur vel í óskir stúdenta og væntir þess að geta átt gott samstarf um eflingu og rannsóknir á landinu.

9. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. – Aukaþing um samgöngumál.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 19. desember 2001, varðandi aukaþing Fjórðungssambandsins um samgöngumál þann 26. október 2001. Hjálagt fylgir yfirlit um helstu áhersluatriði er fram komu á þinginu og send hafa verið Vegagerðinni á Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

10. Uppgjör við Foreldrafélag skíðabarna vegna byggingarsamnings.

Lagt fram uppgjör við Foreldrafélag skíðabarna á Ísafirði dagsett 31. desember 2001, þar sem endanlega er gengið frá lokauppgjöri vegna byggingarsamnings um áhaldahús á skíðasvæðinu í Tungudal. Lokauppgjör þetta var samþykkt í bæjarráði þann 10. desember 2001.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf Sigríðar J. Óskarsdóttur. – Styrkbeiðni vegna flutninga í Arnarfirði.

Lagt fram bréf Sigríðar J. Óskarsdóttur, Bíldudal, dagsett 28. desember 2001, þar sem hún óskar eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til að geta haldið úti flutningaþjónustu frá Bíldudal við bæina Auðkúlu, Hrafnseyri, Mjólká og Ós í Arnarfirði.

Bæjarráð samþykkir styrkveitingu, sem greiðist af liðnum almenningssamgöngur 26-21-413-1 í fjárhagsáætlun 2002 og felur bæjarstjóra að ganga frá samningi á grunndvelli umræðna í bæjarráði.

12. Bréf frá Myndbæ ehf., Reykjavík. – Sveitafélög í upphafi aldar.

Lagt fram bréf frá Myndbæ ehf., Reykjavík, dagsett 27. desember 2001, þar sem boðið er upp á 3 sjónvarpsmyndir á myndbandi sem heita: Þjónusta við íbúana. Samskipti við íbúa, önnur sveitarfélög og ríki. Framtíðarsýn.

Lagt fram til kynningar.

13. Reglur um skilti í lögsögu Ísafjarðarbæjar.

Lagðar fram reglur um skilti í lögsögu Ísafjarðarbæjar. Reglur þessar voru samþykktar af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á sínum tíma.

Lagt fram til kynningar.

14. Samb. ísl. sveitarf. – EES-samningur og íslensk sveitarfélög.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 2. janúar s.l., kynning á ráðstefnu um EES-samninginn og íslensk sveitarfélög. Ráðstefnan verður haldin þann 8. febrúar n.k., á vegum Samb. ísl. sveitarf. og utanríkisráðuneytis. Þátttaka óskast tilkynnt skrifstofu Samb. ísl. sveitarf. fyrir 1. febrúar n.k.

Lagt fram til kynningar.

15. Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Vestfjarða 26. október og 7. desember 2001

Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 26. október 2001, ásamt lista yfir þau fyrirtæki er heilbrigðiseftirlitið hefur heimsótt. Athuga ber að hér er ekki um endanlegan lista fyrir árið 2001 að ræða og óskað er eftir athugasemdum. Jafnframt er lögð fram með fundargerðinni fjárhagsáætlun fyrir árið 2002.

Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 en minnir á að heimild bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar fyrir öðru stöðugildi þar með auknum rekstrarkostnaði er byggð á því að auknum kostnaði verði mætt með auknum tekjum.

Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 7. desember 2001, ásamt skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur um ,,Framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits" greinargerð og tillögur. Í skýrslunni er lagt til að verkefni gæðasviðs Fiskistofu, matvælasviðs Hollustuverndar, yfirdýralæknis, aðfangaeftirlits, plöntueftirlits og kjötskoðun ásamt því eftirliti með matvælum sem nú er framkvæmt af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga verði sameinað í einni stofnun ,,Matvælastofu" með aðsetur í Reykjavík.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita eftir upplýsingum frá Samb. ísl. sveitarf. varðandi þetta mál.

16. Fundargerðir skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar 30. ágúst og 11. nóvember 2001.

Lagðar fram fundargerðir skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar frá 30. ágúst og 11. nóvember 2001.

Lagt fram til kynningar.

17. Samb. ísl. sveitarf. – Fundargerðir stjórnar frá 683., 685. og 686. fundi.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 683. fundi er haldinn var þann 11. október 2001, 685. fundi er haldinn var þann 22. nóvember 2001 og 686. fundi er haldinn var þann 3. desember 2001.

Bæjarráð óskar eftir tillögu til þingsályktunar um átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni, 5. mál, á þskj.5. í 10. lið 685. fundargerð stjórnar.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

18. Hagstofa Íslands. – Mannfjöldi á Íslandi 1. desember 2001.

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 21. desember 2001, um mannfjölda á Íslandi þann 1. desember 2001, bráðabirgðatölur. Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru þann 1. desember 2001 286.275 einstaklingar búsettir á landinu, en voru á sama tíma árið 2000 alls 282.849. Í Ísafjarðarbæ voru þann 1. desember 2001 skráðir 4.181 einstaklingar, en voru þann 1. desember 2000 alls 4.225 einstaklingar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á framfæri ábendingum varðandi framsetningu fréttatilkynningar Hagstofu Íslands um mannfjölda.

19. Bréf tæknideildar. – Kostnaðaráætlun vegna íþróttamannvirkja.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild Ísafjarðarbæjar, dagsett þann 4. janúar s.l., varðandi kostnaðaráætlun vegna íþróttamannvirkja í tengslum við fyrirhugað landsmót UMFÍ 2004.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.