Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

274. fundur

Árið 2001, mánudaginn 10. desember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fulltrúar úr stjórn Edinborgarhúss mæta á fund bæjarráðs.

Liðurinn fellur niður að sinni að ósk forsvarsmanna Edinborgarhúss..

2. Tilboð bankastofnana í ávöxtun fjármuna fyrir bæjarsjóð.

Tekin fyrir tilboð bankastofnana í ávöxtun fjármuna fyrir bæjarsjóð. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram gögn á fundinum, sem farið er með sem trúnaðarmál. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, mætti til fundar við bæjarráð undir þessum dagskrárlið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og fjármálastjóra að koma með frekari upplýsingar á næsta fund bæjarráðs.

3. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 4/12. 164. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 5/12. 69. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
2. liður. Bæjarráð óskar Vilberg Vilbergssyni til hamingju með titilinn bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar á árinu 2001.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Bréf bæjarstjóra. – Þriggja ára áætlun 2002 – 2004.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. desember s.l., ásamt þriggja ára áætlun 2002-2004 er fylgdi fjárhagsáætlun ársins 2001.

Bæjarráð fór yfir þriggja ára áætlun og lagði fram nokkur áhersluatriði. Bæjarstjóra falið að taka tillit til þeirra og leggja fram tillögu að nýrri þriggja ára áætlun á næsta fundi bæjarráðs.

5. Bréf bæjarstjóra. – Gjaldskrá Funa og samningar við Bolungarvík og Súðavík.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. desember s.l., varðandi gjaldskrá Funa og samninga við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp um sorpbrennslu frá 1997. Bæjarstjóri óskar eftir samþykki bæjarráðs fyrir því að taka upp viðræður við ofangreind sveitarfélög um endurskoðun á samningum vegna sorpbrennslu.

Bæjarráð samþykkir beiðni bæjarstjóra um að fara í viðræður við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp.

6. Bréf Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða. – Atvinnuleysisskráning.

Lagt fram bréf Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða dagsett 3. desember s.l., varðandi atvinnuleysisskráningu í sveitarfélaginu tímabilið 1. janúar 2002 til 31. desember 2003. Bréfinu fylgja drög að samningi um atvinnuleysisskráningu á Suðureyri og Þingeyri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi við Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða.

7. Kristinn L. Aðalbjörnsson. – Ísafjarðarvegur 2, neðri hæð, Hnífsdal.

Lagt fram bréf frá Kristni Leví Aðalbjörnssyni, Barónsstíg 27, Reykjavík, dagsett 6. desember s.l., þar sem hann spyrst fyrir um hvort til greina komi að fá keypta eignina Ísafjarðarvegur 2, neðri hæð, Hnífsdal.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að auglýsa eignina til sölu.

8. Bréf rekstrarstjórnar Stjórnsýsluhúss. – Rekstrarframlög 2002.

Lagt fram bréf rekstrarstjórnar Stjórnsýsluhússins á Ísafirði, dagsett 29. nóvember s.l., þar sem tilkynnt er að á fundi rekstrarstjórnar hafi verið ákveðið að hækka rekstrarframlög um 12% frá og með 1. janúar 2002. Jafnframt er tilkynnt að afnot af fundarherbergi eða fundarsal hafa verið hækkuð. Rekstraraðilar í Stjórnsýsluhúsi fá 50% afslátt af leigu fundarherbergja eða fundarsalar.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara.

9. Tvö kauptilboð í Ránargötu 11 á Flateyri.

Lögð fram tvö kauptilboð er borist hafa í Ránargötu 11 á Flateyri, en eignin var auglýst til sölu í Bæjarins Besta 21. nóvember s.l.
Kauptilboð frá Jenilyn I. Ponce, Ránargötu 11, Flateyri, að upphæð kr. 500.000,-
Í því kauptilboði kemur og fram að til greina komi að gera tilboð í hluta hússins verði sá möguleiki fyrir hendi.
Kauptilboð frá Ólafi Ragnarssyni, Ólafstúni 9, Flateyri, að upphæð kr. 600.000,-

Bæjarráð hafnar báðum kauptilboðum þar sem þau eru talin vera of lág.

