Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

266. fundur

Árið 2001, mánudaginn 15. október kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 9/10. 134. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 10/10. 139. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármála- og iðnaðarráðuneyta. - Orkubú Vestfjarða hf.

Lagt fram bréf fjármála- og iðnaðarráðuneyta dagsett 3. október s.l., þar sem ráðuneytin staðfesta móttöku á bréfi Ísafjarðarbæjar dagsettu 28. september s.l., varðandi samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um sölu eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf. Álit ráðuneytanna er að á sé komið bindandi samkomulag milli ríkisins og sveitarfélagsins með samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Jafnframt er tilkynnt að undirbúningur að gerð kaupsamnings sé hafinn og að hann verði tilbúinn til undirritunar síðar í þessum mánuði. Ekki er í bréfinu getið um fyrirvara Ísafjarðarbæjar í samþykkt sinni, né greinargerð er fylgdi bréfinu.

Lagt fram til kynningar.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson bæjarráðsmaður K-lista lagði fram svohljóðandi bókun við 2. lið dagskrár. ,,Hér virðist komið á daginn að varnaðarorð minnihluta bæjarstjórnar við afgreiðslu tilboðs ríkisins í hlut Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf. reyndist á rökum reist. Ríkið gerir ekkert með fyrirvara í samþykkt bæjarstjórnar og niðurstaðan er því sú að Ísafjarðarbær er knúinn til að borga það sem ríkinu þóknast og staðfestir enn og aftur fádæma fyrirlitningu viðkomandi ráðuneyta í samskiptum við Ísafjarðarbæ."

3. Afrit af bréfi bæjarstjóra til fjármála- og iðnaðarráðuneyta vegna OV.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til fjármála- og iðnaðarráðuneyta dagsett 9. október s.l., vegna bréfs sömu ráðuneyta dagsettu 3. október s.l., um samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um sölu eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf., til ríkisins. Bæjarstjóri telur að um hugsanlegan misskilning ráðuneytanna sé að ræða varðandi samþykkt Ísafjarðarbæjar og þá fyrirvara sem gerðir eru í henni. Bæjarstjóri ítrekar því fyrirvara Ísafjarðarbæjar í ofangreindu bréfi sínu og greinir frá góðum samskiptum sveitarfélagsins við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

4. Afrit af bréfi bæjarritara til Íbúðalánasjóðs hf. - Vanskil húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar við Íbúðalánasjóð hf.

Lagt fram afrit af bréfi Þorleifs Pálssonar, bæjarritara, til Íbúðalánasjóðs hf. dagsett 12. október s.l., þar sem bæjarritari mótmælir meintum vanskilum húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar við Íbúðalánasjóð hf., eins og þau eru upp sett í bréfi fjármála- og iðnaðarráðuneyta til Ísafjarðarbæjar dagsettu 23. ágúst 2001, þar sem vanskil eru talin vera um kr. 126 milljónir. Húsnæðisnefnd telur þessi vanskil vera um kr. 40 milljónir.

Húsnæðisnefnd telur að aðeins fjórar fasteignir séu í vanskilum og að vanskil þeirra eigna þurfi að ræða sérstaklega við Íbúðalánasjóð vegna eðli mála. Jafnframt mun ekki hafa verið gengið frá að fullu uppgjöri vegna byggingar á Pollgötu 4, Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Sigurðar Mar Óskarssonar. - Lóðaframkvæmdir við Eyrarskjól.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild, dagsett 11. október s.l., varðandi yfirtöku verksamnings vegna lóðarframkvæmda við Eyrarskjól. Verktaki við lóðaframkvæmdirnar var fyrirtækið Garðamúr ehf., sem hefur verið lagt niður. Óskað er samþykktar bæjarráðs á að fyrirtækið Garðplöntustöð Ásthildar yfirtaki þann hluta verksamnings Garðamúrs er varðar þá verkþætti sem unnir voru sumarið 2001.

Bæjarráð samþykkir ofanritaða beiðni.

