Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

275. fundur

Árið 2001, fimmtudaginn 20. desember kl. 08:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Mættir til fundar við bæjarráð þeir Gunnar og Oddur Péturssynir, vegna uppkaupa á Grænagarði.

Mættir eru til fundar við bæjarráð þeir Gunnar og Oddur Péturssynir, vegna uppkaupa á Grænagarði á Ísafirði. Þeir Gunnar og Oddur eru ekki sáttir við lokauppgjör kr. 600.000.- vegna uppkaupanna er munnlegt samkomulag náðist um á fundi bæjarráðs þann 9. apríl s.l., en þeir Gunnar og Oddur mættu á þann fund. Samkomulagið var staðfest í bæjarráði Ísafjarðarbæjar þann 14. september s.l. Sú greiðsla var til viðbótar mati á eigninni kr. 6.900.000.- og væri hér um lokauppgjör að ræða.

Bæjarráð samþykkir að til viðbótar aukagreiðslu kr. 600.000.- verði uppgjör miðað við 9. apríl 2001, það er uppgjör á fasteignagjöldum, brunatryggingu og hitakostnaði Grænagarðs. Samþykkt bæjarráðs gildir til 31. desember n.k. og er bæjarstjóra falið að gera ofanrituðum Gunnari og Oddi grein fyrir samþykkt bæjarráðs.

2. Bréf fjármálastjóra. – Varsla fjármuna.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 14. desember s.l., þar sem hann gerir grein fyrir samanburði á tilboðum er borist hafa í vörslu þeirra fjármuna er urðu til við sölu Ísafjarðarbæjar á eignarhluta sínum í Orkubúi Vestfjarða hf. Bréfið er í framhaldi af afgreiðslu bæjarráðs frá 274. fundi 2. lið þar sem bæjarstjóra og fjármálastjóra var falið að koma með frekari upplýsingar um þetta mál. Farið verði með framlögð gögn sem trúnaðarmál.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að ávöxtun vörslufjár úr sölu Ísafjarðarbæjar á eignarhluta sínum í Orkubúi Vestfjarða hf., verði skipt að jöfnu á milli Landsbanka Íslands hf., Ísafirði, annars vegar og hins vegar Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Bolungarvíkur og Íslenskra Verðbréfa.

3. Þriggja ára áætlun 2003 – 2005.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, leggur fram drög að 3ja ára áætlun 2003 – 2005. Áætlunin sýnir framkvæmdir og kaup áhalda/tækja á árinu 2002, 3ja ára áætlun 2003-2005 ásamt fjármagnsstreymi og lánahreyfingum. Um er að ræða vinnugögn bæjarráðs byggð á umræðum á 273. fundi bæjarráðs.

Lagt fram til kynningar.

4. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 11/12. 139. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 11/12. 56. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
5. liður. Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarráðsmaður K-lista, er mótfallinn því að auglýst verði staða hafnarstjóra hjá höfnum Ísafjarðarbæjar, með tilvísun til tillögu K-lista í bæjarstjórn 6. desember s.l., um sameiningu umhverfissviðs og hafnarsviðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 12/12. 142. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
2. liður. Bæjarráð óskar eftir að fá reglugerð er varðar staðsetningu auglýsingaskilta inn á fund bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

5. Bréf bæjarstjóra. – Hf. Djúpbáturinn, hluthafafundur 28. desember n.k.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 19. desember s.l., varðandi auglýstann hluthafafund í Hf. Djúpbátnum er haldinn verður föstudaginn 28. desember n.k. á Hótel Ísafirði og hefst kl. 10:00 Bæjarráð þarf að tilnefna fulltrúa Ísafjarðarbæjar á fundinn, einn eða fleiri.

Bæjarráð samþykkir að Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, mæti sem fulltrúi Ísafjarðarbæjar á hluthafafund í Hf. Djúpbátnum og hafi umboð til að samþykkja tillögu um slit félagsins og að það fjármagn sem eftir stendur verði nýtt til að fela Sögufélagi Ísfirðinga að skrifa stutta samantekt um sögu Hf. Djúpbátsins.

6. Bréf byggingarfulltrúa. – Samantekt varðandi ,,loðdýrabú" í Engidal.

Lagt fram bréf Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar, dagsett 19. desember s.l., samantekt varðandi ,,loðdýrabú" í Engidal í Skutulsfirði. Í samantektinni er gerð grein fyrir svæðinu, einstaka lóðum, húsum og skipulagi. Bréfinu fylgir yfirlit um búfjárhald á svæðinu svo og teikning af deiliskipulagi unnu af Teiknistofunni Aðalstræti 22, Ísafirði.

Bæjarráð vísar bréfinu til frekari umræðu í næsta bæjarráði.

7. Bréf Samkeppnisstofnunar. – Byggðakvóti vegna Þingeyrar.

Lagt fram bréf frá Samkeppnisstofnun dagsett 17. desember s.l., bréfið er óundirritað. Efni bréfsins varðar ósk Fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri og Fiskvinnslunnar Kambs á Flateyri, þar sem óskað er eftir að Samkeppnisstofnun kanni hvort ráðstöfun byggðakvóta til Fiskvinnslunnar Fjölnis hf. og eignarhluti Byggðastofnunar í sama fyrirtæki, stangist á við samkeppnislög. Óskað er eftir athugasemdum frá Ísafjarðarbæ, ef einhverjar eru, við meðfylgjandi gögn. Þess er óskað að athugasemdir berist fyrir 8. janúar 2002.

Bæjarstjóri upplýsti að bæjarlögmanni hefur verið falið að svara erindinu.

8. Tvö bréf Íbúðalánasjóðs. – Úthlutun viðbótarlána 2002. Lán til innlausnaríbúða sveitarfélaga.

Lagt fram bréf Íbúðalánasjóðs hf., dagsett 13. desember s.l., þar sem tilkynnt er að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi úthlutað Ísafjarðarbæ viðbótarlánakvóta fyrir árið 2002 að upphæð kr. 45.000.000.- Verði viðbótarlánakvótinn nýttur að fullu þar Ísafjarðarbær að greiða 5% eða kr. 2.250.000.- í Varasjóð viðbótarlána.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði hf., dagsett 13. desmeber s.l., þar sem tilkynnt er að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi samþykkt lánveitingu allt að kr. 6.000.000.- til innlausnar sveitarfélagsins á íbúðum sem breyta skal í leiguíbúðir.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf bæjarstjóra. – Ný starfslýsing fyrir hafnarstjóra.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 17. desember s.l., þar sem hann leggur fram drög að nýrri starfslýsingu hafnarstjóra, eldri starfslýsingu frá 1996 og starfslýsingum hafnarstjóra Hafnarfjarðarhafnar og Hafnarsamlags Norðurlands.

Bæjarráð samþykkir starfslýsinguna, en Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarráðsmaður K-lista, situr hjá með tilvísun til bókunar sinnar við 5. lið í fundargerð hafnarstjórnar frá 11. desember s.l.

10. Bréf fjármálastjóra. – Sparisjóður Bolungarvíkur, aukning stofnfjár.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 17. desember s.l., varðandi aukningu stofnfjár í Sparisjóði Bolungarvíkur, samkvæmt bréfi Sparisjóðs Bolungarvíkur frá 8. nóvember s.l. Í bréfinu eru færð fram rök fyrir því að bæjarsjóður Ísafjarðarbæjar neyti ekki forkaupsréttar í aukningu stofnfjár í Sparisjóði Bolungarvíkur.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti í aukningu stofnfjár í Sparisjóði Bolungarvíkur.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 10:27

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.