Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

255. fundur

Árið 2001, mánudaginn 23. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Hafnarstjórn 10/7, 51. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
6. tölul. Bæjarráð samþykkir tillögu hafnarstjórnar og felur bæjarstjóra að semja drög að nýrri starfslýsingu hafnarstjóra áður en staðan er auglýst.
Aðrir liðir fundargerðinnar lagðir fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 11/7, 154. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 18/7, 134. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
3. tölul. Bæjarráð samþykkir tillöguna.
12. tölul. Bæjarráð samþykkir tillöguna.
Bæjarráð staðfestir aðra liði fundargerðarinnar.

2. Vegagerðin – áætlun um Hafnarveg, Ísafirði.

Lögð fram áætlun dags. 3. maí 2001 millum Vegagerðarinnar og Ísafjarðarbæjar um Hafnarveg, Ísafirði, ásamt minnispunktum bæjarstjóra dags. 18. júlí s.l.

Bæjarráð staðfestir áætlunina.

3. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga – fréttatilkynning.

Lögð fram fréttatilkynning frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um starf nefndar sem endurskoða á lög um Jöfnunarsjóð.

Lagt fram til kynningar.

4. Jarðarnefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu – ársreikningur 2000.

Lagður fram ársreikningur árið 2000 jarðarnefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Lagt fram til kynningar.

5. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða – fundargerð.

Lögð fram fundargerð ásamt fylgiskjölum 23. fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðasvæðis frá 29. júní s.l.

Lagt fram til kynningar.

6. Landbúnaðarráðuneytið – Háls og Villingadalur, Ingjaldssandi.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, dags. 9. júlí s.l., ásamt fylgiskjali um mál er varðar jarðirnar Háls og Villingadal á Ingjaldssandi.

Lagt fram til kynningar.

7. Félagsmálaráðuneytið – daggæsla barna í heimahúsum.

Lagt fram dreifibréf til sveitarfélaga, dags. 10. júlí s.l. frá félagsmálaráðuneytinu varðandi reglur um daggæslu barna í heimahúsum.

Bæjarráð vísar bréfinu til skóla- og fjölskylduskrifstofu.

8. Árvekni – ráðstefna um slysavarnir barna.

Lögð fram dagskrá ráðstefnu Árvekni um slysavarnir barna, haldin 31. ágúst nk. í Borgarleikhúsinu, Reykjavík.

Bæjarráð vísar bréfinu til skóla- og fjölskylduskrifstofu.

9. Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson – húsbygging í Engidal.

Lagt fram bréf dags. 13. júlí s.l. frá Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni varðandi húsbyggingu í Engidal á svæði utan skipulagðrar hesthúsabyggðar.

Bæjarráð hafnar að breyta gildandi deiliskipulagi svæðisins en fellst á fyrir sitt leyti að dómkvaddir verði óvilhallir matsmenn sem meti framkvæmdir á vegum bréfritara eins og staða þeirra var þann 9. mars s.l. þegar bæjarstjóri og byggingarfulltrúi gerðu honum grein því fyrir að hestahald væri þar bannað samkvæmt gildandi skipulagi.

10. Skólanefnd Tónlistarskóla Ísafjarðar – fundargerðir.

Lagðar fram fundargerðir skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar frá 23. maí og 11. júlí s.l.

Lagt fram til kynningar.

11. Skólanefnd Tónlistarskóla Ísafjarðar – bókanir og umsögn.

Lagt fram fram bréf dags. 13. júlí s.l. með bókunum í fundargerð skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar frá 11. júlí s.l. Ennfremur lögð fram umsögn dags. 13. júlí s.l. frá stjórnendum Tónlistarskóla Ísafjarðar um tillögu að skipulagsskrá fyrir Prófanefnd tónlistarskóla.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögnina til fræðslunefndar til kynningar og að senda hana til Sambands íslenskra sveitarfélaga samkvæmt beiðni stjórnenda Tónlistarskóla Ísafjarðar.

12. Fjármálastjóri – rekstur og fjárfestingar janúar-maí 2001.

Lagt fram bréf dags. 16. júlí s.l. frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, ásamt fylgiskjölum um rekstur og fjárfestingar bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir tímabilið janúar-maí 2001.

Lagt fram til kynningar.

13. Gamla Apótekið – minnispunktar frá fundum.

Lagðir fram minnispunktar forráðamanna Gamla Apóteksins og bæjarstjóra frá fundum 5. júlí s.l. í Reykjavík með starfsmönnum þriggja ráðuneyta og Rauða kross Íslands.

