Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

260. fundur

Árið 2001, mánudaginn 27. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og formaður félagsmálanefndar mæta til viðræðna við bæjarráð um hugsanlega niðurgreiðslu á dagvistargjöldum til dagmæðra í Ísafjarðarbæ.

Til fundar við bæjarráð eru mættar Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og Laufey Jónsdóttir, formaður félagsmálanefndar, til viðræðna um hugsanlega niðurgreiðslu dagvistargjalda til dagmæðra í Ísafjarðarbæ. Lögð voru fram gögn frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu um biðlista, kostnaðarútreikninga og samanburð við nokkur sveitafélög.

Bæjarráð samþykkir að á næsta fundi bæjarráðs þann 3. september n.k., verði lögð fram tillaga til bæjarstjórnar um að tekin verði upp niðurgreiðsla dagvistargjalda til dagmæðra í Ísafjarðarbæ. Bæjarstjóra er falið að koma með tillögu að fjármögnun.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 21/8. 156. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 23/8. 136. fundur.
Fundargerðin er í ellefu liðum.
10. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisnefndar.
Bæjarráð staðfestir aðra liði fundargerðarinnar.

3. Bréf bæjarritara. - Uppkaup á Grænagarði við Seljalandsveg, Ísafirði.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 24. ágúst s.l., þar sem gerð er grein fyrir uppkaupum á Grænagarði við Seljalandsveg á Ísafirði og samþykki Ofanflóðasjóðs um greiðslu á 90% af uppkaupaverði samkvæmt staðgreiðslumati sem er kr. 6.900.000.-

Bæjarráð óskar heimildar Ofanflóðasjóðs til endursölu eignarinnar með takmörkunum á dvalartíma hliðstætt því sem er í húsum í Hnífsdal og Tungudal.
Bæjarstjóra falið að vinna drög að lokauppgjöri og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

4. Bréf bæjarritara. - Almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 24. ágúst s.l., þar sem gerð er grein fyrir að borist hafa upplýsingar frá tilbjóðendum í almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði, samkvæmt beiðni bæjarráðs frá 258. fundi. Farið verður með innsend gögn sem trúnaðarmál.

Á grundvelli framlagðra gagna er það ákvörðun bæjarráðs að taka tilboði Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna ehf., Ísafirði, í almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði, að upphæð kr. 93.270.667.-

Bæjarráð felur bæjarstjóra að tilkynna öðrum tilboðsgjöfum um ákvörðun bæjarráðs í samræmi við ÍST 30:1997

5. Bréf formanns félagsmálanefndar. - Styrktarsjóður EBÍ.

Lagt fram bréf Laufeyjar Jónsdóttur, formanns félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar dagsett 20. ágúst s.l., þar sem greint er frá tillögu félagsmálanefndar um umsókn í Styrktarsjóð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Tillagan er um að sótt verði um styrk til að kynna vímuvarnastefnu Vá Vest.

Bæjarráð velur tillögu félagsmálanefndar sem umsókn Ísafjarðarbæjar í Styrktarsjóð EBÍ árið 2001. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá formlegri umsókn.

6. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Ályktun um vímuefnavandann.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 20. ágúst s.l., þar sem fram kemur ályktun um vímuefnavandann er samþykkt var á stjórnarfundi Samb. ísl. sveitarf. hinn 17. ágúst 2001.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Upplýsingar um störf nefnda.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 20. ágúst s.l., ásamt upplýsingum um stöðu og störf nefnda og starfshópa sem skipaðir eru fulltrúum ríkis og sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. - Skýrsla um starfsemi í Menntasmiðju kvenna á Ísafirði.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 17. ágúst s.l., ásamt skýrslu um starfsemi í Menntasmiðju kvenna á Ísafirði, sem starfaði á tímabilinu 12. febrúar til 5. apríl 2001. Í bréfinu er þakkað fyrir gott samstarf og veittan stuðning.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.