Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

269. fundur

Árið 2001, mánudaginn 5. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fjárhagsáætlun 2002. – Nýting gjaldstofna. – Gerð grein fyrir stöðu við gerð fjárhagsáætlunar, fjármálastjóri mætir á fund bæjarráðs.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 1. nóvember s.l., varðandi fjárhagsáætlun ársins 2002 og nýtingu gjaldstofna. Í bréfinu er lagt til að álagningarstofnar verði eftirfarandi:

1. Útsvar. Álagning 13,03% sem er hámarksútsvar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum. Hækki um 0,33% frá 2001.
2. Fasteignagjöld.
Fasteignaskattur. A-flokkur 0,400% af fasteignamati húss og lóðar. Lækki úr 0,425% á árinu 2001. B-flokkur 1,50% af fasteignamati húss og lóðar. Lækki úr 1,60% á árinu 2001. Endanleg ákvörðun tekin í byrjun desember nk. þegar endurskoðað fasteignamat fyrir árið 2002 liggur fyrir.
Lóðarleiga. Álagning verði 3,0% af fasteignamati lóðar. Óbreytt frá 2001.
Vatnsgjald. Álagning verði 0,28% af fasteignamati húss og lóðar. Lækki úr 0,29% eða um 0,01 prósentustig frá 2001.
Holræsagjald. Álagning verði 0,18% af fasteignamati húss og lóðar. Hækki úr 0,16% eða um 0,02 prósentustig frá 2001.
Gjalddagar fasteignagjalda verði sjö með mánaðar millibili, fyrsti gjalddagi verði 1. febrúar 2002 og veittur verði 5% staðgreiðsluafsláttur ef öll fasteignagjöldin verði greidd fyrir 20. febrúar. Óbreytt frá 2001. Reglur um afslátt á árinu 2002 af fasteignagjöldum íbúða elli- og örorkulífeyrisþega til eigin nota svo og reglur um styrk til greiðslu fasteignagjalda vegna félags-, menningar- og björgunarstarfsemi taki mið af reglum á árinu 2001.
6. Sorphreinsigjöld.
a. Sorphirðu- og sorpeyðingargjald fyrir íbúðarhúsnæði verði 10.200 kr. á íbúð. Hækki um 8,5% frá 2001.
b. Sorpeyðingargjald. Fyrirtæki og stofnanir, félög og aðrir lögaðilar. Álagning (röðun í álagningarflokka) á lögaðila verði ákveðin nánar samkv. tillögum frá umhverfisnefnd en gjaldskrá hækki um 8,5% frá 2001.
7. Aukavatnsgjald. Hver rúmmetri vatns verði seldur á kr.13 kr. sem er grunngjald miðað við 1. janúar 2001 og taki frá þeim tíma breytingu skv. byggingavísitölu milli álestrartímabila. Óbreytt tilhögun 2002 og á þessu ári.
8. Garðaleiga. Garðaleiga 24 kr. á fermetra. Lágmarksgjald 1.650 kr. Hækki um rúm 9% frá árinu 2001.
9. Dagskrá bæjarstjórnar. Árgjald verði 4.350 kr. Hækki um rúm 8,5% frá 2001.
10. Heilbrigðisgjöld. Innheimt verði gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir mengunareftirlit og fyrir heilbrigðiseftirlit á starfssvæði heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.
11. Hundaleyfisgjald. Hundaleyfisgjald 10.850 kr. fyrir hund. Handsömunargjald 6.000 kr. Hækki um 8,5% frá 2001.
12. Aðrar gjaldskrár fylgi almennum hækkunum tekna samkvæmt frumvarpi til fjárhagsáætlunar 2002 nema þær gjaldskrár sem breytast samkvæmt breytingu verðvísitalna.

Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, er mættur til fundar við bæjarráð og gerði hann grein fyrir efni bréfsins, svo og stöðu mála varðandi vinnu við frumvarp að fjárhagsáætlun ársins 2002.

Tillaga að nýtingu gjaldstofna verður tekin fyrir að nýju á næsta fundi bæjarráðs.

