Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

262. fundur

Árið 2001, föstudaginn 14. september kl. 13:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Erindi landsmótsnefndar v/landsmóts UMFÍ 2004.

Lagt fram bréf landsmótsnefndar dagsett 10. september s.l., vegna væntanlegs landsmóts UMFÍ árið 2004 á norðanverðum Vestfjörðum. Í bréfinu er gerð grein fyrir skipan undirbúningsnefndar, en hún er skipuð tveimur fulltrúum frá hvoru héraðssambandi HSV og HSB, sem verða hinir formlegu mótshaldarar, einum fulltrúa frá UMFÍ og einum fulltrúar frá hverju eftirtalinna sveitarfélaga, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhreppi. Í lok bréfsins er óskað eftir viðræðum við bæjarráð Ísafjarðarbæjar um landsmótshald UMFÍ 2004.
Björn Helgason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, kom til fundar við bæjarráð undir þessum lið dagskrár.

Bæjarráð óskar eftir að fulltrúar landsmótsnefndar mæti á næsta fund bæjarráðs til viðræðna um efni bréfsins.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 9/9. 157. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
8. liður. Bæjarráð óskar frekari upplýsinga um drög að reglum um félagsþjónustu í Ísafjarðarbæ.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 12/9. 137. fundur.
Fundargerðin er í þrettán liðum.
8. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við skólastjórnendur í Ísafjarðarbæ um sameiginlegt átak í umhverfismálum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Tillaga bæjarstjórnar frá 102. fundi, vegna samgöngunefndar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 102. fundi varðandi hugmyndir samgöngunefndar Ísafjarðarbæjar. ,,Samgöngunefnd Ísafjarðarbæjar. Bæjarstjórn samþykkir að vísa hugmyndum samgöngunefndar til bæjarráðs, sem fari yfir þær ásamt fulltrúum frá Bolungarvík og Súðavíkurhreppi. Bæjarráð leitist við að ná sameiginlegri niðurstöðu með fulltrúum þessara sveitarfélaga."

Bæjarritari upplýsti að send hafi verið bréf til ofangreindra sveitarfélaga um samþykkt bæjarstjórnar og þess óskað að samband verði haft við bæjarstjóra sé áhugi þeirra fyrir hendi.

4. Bréf Lögfræðiskrst. Tryggva Guðmundssonar ehf. - Viðbótarlán Íbúðalánasjóðs 2001.

Lagt fram bréf frá Lögfræðiskrifstofu Tryggva Guðmundssonar ehf., dagsett 12. september s.l., þar sem bent er á mikilvægi þess fyrir fasteignamarkað í Ísafjarðarbæ, að bærinn geti lagt til veitingu viðbótarlána frá Íbúðalánasjóði til kaupa á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Kvóti Ísafjarðarbæjar hjá Íbúðalánasjóði sem var kr. 23.200.000.- er nú að mestu búinn. Í bréfinu hvetur bréfritari til að fengin verði viðbótarkvóti fyrir þetta ár, ásamt því að séð verði til að þessi lán fáist á næsta ári.

Bæjarráð felur bæjarritara að kanna hjá Íbúðalánasjóði hvort til greina komi að fá aukningu á þeim viðbótarlánakvóta er Ísafjarðarbær fékk á þessu ári.

5. Bréf Íbúðalánasjóðs. - Viðbótarlán 2002.

Lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði dagsett 11. september s.l., þar sem tilkynnt er að umsóknarfrestur fyrir viðbótarlán frá Íbúðalánasjóði á árinu 2002, rennur út þann 1. október n.k.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði dagsett 11. september s.l., þar sem tilkynnt er að umsóknir um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur skulu berast sjóðnum fyrir 1. október n.k. Um er að ræða byggingar eða kaup á komandi ári.

Bæjarráð felur bæjarritara að ganga frá umsóknum vegna ársins 2002.

6. Kauptilboð í íbúð að Fjarðarstræti 55, Ísafirði.

Lagt fram kauptilboð frá Ingu Láru Þórhallsdóttur í íbúð að Fjarðarstræti 55 á Ísafirði, kaupverð er kr. 7.500.000.- Íbúðin er í eigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir kauptilboðið.

7. Bréf Kristjáns Andréssonar. - Jörðin Meðaldalur í Dýrafirði.

Lagt fram bréf frá Kristjáni Andréssyni, Skaftahlíð 4, Reykjavík, dagsett 10. september s.l., þar sem hann, fyrir hönd Helga Andréssonar, Gunnars B. Gunnarssonar, Andrésar F. Kristjánssonar og sín, spyrst fyrir um hvort Ísafjarðarbær muni nýta forkaupsrétt vegna sölu á 40,44% hlut í jörðinni Meðaldal í Dýrafirði, seljendur eru Friðrik Kristjánsson, Brynjar Þ. Friðriksson og Bjarney Friðriksdóttir.
Bréfinu fylgja afrit afsala svo og afrit af bréfi Jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu, þar sem hún samþykkir söluna fyrir sitt leyti.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Ísafjarðarbær neyti ekki forkaupsréttar.