10. Bréf Sundfélagsins Vestra. – Stækkun sundlaugar við Austurveg.

Lagt fram bréf frá Sundfélaginu Vestra á Ísafirði dagsett 3. desember s.l., varðandi tillögu um stækkun sundlaugar við Austurveg á Ísafirði.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Ágústi og Flosa ehf., Ísafirði, dagsett 5. desember s.l., þar sem fyrirtækið gerir Ísafjarðarbæ tilboð, í alverki, samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum og húslýsingu að þessari framkvæmd. Tilboðið miðast við byggingarvísitölu 262,6 og stendur til áramóta.
Tilboðsupphæð með vsk. kr. 78.071.600.-
Aukabúnaður með vsk. kr. 13.150.000.-

Bæjarráð þakkar fyrir tilboð frá Ágústi og Flosa ehf., Ísafirði, en með vísan til laga um opinber innkaup og laga um skipan opinberra framkvæmda, leggur bæjarráð til að tilboðinu verði hafnað.
Erindi Sundfélagsins Vestra, tilboði og tillögum Ágústar og Flosa ehf., vísað til fræðslunefndar og umhverfisnefndar til kynningar.

Bæjarráð leggur til að dómnefnd vegna undirbúnings á arkitektasamkeppni fyrir framtíðarhúsnæði fyrir Grunnskólann á Ísafirði taki mið af hugmyndum um viðbyggingu á 25 m sundlaug við núverandi Sundhöll við Austurveg á Ísafirði.

11. Bréf bæjarstjóra. – Tónmenntakennsla í 4. bekk GÍ. og sameiginleg lúðrasveit Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 7. desember s.l., varðandi tónmenntakennslu í 4. bekk Grunnskólans á Ísafirði og sameiginlega lúðrasveit Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar. Í bréfinu gerir bæjarstjóri grein fyri gangi þessa máls og stöðu þess í dag svo sem varðandi hljóðfærakaup að upphæð kr. 1.920.200.- Áætlað var að fjármagna hljóðfærakaup með söfnunarfé, en fyrirsjáanlegt er að það verður ekki á þessu ári. Því óskar bæjarstjóri eftir heimild bæjarráðs til að greiða reikning vegna hljóðfærakaupa að upphæð kr. 1.920.200.- Fjármögnun komi af liðnum ,,ófyrirséð" í fjármagnsstreymi. Inni í ofangreindri fjárhæð er 50% hlutur Bolungarvíkurkaupstaðar í fjármögnun er greiðist Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð heimilar bæjarstjóra að greiða ofangreindan reikning að upphæð kr. 1.920.200.- Bæjarráð felur bæjarstjóra að boða fulltrúa og frumkvöðla verkefnis um stofnun lúðrasveitar Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar á næsta fund bæjarráðs.

12. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. – Friðlýsing æðarvarps að Mýrum, Dýrafirði.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 7. desember s.l., þar sem hann tilkynnir um friðlýsingu æðarvarps í landi sem tilheyrir jörðinni Mýrum í Dýrafirði.

Lagt fram til kynningar.

13. Samb. ísl. sveitarf. – Kynning á þróunarsviði Samb. ísl. sveitarf.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 3. desember s.l., kynning á þróunarsviði Samb. ísl. sveitarf. og ósk um tilnefningu á tengilið við sviðið og upplýsingar um þróunarverkefni.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að sjá um samskipti við þróunarsvið Samb. ísl. sveitarf.

14. Bréf Benedikts Sigurðssonar. – Saga dans-, alþýðu- og dægurlagatónlistar á Vestfjörðum.

Lagt fram bréf Benedikts Sigurðssonar, Bolungarvík, dagsett 3. desember s.l., til sveitarfélaga á Vestfjörðum, þar sem óskað er eftir stuðningi við að taka saman og rita sögu dans-, alþýðu- og dægurlagatónlistar á Vestfjörðum.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

15. Fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá 66. fundi.

Lögð fram fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá 66. fundi er haldinn var þann 5. desember 2001.

Lagt fram til kynningar.

16. Bréf bæjarstjóra. – Foreldrafélag skíðabarna.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. desember s.l., þar sem bæjarstjóri gerir grein fyrir byggingarsamningi Ísafjarðarbæjar og Foreldrafélags skíðabarna frá 3. júní 1998 um byggingu áhaldageymslu undir skíðaskálanum í Tungudal. Jafnframt kynnir bæjarstjóri vinnu við lokauppgjör við Foreldrafélagið, sem er upp á samtals kr. 2.295.352,- þegar tekið hefur verið tillit til viðbótarverka, smærri reikninga, leiðréttinga á viðskiptareikningi og reiknaðir út vextir og verðbætur á ógreiddar greiðslur.

Bæjarráð heimilar bæjarstjóra að ganga frá lokauppgjöri við Foreldrafélag skíðabarna á grundvelli ofangreindra upplýsinga. Bæjarstjóra falið í samráði við fjármálastjóra að finna fjármögnun.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:35

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.