Lagt fram til kynningar.

14. Sveinn G. Arnarsson – Fjarðargata 5, Þingeyri.

Lagt fram bréf dags. 16. júlí s.l. frá Sveini G. Arnarssyni, þar sem tilkynnt er að hann falli frá fyrri kauptilboði sínu í húseignina Fjarðargötu 5, Þingeyri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til viðræðna við aðra tilboðsgjafa.

15. Hagstofa Íslands – búferlaflutningar janúar-júní 2001.

Lagt fram yfirlit á búferlaflutningum á tímabilinu janúar-júní 2001. Fram kemur að íbúafjöldi í Ísafjarðarbæ jókst um sjö frá fyrra tímabili.

Lagt fram til kynningar.

16. Bæjarstjóri – minnispunktar um Þróunar- og starfsmenntunarsjóð o.fl.

Lagðir fram minnispunktar dags. 20. júlí s.l. frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, varðandi tillögu að stefnu í fræðslu- og starfstengdri menntun og tillögu að reglugerð fyrir Þróunar- og starfsmenntunarsjóð Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir tillögu að stefnu í fræðslu- og starfstengdri menntun og tillögu að reglugerð fyrir Þróunar- og starfsmenntunarsjóð. Bæjarráð vísar umsókn tveggja leikskólastjóra um námsleyfi til framhaldsnáms til stjórnar Þróunar- og starfsmenntunarsjóðs Ísafjarðarbæjar og óskar eftir skjótri afgreiðslu á umsókninni.

17. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða - fundargerðir.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða frá 12. maí (tvær), 22. maí og 5. júlí s.l.

Lagt fram til kynningar.

18. Sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju – sjónmengun í Engidal.

Lagt fram bréf dags. 13. júlí s.l. frá Jens Kristmannssyni og Magnúsi Erlingssyni f.h. sóknarnefndar Ísafjarðarkirkju varðandi sjónmengun af spýtna- og járnhaugum við Sorpbrennslustöðina Funa í Engidal.

Bæjarráð þakkar ábendinguna og felur tæknideild í kjölfar bréfsins og endurtekinna umræðna í bæjarstjórn að semja verklýsingu og bjóða út gerð jarðvegsmana og aðra nauðsynlega jarðvegsvinnu á svæðinu eins og gert er ráð fyrir á gildandi deiliskipulagi.

19. Sjóferðir H. & K. ehf – aðstaða fyrir ferðaþjónustuaðila í Ísafjarðarhöfn.

Lagt fram bréf dags. 18. júlí s.l. frá Hafsteini Ingólfssyni f.h. Sjóferða H. & K. ehf varðandi aðstöðu fyrir ferðaþjónustuaðila í Ísafjarðarhöfn. Ennfremur lagt fram afrit bréfs bæjarstjóra dags. 16. júlí s.l. til Theodórs Theodórssonar, hafnsögumanns Ísafjarðarhafnar. Í bréfi Sjóferða H. & K. ehf er því mótmælt harðlega að breytingar séu gerðar á hafnaraðstöðu þeirra á miðju ferðamannatímabili.

Bæjarráð vísar erindi Sjóferða H. & K. ehf til hafnarstjórnar og leggur áherslu á að samkvæmt hafnarreglugerð ber forráðamönnum skipa og báta, sem leið eiga um og nýta hafnarmannvirki Ísafjarðarhafnar, að fara eftir fyrirmælum hafnarstjóra og hafnarvarða.

20. Þjónustuaðilar í miðbæ Ísafjarðar - bílastæði.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum dags. 17. júlí s.l. undirritað af tólf þjónustuaðilum í miðbæ Ísafjarðar varðandi fjölgun bílastæða í miðbænum.

Bæjarráð vísar til gildandi deiliskipulags og sér ekki ástæðu til breytinga á því.

21. Nýsir hf – rekstur almenningsvagna í Ísafjarðarbæ.

Lögð fram skýrsla dags. júlí 2001 um rekstur almenningsvagna í Ísafjarðarbæ – skólaakstur, unnin af Einari Mathiesen, Nýsi hf.

Bæjarráð felur bæjarstjóra bjóða út almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ á grundvelli lýsingar ferða og ferðatilhögunar í fyrirliggjandi skýrslu Nýsis hf, sem útboðsgögn verða byggð á, og með áorðnum breytingum í ljósi umræðna á fundinum.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:35.

Þórir Sveinsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.