8. Bréf bæjarritara. - Endurskoðun lögreglusamþykktar Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 6. september s.l., ásamt frumvarpi að lögreglusamþykkt fyrir Ísafjarðarbæ. Frumvarpið er unnið af nefnd er bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skipaði á s.l. ári og hefur hún notið aðstoðar Ólafs Helga Kjartanssonar, sýslumanns og lögreglustjóra á Ísafirði.

Bæjarráð vísar frumvarpi að lögreglusamþykkt fyrir Ísafjarðarbæ til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

9. Bréf Guðmundar B. Hagalínssonar. - Smölun á Ingjaldssandi.

Lagt fram bréf Guðmundar B. Hagalínssonar dagsett 9. september s.l., varðandi fyrirspurn bæjarráðs við 44. fundargerð landbúnaðarnefndar vegna dagsetningu smölunar á Ingjaldssandi á komandi hausti. Í bréfinu koma fram ástæður þess að tilgreindir smaladagar í fundargerð landbúnaðarnefndar voru valdir.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Einars Vals Kristjánssonar. - Auðlindaskattur.

Lagt fram bréf Einars Vals Kristjánssonar dagsett 5. september s.l., varðandi auðlindaskatt, ásamt upplýsingum um hvernig hann hugsanlega muni skiptast á milli byggðarlaga á landsbyggðinni ef hann yrði settur á. Bréfinu fylgir og afrit af samþykkt 9. ársþings Samtaka sveitarf. í Norðurlandskjördæmi vestra, varðandi málið.

Bæjarráð vísar efni bréfsins til umræðu í bæjarstjórn.

11. Afrit bréfs bæjarstjóra til Samb. ísl. sveitarf. - Gamla apótekið.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 5. september s.l., til Samb. ísl. sveitarf. um efnið ,,Gamla apótekið. Menningar og kaffihús ungs fólks á Vestfjörðum." Í bréfinu er þakkað fyrir þær jákvæðu undirtektir sem komið hafa frá Samb. ísl sveitarf., um að tekið verði upp samstarf við Gamla apótekið um fræðslu og forvarnir.

Lagt fram til kynningar.

12. Afrit af bréfi Hæstaréttar til Andra Árnasonar hrl. bæjarlögmanns. Samþykki um áfrýjun máls Andreu S. Harðardóttur til Hæstaréttar.

Lagt fram afrit af bréfi Hæstaréttar Íslands dagsett 7. september s.l., til Andra Árnasonar hrl. bæjarlögmanns, þar sem tilkynnt er að Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjun máls Andreu S. Harðardóttur gegn Ísafjarðarbæ, til Hæstaréttar. Jafnframt er lagt fram afrit af bréfi Andra Árnasonar hrl. til Hæstaréttar Íslands dagsett 3. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf bæjarstjóra. - Tillaga að lokauppgjöri vegna Grænagarðs.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 31. ágúst s.l., þar sem hann gerir tillögu að lokauppgjöri vegna uppkaupa á Grænagarði við Seljalandsveg á Ísafirði.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra og kostnaður verði færður á bókhaldsliðinn 09-25-821-6.

14. Fjárlaganefnd Alþingis. - Fundartími sveitarfélaga hjá fjárlaganefnd.

Lagt fram bréf frá fjárlaganefnd Alþingis dagsett 7. september s.l., þar sem tilgreindur er sá tími sem fjárlaganefnd ráðgerir að gefa sveitarstjórnarmönnum kost á að eiga fund með nefndinni. Um er að ræða 20.-21. og 26.-28. september n.k. Pöntunum verði komið á framfæri eigi síðar en 20. september n.k.

Lagt fram til kynningar.

15. Bréf Stjörnubíla ehf. - Almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá Stjörnubílum ehf., Ísafirði, dagsett 10. september s.l., þar sem rætt er um útboð vegna almenningssamgangna í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði. Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum varðandi útboðið svo og gögnum er bárust frá tilboðsgjöfum og vinnuferli málsins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

16. Atvinnuþróunarfélagið. - Kynningarátak á landsbyggðinni um möguleika Íslendinga í evrópsku samstarfi.

Lagt fram bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf., dagsett 6. september s.l., þar sem upplýst er að dagana 10. - 21. september n.k. verður farið í öflugt kynningarátak á landsbyggðinni um möguleika Íslendinga í evrópsku samstarfi. Kynningarfundur verður í Þróunarsetri Vestfjarða á Ísafirði miðvikudaginn 19. september n.k. kl. 13-16.

Lagt fram til kynningar.

17. Staða samningaviðræðna Launanefndar sveitarfélaga við Félag tónlistarkennara/Félag ísl. hljómlistarmanna.

Lögð fram greinargerð frá Launanefnd sveitarfélaga um stöðu mála í samningaviðræðum Launanefndar við Félag tónlistarkennara og Félag ísl. hljómlistarmanna.

Lagt fram til kynningar.

18. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 681. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 681. stjórnarfundi er haldinn var þann 17. ágúst 2001 að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Lárus G. Valdimarsson.