Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

273. fundur

Árið 2001, mánudaginn 3. desember kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 28/11. 141. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf atvinnu- og ferðamálafulltrúa. - Markaðssetning Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf Rúnars Óla Karlssonar, atvinnu- og ferðamálafulltrúa Ísafjarðarbæjar dagsett 30. nóvember s.l., varðandi markaðssetningu Ísafjarðarbæjar sem fundastaðar. Bréf Rúnars Óla er í framhaldi af bréfi Áslaugar Alfreðsdóttur hótelstjóra á Hótel Ísafirði, er tekið var fyrir í bæjarráði þann 12. nóvember s.l. Í bréfinu kemur fram að gott samstarf hafið verið á milli ferðamálafulltrúa og Áslaugar og þessi markaðssetning verið til umræðu í nokkurn tíma. Rúnar Óli rekur í bréfinu stuttlega markmið og leiðir í þessu máli og í lok bréfsins er óskað eftir fjárveitingu að upphæð kr. 200.000.- sérstaklega í þetta verkefni.

Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2002 og leggur áherslu á að komi til útgáfu kynningarefnis verði um víðtækt samstarf að ræða milli Ísafjarðarbæjar og fyrirtækja í ferðaþjónsutu um gerð og kostun þess.

3. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Tilfærsla stöðugilda.

Lagt fram bréf Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, dagsett 30. nóvember s.l., varðandi beiðni um tilfærslu á stöðugildum innan sveitarfélagsins. Í bréfinu er óskað heimildar til að flytja 1,16 stöðugildi af leikskólum er skiptist þannig að 50% stöðugildi fari til Grunnskólans á Þingeyri og 66% stöðugildi fari til Sundlaugar við Austurveg.

Bæjarráð samþykkir beiðni forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu um tilfærslu stöðugilda.

4. Afrit bréfs byggingarfulltrúa til landbúnaðarráðuneytis v/lögbýla.

Lagt fram afrit af bréfi Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, til landbúnaðarráðuneytis dagsett 28. nóvember s.l., þar sem byggingarfulltrúi óskar eftir með tilvísan til samþykktar bæjarráðs frá 11. maí 1998, að Kirkjuból, Kirkjubær og Neðri-Tunga, öll í Skutulsfirði, verði tekin af lögbýlaskrá.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar janúar - október 2001.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 27. nóvember s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar fyrir tímabilið janúar - október 2001. Meðfylgjandi eru yfirlit er sýna nánar rekstur ýmissa deilda og málaflokka.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Foreldrafélags Grunnskólans á Suðureyri.

Lagt fram bréf frá Foreldrafélagi Grunnskólans á Suðureyri dagsett 21. nóvember s.l. Í bréfinu fagnar Foreldrafélagið framkomnum hugmyndum um lausn á lóðamálum Grunnskólans á Suðureyri. Megin efni bréfsins fjallar um það ófremdarástand sem ríkir í íþróttaaðstöðu á Suðureyri fyrir ungmenni og aðra og verði í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir næsta ár gert ráð fyrir úrbótum á þessu ástandi. Foreldrafélagið er reiðubúið til þess að koma að þessum málum á einn eða annan hátt ef það má verða til þess að úr rætist. Bréfinu fylgir viðhorfskönnun er gerð var á Suðureyri, um akstur nemenda Grunnskólans á Suðureyri í íþróttatíma og þá í hvaða íþróttahús í Ísafjarðarbæ. Nei sögðu 11, já sögðu 9 og völdu þeir íþróttahús á Ísafirði.

Bæjarráð vísar erindi Foreldrafélags Grunnskólans á Suðureyri til fræðslunefndar.

7. Bréf fjármálastjóra. - Fjárhagsáætlun 2002 - Gjaldstofnar.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 30. nóvember s.l., ásamt tillögum að gjaldskrám Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2002. Gjaldskrárnar eru fyrir: félags- og fræðslusvið, Skóla- og fjölskylduskrifstofu, stjórnsýslusvið og umhverfissvið. Sumar gjaldskrárnar eru bundnar vísitöluhækkunum, aðrar eru hækkaðar um 8,5% eins og gert er ráð fyrir samkvæmt samþykkt bæjarráðs við undirbúning að fjárhagsáætlun fyrir árið 2002.

Bæjarráð bendir á að kominn er inn nýr flokkur sorpgjalda fyrir minni fyrirtæki. Bæjarráð leggur áherslu á að unnin verði gjaldskrá fyrir búfjáreftirlit.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að framlagðar gjaldskrár verði samþykktar.
Þar sem ekki er gefin út sérstök gjaldskrá fyrir húsaleigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar, leggur bæjarráð til að húsaleiga húsnæðisnefndar verði hækkuð um 8,5% í fjárhagsáætlun 2002.

8. Menntamálaráðuneytið. - Lög um breytingar á lögum um leikskóla.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 23. nóvember s.l., ásamt lögum um breytingar á lögum um leikskóla nr. 78/1994.

Lagt fram til kynningar. Sent fræðslunefnd til kynningar.

9. Bréf frá Skýrr hf. - Rafrænar kosningar.

Lagt fram bréf frá Skýrr hf. þar sem boðað var til fundar s.l. föstudag 30. nóvember, um rafrænar kosningar, á Hótel Loftleiðum á vegum EJS og Skýrr hf.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.