Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

261. fundur

Árið 2001, mánudaginn 3. september kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Fundargerð ritaði: Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 28/8. 132. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
1. liður. Aðstaða Grunnskólans á Þingeyri. Bæjarráð vísar tillögu fræðslunefndar til fjárhagsáætlunargerðar hvað varðar stíg að húsnæðinu frá skólanum. Bæjarráð samþykkir að bætt verði 36% stöðugildi við skólann og að búnaður að upphæð kr. 200.000 verði keyptur.
Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 28/8. 52. fundur.
Fundargerðin er í þrettán liðum.
Bæjarstjóri upplýsti að nokkra liði vantar á fundargerðina. Fundargerðin verður tekin fyrir að nýju þegar hún hefur verið leiðrétt.

Landbúnaðarnefnd 28/8. 44. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
1. liður. Göngur. Bæjarstjóri sagði frá því að athugasemd hefði borist frá bóndanum á Sæbóli vegna ákvörðunar um smölun 15. og 16. september á Ingjaldssandi.
Bæjarráð óskar eftir skýringu landbúnaðarnefndar á því hvers vegna Ingjaldssandur er eini staðurinn innan Ísafjarðarbæjar þar sem ákvörðun um smölun er tekin innan nefndarinnar en á öðrum stöðum skuli fara eftir niðurröðun í sláturhúsi.
Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Niðurgreiðsla á dagvistargjöldum.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 31. ágúst s.l., vegna afgreiðslu bæjarráðs á 260. fundi þann 27. ágúst s.l. á hugsanlegri niðurgreiðslu á dagvistargjöldum til dagmæðra í Ísafjarðarbæ.
Í niðurlagi bréfsins gerir bæjarstjóri svohljóðandi tillögu að bókun bæjarráðs. ,,Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tekin verði upp niðurgreiðsla dagvistargjalda til dagmæðra í Ísafjarðarbæ. Skóla- og fjölskylduskrifstofu er falið að semja reglur um niðurgreiðsluna og taki reglurnar gildi frá og með 1. september 2001. Kostnaður kr. 680.000.- verði bókaður á viðeigandi lið innan félagsþjónustu og fjármagnist með lántöku."

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

3. Bréf fjármálaráðuneytis/iðnaðarráðuneytis. - Kauptilboð í hlut Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf.

Lagt fram bréf frá fjármálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti dagsett 23. ágúst s.l., þar sem greint er frá kauptilboði ríkissjóðs í eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hf., sem er 31,1% eða kr. 1.430.600.000.- Kaupverð greiðist samkvæmt skilyrðum ríkissjóðs.

Bæjarráð vísar til næsta liðar, nr. 4 varðandi afgreiðslu málsins á þessu stigi.

4. Bréf viðræðunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Gögn vegna Orkubús Vestfjarða.

Lagt fram bréf viðræðunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga dagsett 28. ágúst s.l., sem ritað er til sveitarstjórna á Vestfjörðum frá viðræðuhópi Fjórðungssambandsins um Orkubú Vestfjarða hf. og tilboð ríkissjóðs í eignarhluta sveitarfélaganna. Í bréfinu er bent á ýmis atriði sem rök fyrir því að tilboð ríkisins sé óaðgengilegt, sérstaklega vegna hugmyndar um niðurgreiðslu lána í félagslega húsnæðiskerfinu. Viðræðuhópurinn óskar eftir umboði vestfirskra sveitarfélaga til að halda áfram viðræðum við ríkisvaldið.

Bæjarráð samþykkir að viðræðunefnd Fjórðungssambandsins ræði við ríkisvaldið um þá aðferð sem kynnt er í tilboði þess um niðurgreiðslur lána í félagslega húsnæðiskerfinu. Afstaða Ísafjarðarbæjar er óbreytt. Ekki er fallist á að blanda saman hugsanlegri sölu OV við lausnir í félagslega húsnæðiskerfinu sem leysa þarf á landsvísu.

5. Bréf Báta og búnaðar. - Forkaupsréttur að Stundvís ÍS 883.

Lagt fram bréf frá Bátum og búnaði ehf., Barónsstíg 5, Reykjavík, dagsett 28. ágúst s.l., þar sem óskað er eftir að Ísafjarðarbær taki afstöðu til forkaupsréttar vegna sölu á m.b. Stundvís ÍS 883 frá Ísafirði til Ólafsvíkur.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forkaupsrétti verði hafnað.

6. Afrit bréfs Hæstaréttar. - Áfrýjun dóms Héraðsdóms Vestfjarða í máli Andreu S. Harðardóttur gegn Ísafjarðarbæ.

Lagt fram afrit af bréfi Hæstaréttar Íslands til Andra Árnasonar hrl., bæjarlögmanns, dagsett 27. ágúst s.l., ásamt afriti af bréfi Löggarðs ehf., þar sem lögð er fram beiðni til Hæstaréttar um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Vestfjarða í máli Andreu S. Harðardóttur gegn Ísafjarðarbæ. Bæjarlögmanni er gefinn kostur á að tjá sig um ofangreinda beiðni.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Jóns B. Geirssonar. - Lóðaleigusamningur vegna hluta lands frá Klukkulandi í Dýrafirði.

Lagt fram bréf frá Jóni Bjarna Geirssyni, Bolungarvík, dagsett 30. ágúst s.l., ásamt afriti af leigusamningi um hluta lands frá jörðinni Klukkulandi í Núpsdal, Dýrafirði. Óskað er samþykkis Ísafjarðarbæjar og jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Bæjarráð óskar umsagnar jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu og samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

8. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fjármálaráðstefna 10. og 11. október n.k.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 24. ágúst s.l., þar sem tilkynnt er um fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna er haldin verður á Hótel Sögu í Reykjavík dagana 10. og 11. október n.k.

Bæjarráð ásamt bæjarstjóra og fjármálastjóra mun sitja ráðstefnuna.

9. Samgöngunefnd Ísafjarðarbæjar. - Hugmyndir í samgöngumálum.

Lagðar fram hugmyndir samgöngunefndar Ísafjarðarbæjar um samgöngur í lofti, á sjó og á landi dagsettar í ágúst 2001.

Birna Lárusdóttir er formaður nefndarinnar og gerði hún grein fyrir helstu atriðum sem þar koma fram. Í máli hennar kom fram að tillögur nefndarinnar voru kynntar á fjórðungsþingi á Reykhólum 24. og 25. ágúst sl. Á fjórðungsþingi var samþykkt að halda aukaþing um samgöngumál fyrir lok október n.k.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:20

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.