Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

263. fundur

Árið 2001, mánudaginn 24. september kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Erindi landsmótsnefndar v/landsmóts UMFÍ 2004, fulltrúar nefndarinnar mæta á fund bæjarráðs.

Til fundar við bæjarráð eru mættir fulltrúar undirbúningsnefndar um landsmót UMFÍ 2004, þeir Magnús Reynir Guðmundsson, Kristinn Jón Jónsson og Magnús Ólafs Hansson, í framhaldi af bréfi nefndarinnar er tekið var fyrir á 262. fundi bæjarráðs þann 14. september s.l. Fulltrúar HSV í undirbúningsnefninni fylgdu eftir erindi bréfsins til bæjarráðs frá 10. september s.l., þar sem meðal annars kemur fram, að aðalforsendur fyrir því að hægt verði að halda landsmót UMFÍ 2004 á norðanverðum Vestfjörðum sé að byggður verði nýr leikvangur og 25 metra sundlaug í Tungudal í Skutulsfirði og lögðu fram teikningu af þessari hugmynd. Magnús Ólafs Hansson frá HSB kynnti bæjarráði vallaraðstöðu í Bolungarvík og lagði áherslu á að aðalvöllur mótsins yrði í Bolungarvík þar er minnst þörf framkvæmda.

Fram kom í máli bæjarstjóra að unnið sé að erindi varðandi framlag ríkisins til framkvæmda fyrir landsmót UMFÍ 2004, sem lagt verður fyrir Fjárlaganefnd Alþingis á fundi bæjarstjóra og formanns bæjarráð með nefndinni í byrjun október n.k.

2. Drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2002.

Lögð eru fram drög að vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2002. Til fundar við bæjarráð er mættur Þórir Sveinsson, fjármálastjóri. Bæjarstjóri og fjármálastjóri gerðu grein fyrir drögum að vinnuferli.

Bæjarráð leggur áherslu á að við setningu ramma sé miðað við að hlutfall gjalda og tekna raskist ekki.

3. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 18/9. 158. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
4. liður. Bæjarráð mælir með reglum um niðurgreiðslu dagvistargjalda vegna dagvistar barna í heimahúsum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 18/9. 67. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Fundur formanns bæjarráðs og bæjarstjóra með Fjárlaganefnd Alþingis, drög að dagskrá.

Lögð fram drög að dagskrá vegna fundar formanns bæjarráðs og bæjarstjóra með Fjárlaganefnd Alþingis, er verður trúlega í byrjun október n.k. Í drögunum er getið um helstu áhersluatriði í hinum einstöku málaflokkum svo sem í almannavörnum, atvinnumálum, félagsmálum, fræðslu- og menningarmálum, hafnarmálum, heilbrigðis-málum og samgöngumálum svo nokkuð sé nefnt.

Lagt fram til kynningar.

5. Dagskrá fjármálaráðstefnu Samb. ísl. sveitarf.

Lögð fram dagskrá fyrir fjármálaráðstefnu sveitarfélaga er haldin verður dagana 10. og 11. október n.k. 2. hæð Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf tæknideildar. - Varðar framkvæmdir í Engidal.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, sviðsstjóra á tæknideild, dagsett 20. september s.l., er varðar framkvæmdir í Engidal. Í bréfinu er rætt um gerð jarðvegsmana við Funa vegna sjónmengunar út af brotajárni ofl., endanlegri byggingu snjóflóðavarnargarðs fyrir Funa og hugsanlega tenginu þessara verkefna vegna efnisflutnings. Óskað er eftir heimild til að halda áfram við gerð útboðsgagna og útboðs framkvæmda vegna verksins „Snjóflóðavarnir við Funa, lokafrágangur“. Verkið er mögulega styrkhæft frá Viðlagatryggingu Íslands.

Bæjarráð heimilar að haldið verði áfram með verkið og felur bæjarstjóra að ræða við tæknideild um frekari útfærslu þess.

7. Bréf fjármálastjóra. - Skólaskrifstofa Vestfjarða, uppgjör, rekstur.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 20. september s.l., er varðar uppgjör við og rekstur Skólaskrifstofu Vestfjarða. Bréfinu fylgja afrit gagna svo sem bréf frá Lögsýn ehf.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að aukafjárveiting kr. 3 milljónir verði samþykkt og fjármagnist með lántöku.

8. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Ályktanir 46. Fjórðungsþings.

Lagt fram bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga dagsett 19. september s.l., ásamt ályktunum er samþykktar voru á 46. Fjórðungsþingi 24. og 25. ágúst s.l. Í bréfinu er jafnframt vakin athygli á ályktun um aukaþing um samgöngumál sem haldið skal fyrir lok októbermánaðar n.k.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf fjármálastjóra. - Rekstur og fjárfestingar janúar - júlí 2001.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 19. september s.l., yfirlit yfir rekstur og fjárfestinga hjá Ísafjarðarbæ fyrir tímabilið janúar - júlí 2001.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Herdísar M. Hubner. - Gæsla í búningsklefum íþróttahúss við Austurveg á Ísafirði.

Lagt fram bréf Herdísar M. Hubner, deildarstjóra á yngsta stigi við Grunnskólann á Ísafirði, dagsett 16. september s.l. og varðar gæslu í búningsklefum í íþróttahúsinu við Austurveg á Ísafirði. Erindi bréfsins er að komið verði á aukinni gæslu einkum fyrir nemendur í 1. - 4. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði.