2. Fundargerðir nefnda.

Hafnarstjórn 31/10. 54. fundur.
1. liður. Bæjarráð spyr hvaða athugasemdir hafnarstjórn hafi við hlutdeild hafnarinnar í rekstri bæjarskrifstofu.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. – Eignarhaldsfélag Vestfjarða.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf., dagsett 1. nóvember s.l., ásamt bréfi til stofnhluthafa Eignarhaldsfélags Vestfjarða hf., þar sem kynnt er staða félagsins. Jafnframt fylgir fundarboð þar sem boðað er til fundar um stöðu Eignarhalds- félags Vestfjarða hf., föstudaginn 16. nóvember n.k. kl. 15:00. Fundarstaður verður Þróunarsetur Vestfjarða að Árnagötu 2-4, Ísafirði.

Bæjarráð telur eðlilegt að þeir bæjarfulltrúar sem hafa aðstöðu til mæti á fundinn.

4. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. – Starfsleyfi fyrir fiskeldi.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, dagsett 29. október s.l., þar sem greint er frá umfjöllun heilbrigðisnefndar á átta umsóknum um starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar í Arnarfirði, Dýrafirði og Önundarfirði. Heilbrigðisnefndin samþykkir að veita starfsleyfin að undangenginni auglýsingu og kynningu í fjórar vikur. Þeir sem rétt hafa til athugasemda eru m.a. þeir sem sótt hafa um starfsleyfi svo og forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar eða nálægrar starfsemi, íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar og opinberir aðilar, félög og aðrir sem málið varðar. Skriflegar athugasemdir berist fyrir 5. desember n.k. á skrifstofu HV.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar og felur nefndinni að gera athugasemdir ef einhverjar eru.

5. Afrit af bréfi bæjarstjóra til heilbrigðisráðuneytis. – Heilsugæslustöð á Þingeyri, framkvæmdir við íbúðir fyrir aldraða.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til heilbrigðisráðuneytis dagsett 30. október s.l., er varðar heilsugæslustöðina á Þingeyri og framkvæmdir við íbúðir fyrir aldraða. Í bréfinu staðfestir bæjarstjóri, að Ísafjarðarbær muni greiða sinn hlut í lokaframkvæmdum við heilsugæslustöðina á Þingeyri samkvæmt útreikningum sem lagðir verða fram og samþykktir. Máli sínu til stuðnings vísar bæjarstjóri í bókun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. maí 1999, sem send hefur verið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti í bréfum dagsettum 11. maí 1999 og 8. febrúar 2000.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Hrafnhildar Skúladóttur. – Fjarðargata 5, Þingeyri.

Lagt fram bréf Hrafnhildar Skúladóttur, Þingeyri, dagsett 10. október s.l., þar sem hún tilkynnir að hún hafi horfið frá kauptilboði sínu í Fjarðargötu 5, Þingeyri, dagsettu 19. júní 2001 að upphæð kr. 150.000.-

Bæjarráð samþykkir að leysa tilboðsgjafa frá tilboðinu og bæjarstjóra falið að auglýsa húsið að nýju til sölu.

7. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Verkfall tónlistarskólakennara.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 26. október s.l., til sveitarfélaga sem reka tónlistarskóla. Launanefnd sveitarfélaga sem fer með samninga fyrir hönd sveitarfélaganna hafa borist nokkrar spurningar varðandi framkvæmd verkfallsins og er afstaða launanefndarinnar greind í bréfinu.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Samráðsnefnd um framkvæmd verkfalls tónlistarskólakennara.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 31. október s.l., varðandi samráðsnefnd verkfallsstjórnar FT og FÍN annars vegar og Launanefndar sveitarfélaga um framkvæmd verkfalls tónlistarskólakennara.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Verkfallsboðun Sjúkraliðafélags Íslands.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 27. október s.l., er varðar verkfallsboðun Sjúkraliðafélags Íslands. Í bréfinu kemur fram að boðað hefur verið til 3x3 daga verkfalla á tímabilinu 12. nóvember til 12. desember n.k.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Fundargerð samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags leikskólakennara.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 27. október s.l., ásamt fundargerð 51. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags leikskólakennara er haldinn var þann 18. október s.l.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf Samt. sveitarf. á köldum svæðum. – Fundargerð ársfundar og stjórnarfundar.

