Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

256. fundur

Árið 2001, mánudaginn 30. júlí kl. 18:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Ólafur Kristjánsson, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Ragnheiður Hákonardóttir, stjórnarmaður, koma til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð eru mætt Ólafur Kristjánsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Ragnheiður Hákonardóttir, bæjarfulltrúi, stjórnarmaður í Fjórðungssambandi Vestfirðinga.
Ólafur ræddi fjármál FV og kynnti niðurstöður á endurskoðuðum ársreikningum sambandsins fyrir árin 1998, 1999 og 2000. Jafnframt kynnti Ólafur drög að dagskrá fyrir Fjórðungsþing að Reykhólum þann 24. og 25. ágúst n.k. og óskaði eftir að fá fram viðbrögð við drögum að dagskrá ofl.

Almennar umræður urðu um ofangreind málefni.

2. Fundargerð nefndar.

Félagsmálanefnd (Ad hoc nefnd) 25/7.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Landbúnaðarráðuneytið. - Úrskurður vegna Háls og Villingadals.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneyti dagsett 25. júlí s.l., ásamt úrskurði vegna jarðanna Háls og Villingadals á Ingjaldssandi í Önundarfirði.
Úrskurðarorð eru svohljóðandi. ,,Landbúnaðarráðherra hefur ekki heimild samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976 til að fjalla um eignarétt á jörðum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti sölu á 2 og 2/5 hundruðum í jörðinni Hálsi og 90 álnum í jörðinni Villingadal. Ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar er staðfest."

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf bæjarstjóra til félagsmálaráðuneytis. - Nefnd um endurskoðun á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Lagðar fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til félagsmálaráðuneytis, v/ nefndar um endurskoðun laga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dagsett þann 27. júlí s.l.
Bréfið fjallar um ábendingar vegna væntanlegra breytinga á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga varðandi framlög og úthlutunarreglur sjóðsins.

Lagt fram til kynningar.

5. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða í máli Eiríks Kristóferssonar og Margrétar B. Ólafsdóttur gegn Ísafjarðarbæ.

Lagður fram dómur Héraðsdóms Vestfjarða í máli Eiríks Kristóferssonar og Margrétar B.Ólafsdóttur gegn Ísafjarðarbæ, varðandi Seljaland 9, Ísafirði.
Dómsorð: Stefndi Ísafjarðarbær er sýkn af kröfu stefnanda Eiríks Kristóferssonar og Margrétar B. Ólafsdóttur. Málskostnaður fellur niður.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar. - Landsmót UMFÍ 2004.

Lagt fram bréf frá Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar, dagsett 20. júlí s.l., er varðar væntanlegt landsmót UMFÍ 2004 í Ísafjarðarbæ og þær lagfæringar og úrbætur er gera þarf á aðstöðu Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar á Dagverðardal fyrir þann tíma.

Bæjarráð bendir Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar á, að snúa sér til Héraðssambands Vestfirðinga með málefni er varða væntanlegt landsmót UMFÍ 2004 og önnur málefni er varða aðstöðusköpun.

7. Vinnuskýrsla Rúnars Óla Karlssonar, atvinnu- og ferðamálafulltrúa.

Lögð fram vinnuskýrsla Rúnars Óla Karlssonar, atvinnu- og ferðamálafulltrúa, um helstu verkefni og atburði, sem eru hafa verið eða verða á döfinni. Vinnuskýrslan er dagsett 10. júlí s.l.

Bæjarráð þakkar vinnuskýrslu atvinnu- og ferðamálafulltrúa.
Bæjarráð vill benda á að hraða beri gerð nýrrar heimasíðu fyrir Ísafjarðarbæ, sem hefur verið í burðarliðnum í all langan tíma.

8. Afrit bréfs Önfirðingafélagsins í Reykjavík til lögreglustjóra á Ísafirði og til Slökkviliðs Ísafjarðrbæjar.

Lagt fram afrit af bréfi frá Önfirðingafélaginu í Reykjavík til lögreglustjóra á Ísafirði og til Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar dagsett 22. júlí s.l., varðandi Sólbakka- og Sandshátíð 3. - 6. ágúst n.k.

