Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

270. fundur

Árið 2001, mánudaginn 12. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefndar 6/11. 162. fundur.
Fundargerðin er í fjórtán liðum.
1. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að úrlausn málsins.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Hótels Ísafjarðar. – Fundinn til Ísafjarðar.

Lagt fram bréf frá Áslaugu S. Alfreðsdóttur, hótelstjóra á Hótel Ísafirði dagsett 7. nóvember s.l., í bréfinu er bent á nauðsyn þess að lengja ferðamannatímann á svæðinu og betri nýtingu fjárfestinga. Þá kemur fram að ráðning ferðamannafulltrúa hjá Ísafjarðabæ hefur sýnt sig að var ákaflega nauðsynleg. Með bréfinu vill bréfritari óska eftir að í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni til kynningar á Ísafirði sem funda og ráðstefnubæ.

Eins og fram kemur hjá bréfritara starfar atvinnu- og ferðamálafulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, sem er í samstarfi með aðilum í ferðaþjónustu á svæðinu. Þá minnir bæjarráð á framlag Ísafjarðarbæjar til ferðamálafulltrúa Vestfjarða í gegnum Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hf. Bæjarráð telur vel koma til greina að fara í frekara samstarf með ferðaþjónustunni um sérstaka markaðssetningu á Ísafjarðarbæ sem funda og ráðstefnubæ. Erindinu vísað til atvinnu- og ferðamálafulltrúa Ísafjarðarbæjar.

3. Bréf Margrétar Karlsdóttur. – Húsnæði Héraðsskólans Reykjanesi.

Lagt fram bréf frá Margréti Karlsdóttur í Reykjanesi, dagsett 8. nóvember s.l., þar sem hún bendir á notagildi húsakosts skólahúsnæðis í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp svo sem fyrir Byggðasafn Vestfjarða og margvíslega aðra starfsemi heimamönnum til handa.

Bæjarráð þakkar bréfið og vísar því til Byggðasafns Vestfjarða.

4. Afrit bréfs Ferðaþjónustunnar Reykjanesi ehf., til ráðuneyta og þingmanna Vestfjarða.

Lagt fram afrit bréfs frá Ferðaþjónustunni Reykjanesi ehf., dagsett 5. nóvember s.l., er sent var menntamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og þingmönnum Vestfjarða. Í bréfinu gerir bréfritari grein fyrir þeirri stöðu sem komin er upp í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, vegna þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að selja húseignir í Reykjanesi og leggja niður starf eftirlitsmanns.

Lagt fram til kynningar.

5. Erindi Trausta Pálssonar. – Forkaupsréttur að Silfurgötu 12, Ísafirði.

Lagt fram erindi er borist hefur frá Trausta Pálssyni, kt. 300167-3659, þar sem hann óskar eftir að Ísafjarðarbær taki afstöðu til hvort bærinn muni neyta forkaupsréttar að fasteigninni Silfurgötu 12, Ísafirði. Hjálagt fylgir aftir af undirrituðum kaupsamningi með afsali.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

6. Bréf Tönsberg kommune. – Nýr bæjarstjóri.

Lagt fram bréf frá Tönsberg kommune dagsett 2. nóvmeber s.l., þar sem tilkynnt er um bæjarstjóraskipti í Tönsberg. Harald Haug Andersen tekur við af Hans Kristian Hogsnes, sem tekið hefur sæti á norska Stórþinginu.

Lagt fram til kynningar.

7. Fundargerðir skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði.

Lagðar fram fundargerðir skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá 64. fundi er haldinn var þann 1. október s.l. og 65. fundi er haldinn var þann 5. nóvember s.l.

Lagt fram til kynningar.

8. Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, Ísafirði. – Margrét Gunnarsdóttir og Ólöf Oddsdóttir, fulltrúar skólanefndar mættar til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð er mættar þær Margrét Gunnarsdóttir og Ólöf Oddsdóttir, fulltrúar skólanefndar Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði. Á þessu ári hefur verið í gildi samningur um styrk frá Ísafjarðarbæ til Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, þar sem Ísafjarðarbær greiðir alls kr. 1.440.000.- á árinu. Um leið og gerð var grein fyrir auknum umsvifum og fjölbreytni í rekstri skólans er óskað eftir hækkun á styrk Ísafjarðarbæjar á árinu 2002.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:20

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.