Lagt fram bréf frá Samt. sveitarf. á köldum svæðum dagsett 25. október s.l., ásamt fundargerð ársfundar er haldinn var þann 10. október s.l., ávörpum, ályktunum og erindum. Jafnframt fylgir fundargerð stjórnarfundar frá 6. október s.l.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Fundargerð 684. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð 684. stjórnarfundar Samb. ísl. sveitarf. er haldinn var föstudaginn 19. október s.l., að Hótel Höfn, Hornafirði.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf Byggðasafns Vestfjarða, til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og afrit tveggja bréfa til fjárlaganefndar Alþingis.

Lagt fram bréf Byggðasafns Vestfjarða til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, dagsett þann 23. október s.l. Nú í ár fagnar Byggðasafn Vestfjarða 60 ára afmæli sínu, en safnið var stofnað árið 1941 að frumkvæði Bárðar G. Tómassonar, fyrsta skipaverkfræðings Íslendinga. Allt frá árinu 1993 hafa legið fyrir drög að teikningum safnhúss sem reist yrði í Neðstakaupstað í stíl við þau hús sem þar eru nú. Safnið hyggst nú kanna möguleika á fjármögnun slíks húss. Samkvæmt þjóðminjalögum myndi ríkið standa straum af þriðjungi kostnaðar, en einnig mun safnið kanna möguleika á framlagi frá fjárlaganefnd Alþingis. Jafnfram er óskað eftir fulltingi eigenda safnsins við að afla þess fjár sem til þarf svo að hægt verði að hefja framkvæmdir hið fyrsta. Upplýsingar um bygginguna og kostnað við hana má finna í meðfylgjandi greinargerð safnsins og Hjörleifs Stefánssonar arkítekts.
Jafnframt eru lögð fram afrit tveggja bréfa Byggðasafns Vestfjarða til fjárlaganefndar Alþingis, dagsett 26. október s.l., varðandi byggingu safnahúss, viðgerð á eikarbátnum Sædísi og bátnum Gesti, sem líklega er elsti vélbátur sem nú er til á Íslandi.

Lagt fram til kynningar.

14. Bréf frá Edinborgarhúsinu ehf., Ísafirði. – Framkvæmdasýrsla 2001.

Lagt fram bréf frá Edinborgarhúsinu ehf., Ísafirði, dagsett 28. október s.l., ásamt framkvæmdaskýrslu Edinborgarhússins fyrir árið 2001, en hún var send til stjórnar endurbótasjóðs menningarbygginga og menntamálaráðherra. Undirritaðir stjórnarmenn í stjórn Edinborgarhússins ehf., óska eftir fundi með bæjarráði Ísafjarðarbæjar varðandi málefni Edinborgarhússins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að boða stjórnarmenn Edingorgarhússins á fund bæjarráðs.

15. Áskorun tónlistarkennara við Tónlistarskóla Ísafjarðar, til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Lögð fram áskorun tónlistarkennara við Tónlistarskóla Ísafjarðar, til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, dagsett 2. nóvember s.l., þar sem skorað er á bæjarstjórn að beita öllum áhrifum sínum til að Launanefnd sveitarfélaga gangi strax til samninga við tónlistarkennara af fullri alvöru. Áskorun þessi var afhent Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, þann 2. nóvember s.l.

Lagt fram til kynningar.

16. Drög að kaupsamningi við ríkissjóð vegna sölu eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf.

Lögð fram drög að kaupsamningi við ríkissjóð Íslands vegna sölu á eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf. Heildar hlutafé í Orkubúi Vestfjarða hf. er að nafnverði kr. 3.049.914.000-. Hlutur Ísafjarðarbæjar er 31,10% eða kr. 948.523.000.- að nafnverði, en kaupverð ríkissjóðs á eignarhluta Ísafjarðarbæjar er kr. 1.430.600.000.-

Bæjarráð vísar drögum að kaupsamningi um kaup ríkissjóðs á eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf. til umræðu og ákvörðunartöku í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.