Lagt fram til kynningar.

9. Mótorsportfélagið. - Svæði fyrir Go Kart bíla.

Lagt fram bréf frá Mótorsportfélaginu kt. 630701-2280 dagsett 24. júlí s.l., þar sem óskað er eftir svæði fyrir Go Kart bíla. Félagið bendir á bílaplanið við skíðaskálann í Tungudal, sem hugsanlega mætti samnýta fyrir Go Kart, hjólaskíði, línuskauta, hjólabretti og fjarstýrða bíla og flugvélar.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

10. Bréf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. - Húsnæði fyrir háskólanám á Ísafirði.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 20. júlí s.l., varðandi húsnæði fyrir háskólanám á Ísafirði. Fræðslumiðstöðin óskar eftir að fá á leigu húsnæði Ísafjarðarbæjar í Hafnarhúsinu, það er húsnæði á efri hæð og greiða fyrir það kr. 30.000,- á mánuði fyrir utan rafmagn og hita.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

11. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Fundargerðir stjórnar. - Fjórðungsþing 24. og 25. ágúst n.k.

Lagt fram bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga, dagsett 20. júlí s.l., ásamt fundargerðum stjórnar FV frá 52., 53. og 54. stjórnarfundi. Í bréfinu er minnt á Fjórðungsþing er haldið verður dagana 24. og 25. ágúst n.k. að Reykhólum á Barðaströnd.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf bæjarstjóra. - Flóttafólk frá El Salvador.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 26. júlí s.l., er varðar flóttafólk frá El Salvador og hugsanlegan styrk frá Ísafjarðarbæ til greiðslu húsaleigu í sex til átta mánuði. Bréfi bæjarstjóra fylgir afrit af bréfi hans um sama málefni dagsett 25. janúar s.l. Viðkomandi aðilar búa í íbúð í eigu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð frestar afgreiðslu erindisins og óskar frekari upplýsinga.

13. Bréf Sigríðar Magnúsdóttur. - Hugmyndir að fjölnotahúsi á Flateyri.

Lagt fram bréf frá Sigríði Magnúsdóttur, forstöðumanni Brynjubæjar, félagsstarfs aldraðra á Flateyri. Í bréfinu er komið á framfæri þeirri hugmynd að breyta húsnæði Ísafjarðarbæjar efri hæð við Hafnarstræti á Flateyri (fyrrum hreppsskrifstofu) og neðri hæð, nú í eigu Eggerts Jónssonar og Laufeyjar Guðbjartsdóttur, í fjölnotahús.

Bæjarráð telur hugmyndir er reifaðar eru í bréfinu forvitnilegar, en telur að mun ítarlegri upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en frekari umræður fari fram um erindið. Bæjarráð óskar eftir nákvæmri greinargerð frá bréfritara um stofnkostnað og rekstur slíks fjölnotahúss.

14. Afrit af bréfi bæjarstjóra til Skóla- og fjölskylduskrifstofu vegna Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Skóla- og fjölskylduskrifstofu dagsett 26. júlí s.l., er varðar verkefni Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram til kynningar.

15. Bréf Margrétar R. Hauksdóttur. - Makaskipti lands að Núpi í Dýrafirði.

Lagt fram bréf frá Margréti R. Hauksdóttur, Ísafirði, dagsett 25. júlí s.l., þar sem hún óskar eftir samþykki Ísafjarðarbæjar á makaskiptum á landi að Núpi í Dýrafirði, fyrir sína hönd og Valdimars Kristinssonar. Bréfinu fylgja áritaðar loftmyndir fyrir og eftir væntanleg makaskipti svo og afrit af undirrituðu makaskiptaafsali dagsettu í júlí 2001.

Bæjarráð samþykkir framlagt makaskiptaafsal. Makaskiptaafsalið sent jarðanefnd til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 21:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.