6. Bréf Einars Ö. Björnssonar. - Fyrirhuguð kaup á jörðinni Vífilsmýrum.

Lagt fram bréf Einars Arnar Björnssonar, Vífilsmýrum í Önundarfirði, dagsett þann 27. september s.l., þar sem hann óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar vegna fyrirhugaðra kaupa hans á jörðinni Vífilsmýrum í Önundarfirði af ríkissjóði. Jafnframt er lagt fram afrit af bréfi Jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu dagsett 16. júlí s.l., þar sem nefndin samþykkir fyrir sitt leyti kaup Einars á jörðinni.

Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar til umsagnar.

7. Bréf RÚV á Ísafirði. - Svar við fyrirspurn bæjarráðs.

Lagt fram bréf frá Finnboga Hermannssyni, deildarstjóra RÚV á Ísafirði, dagsett 8. október s.l., sem svar við fyrirspurn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 263. fundi þann 24. september s.l., um hugsanlegan niðurskurð fjárveitinga til Svæðisútvarps Vestfjarða.
Í bréfinu kemur fram að mannafli hefur verið skertur um 18% og samdráttur hefur orðið í fjárframlögum til RÚV á Ísafirði, einkum vegna samdráttar í auglýsingatekjum á hlustunarsvæðinu. Deildarstjórum Ríkisútvarpsins hefur verið uppálagt að gæta ýtrasta sparnaðar í rekstri.

Bæjarráð leggur áherslu á mikilvægi öflugra svæðisútvarpa á landsbyggðinni og telur Svæðisútvarp Vestfjarða mikilvægan hlekk í upplýsingamiðlun innan fjórðungsins. Bæjarráð bindur vonir við nýframkomnar hugmyndir um breytingar á starfsemi svæðisútvarpa.

8. Afrit bréfs UMFÍ til HSB vegna 24. Landsmóts UMFÍ árið 2004.

Lagt fram afrit bréfs Ungmennafélags Íslands dagsett 2. október s.l. til HSB, þar sem vitnað er til fundar stjórnar UMFÍ, sem haldinn var þann 27. september s.l. og til bókana á þeim fundi.
Í bókun kemur m.a. skýrt fram að aðalvöllur fyrir 24. Landsmót UMFÍ verði staðsettur í Ísafjarðarbæ. Jafnframt kemur fram og er þá vísað til skýrslu Byggðastofnunar um 24. Landsmót UMFÍ, að uppbygging eigi sér ekki stað annars staðar en í Ísafjarðarbæ. Það er álit stjórnar UMFÍ að engin annar aðili en sveitarfélög hafi bolmagn til að hrinda þessum metnaðarfullu hugmyndum í framkvæmd.

Lagt fram til kynningar.

9. Dagskrá ráðstefnu um málefni vinnuskóla sveitarfélaga.

Lögð fram dagskrá ráðstefnu um málefni vinnuskóla sveitarfélaga, er halda á föstudaginn 19. október n.k., að Eldborg við Svartsengi á Reykjanesi. Boðað er til ráðstefnunnar af Vinnuskóla Reykjavíkur í tilefni af 50 ára afmæli skólans, en hann var stofnaður 4. maí 1951. Samstarfsaðilar eru Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Samb. ísl. sveitarf. og Vinnuskóli Kópavogs.

Lagt fram til kynningar.

10. Samb. ísl. sveitarf. - Bréf samráðsnefndar um veikindarétt.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 8. september s.l., með hjálögðu bréfi frá samráðsnefnd um veikindarétt, þar sem vakin er athygli á nefndinni, hlutverki hennar og skipan.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf Íbúðalánasjóðs hf. - Aukning viðbótarlána.

Lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði hf. dagsett 11. október s.l., þar sem tilkynnt er að Ísafjarðarbær hefur fengið 8 milljónir króna aukningu á kvóta sínum varðandi viðbótarlán til íbúðakaupa á árinu 2001. Heimildinni fylgir sú kvöð að Ísafjarðarbær greiði 5% af úthlutuðum viðbótarlánum í Varasjóð viðbótarlána, eins og lög og reglur kveða á um.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði aukafjárveiting vegna þessa að upphæð kr. 400.000.- er fjármagnist með lántöku.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.