Bæjarráð vísar erindinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

11. Erindi vísað frá bæjarstjórn. - Lokauppgjör vegna Grænagarðs.

Lagt fram að nýju erindi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett 31. ágúst s.l., er tekið var fyrir á 262. fundi bæjarráðs þann 14. september s.l. og vísað síðan aftur til bæjarráðs á 103. fundi bæjarstjórnar þann 20. september s.l.
Erindið varðar lokauppgjör vegna uppkaupa á húseigninni Grænagarði við Seljalandsveg á Ísafirði.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu sína á ofangreindu erindi á 262. fundi sínum þann 14. september s.l.

12. Erindi vísað frá bæjarstjórn. - Auðlindagjald á sjávarútveginn.

Lagt fram að nýju í bæjarráði bréf frá Einari Val Kristjánssyni, dagsett 5. september s.l., er varðar hugsanlega álagningu auðlindagjalds á sjávarútveginn. Bréfið var áður fyrir tekið á 262. fundi bæjarráð og umræðu vísað til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn samþykkti á 103. fundi sínum þann 20. september s.l., að vísa bréfinu aftur til bæjarráðs til frekari umfjöllunar.

Lagt fram til kynningar.

13. Dagskrá ráðstefnu um atvinnumál 29. september 2001.

Lögð fram dagskrá ráðstefnu um atvinnumál í Ísafjarðarbæ er haldin verður þann 29. september n.k. í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði og hefst kl. 13:00 Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða standa fyrir ráðstefnunni.

Lagt fram til kynningar.

14. Ályktun Verkalýðsf. Húsavíkur. - Svæðisútvarp Norðurlands.

Lögð fram af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, ályktun Verkalýðsfélags Húsavíkur, þar sem mótmælt er niðurskurði á rekstrarframlagi til svæðisútvarps Norðurlands, er veldur styttingu útsendingartíma og fækkun starfa við svæðisútvarpið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna stöðu mála svæðisútvarpi Vestfjarða og leggja upplýsingar fyrir næsta fund bæjarráðs.

15. Fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði 11. september 2001.

Lögð fram fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá fundi er haldinn var þann 11. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

16. Samb. ísl. sveitarf. - 1. fundargerð samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 14. september s.l., ásamt 1. fundargerð samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga.

Lagt fram til kynningar.

17. Byggðakvóti yfirstandandi fiskveiðiárs.

Lagt fram bréf sent frá Nýsir hf., varðandi ráðstöfun Byggðastofnunar á byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs. Byggðastofnun stefnir að því að úthluta byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs sem fyrst. Úthlutunin verður byggð á samningi um úthlutun byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs, sem stofnunin gerði til 5 ára við fiskverkunina Fjölnir á Þingeyri og Vísi hf. og sveitarfélagið Ísafjarðarbæ. Gert er ráð fyrir að aðilar fái áfram sömu úthlutun enda hafi þeir staðið við öll skilyrði fyrrgreinds samnings. Þess er farið á leit við Ísafjarðarbæ sbr. 6. gr. fyrrgreinds samnings, að sveitarfélagið láti í ljós álit sitt á því hvort skilyrði fyrrgreinds samnings og afleiddra samninga hafi verið efnd á síðasta fiskveiðiári og hvort forsendur séu fyrir því að úthluta aftur á grundvelli þeirra til sömu aðila.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir greinargerð frá Fjölni hf., Þingeyri.

18. Greint frá viðræðufundi fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum við fulltrúa ríkisins þann 21. september s.l., um málefni Orkubús Vestfjarða.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, greindi frá fundi viðræðunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga við fulltrúa ríkisins, um málefni Orkubús Vestfjarða hf., er haldinn var þann 21. september s.l. í Reykjavík. Jafnframt lagði bæjarstjóri fram afrit af bréfi fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis til viðræðunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga dagsett sama dag, þar sem gerð hefur verið breyting á 2. lið í tilboði ríkisins í Orkubú Vestfjarða hf. frá 23. ágúst 2001. Breytingin er í því fólgin að fallið er frá því að lækka lán í skilum í húsnæðiskerfinu, en í stað þess greiðir ríkissjóður við undirritun kaupsamnings inn á biðreikning í nafni sveitarfélagsins þá fjárhæð er greinir í lið 2 í fyrra tilboði vegna endurskipulagningar félagslega íbúðakerfisins í viðkomandi sveitarfélagi. Höfuðstóll þessa biðreiknings sem stofnaður skal í viðurkenndri fjármálastofnun samkvæmt nánari tilvísan sveitarfélagsins skal standa óhreyfður, en til tryggingar skuldbindingum sveitarfélagsins vegna félagslega íbúðakerfisins, þar til fyrir liggja og til framkvæmda koma ákvarðanir um endurskipulagningu félagsleg íbúðakerfisins fyrir landið í heild.
Frestur til að svara tilboði ríkisins svo breyttu framlengist til kl. 16:00 föstudaginn 28. september n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til aukafundar í bæjarstjórnar er haldinn verður fimmtudaginn 27. september n.k. kl. 13:00 og boðaður með dagskrá.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.