Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

253. fundur

Árið 2001, mánudaginn 2. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Samþykkt var breyting á fyrirliggjandi dagskrá um að gengið yrði til kosninga á formanni og varaformanni bæjarráðs til eins árs.

Þetta var gert:

1. Kosning til formanns og varaformanns bæjarráðs.

Lögð fram tillaga um formann og varaformann bæjarráðs til eins árs. Eftirtaldir hlutu kosningu: Birna Lárusdóttir sem formaður og Guðni Geir Jóhannesson sem varaformaður.

Bæjarráð samþykkti tillöguna.

2. Bæjarstjórn – tillaga um rekstur tónlistarskóla vísað til bæjarráðs.

Til fundar við bæjarráð mætti Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu, til viðræðna um tillögu fræðslunefndar um rekstur tónlistarskóla í Ísafjarðarbæ og sem vísað var til bæjarráðs á 101. fundi bæjarstjórnar. Rætt var um breytingu á rekstrarfyrirkomulagi á tónlistarskólum í Ísafjarðarbæ, um ávinning á sameiningu þeirra, um faglegt samstarf kennara og búsetu þeirra í byggðakjörnunum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra á grundvelli umræðna í bæjarráði og tillögu fræðslunefndar að ganga til viðræðna við forsvarsmenn Tónlistarskóla Ísafjarðar um fyrirkomulag tónlistarkennslu á Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Það fyrirkomulag sem upp verður tekið verði til reynslu til tveggja ára.

3. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 26/6, 8. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
1. tölul.
Bæjarráð lýsir ánægju þinni með fyrirhugaða ráðstefnu og bendir á að kanna þátttöku Ferðamálasamtaka Vestfjarða í ráðstefnunni.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 27/6, 153. fundur.
Fundargerðin er í einum málslið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Fjarðargata 5, Þingeyri - kauptilboð.

Lögð fram kauptilboð í fasteignina Fjarðargötu 5 Þingeyri frá Hrafnhildi Skúladóttur kr. 150.000 og frá Sveini G. Arnarsyni kr. 320.000.

Bæjarráð gengur að tilboði Sveins G. Arnarsonar með þeirri kvöð sem kom fram í auglýsingu um sölu á fasteigninni.

5. Bæjarstjórn – tillaga um námsleyfi leikskólastjóra.

Lögð fram tillaga um launað námsleyfi leikskólastjóra sem vísað var til bæjarráðs á 101. fundi bæjarstjórnar.

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins á meðan beðið er niðurstöðu vinnu við gerð starfsmannastefnu sveitarfélagsins.

6. Golfklúbbur Ísafjarðar - styrkbeiðni.

Lagt fram bréf frá Tryggva Guðmundssyni, formanni Golfklúbbs Ísafjarðar, dagsett 29. júní s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til greiðslu á skuldabréfi vegna kaupa félagsins á húsi í Hnífsdal á árinu 1999.

Bæjarráð hafnar erindinu og bendir á stefnu bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að fjárframlög til einstakra íþróttafélaga skuli fara í gegnum heildarsamtök þeirra, Héraðssamband Vestfirðinga.

7. Héraðssamband Vestfirðinga – fulltrúar í Landsmótsnefnd 2004.

Lagt fram bréf frá Kristni Jóni Jónssyni, formanni HSV, dagsett 27. júní s.l., þar sem óskað er tilnefningar á þremur fulltrúum sveitarfélagana á norðanverðum Vestfjörðum í Landsmótsnefnd 2004.

Bæjarráð tilnefnir forseta bæjarstjórnar Guðna G. Jóhannesson sem fulltrúa Ísafjarðarbæjar.

8. Byggðastofnun – skýrsla um landsmót UMFÍ á norðanverðum Vestfjörðum.

Lögð fram skýrsla Haraldar L. Haraldssonar, Nýsir hf, dagsett í júní 2001 unnin fyrir Byggðastofnun um landsmót UMFÍ á norðanverðum Vestfjörðum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að ræða við menntamálaráðuneytið og Byggðastofnun um mögulegt fjárframlag til uppbyggingar íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu vegna fyrirhugaðs landsmóts.

9. Steinar og Málmar – sorpeyðingargjöld 2001.

Lagt fram bréf frá Ragnheiði Ólafsdóttur, f.h. Steina og Málma félag áhugafólks, dagsett 20. júní s.l., með beiðni um endurskoðun á álagningu sorpeyðingargjalds á fyrirtækið. Ennfremur lagt fram bréf bæjarstjóra dags. 12. júní s.l. til fyrirtækisins.

Bæjarráð hafnar erindinu.

10. Menntamálaráðuneytið – fasteign Holtsskóla í Önundarfirði.

Lagt fram bréf menntamálaráðuneytisins, dagsett 21. júní s.l., varðandi kauptilboð sóknarprestsins í Holti í Önundarfirði o.fl. á Holtsskóla. Í bréfinu kemur m.a. fram "að gildandi lög kveða á um að eigi að selja fasteignir ríkisins beri að auglýsa þær opinberlega til sölu og taka síðan besta tilboði, sé það talið viðunandi."

Bæjarráð óskar eftir að ríkissjóður leysi til sín eignarhluta Ísafjarðarbæjar í fasteign Holtsskóla í Önundarfirði. Bæjarstjóra falið að upplýsa tilboðsgjafa um stöðu mála. Tilboði hollvina Holtsskóla 250.000 kr. í húseignina er hafnað þar sem menntamálaráðuneytið telur að kauptilboð þeirra sé lágt og að eignarhald sé óljóst.

11. Brunabótafélag Íslands – framlag 2001.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum frá Önnu Sigurðardóttur, framkv.stj. BÍ, dagsett 26. júní s.l., með tilkynningu um framlag til Ísafjarðarbæjar vegna ársins 2001 til brunavarna og til greiðslu á tryggingaiðgjöldum.

Lagt fram til kynningar.

12. Umhverfisráðuneytið - fráveitunefnd.

Lagt fram dreifibréf til sveitarfélaga frá Ingimar Sigurðssyni og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur dagsett 21. júní s.l., f.h. fráveitunefndar umhverfisráðuneytisins, með upplýsingum um umsóknarfest um styrki til framkvæmda við fráveitur sveitarfélaga.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

13. Kvenfélagið Hvöt, Hnífsdal - umhverfismál.

Lagt fram bréf frá Lindu Steingrímsdóttur og Margréti Magnúsdóttur, Kvenfélaginu Hvöt Hnífsdal, dagsett 28. júní s.l., varðandi hreinsun og frágang á snjóflóðahættusvæðinu í Hnífsdal.

Bæjarráð leggur áherslu á að farið verði í verkið með þeim hætti sem ákveðið var fyrir tveimur árum í samráði við Ofanflóðasjóð.

14. Byggðastofnun – ársfundur 2001.

Lagt fram dreifibréf frá Byggðastofnun með dagskrá ársfundar stofnunarinnar sem haldinn verður í Árborg 3. júlí nk.

Bæjarráð felur Ragnheiði Hákonardóttur og Guðna G. Jóhannessyni að sækja fundinn.

15. Samband ísl. sveitarfélaga – tillögur byggðanefndar.

Lagt fram dreifibréf dagsett 25. júní s.l. til sveitarfélaga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með tillögum byggðanefndar sambandsins.

Bæjarráð er hlynnt uppbyggingu kjarnasvæða utan höfuðborgarsvæðisins og leggur áherslu á að þau verði a.m.k. þrjú eitt á Vestfjörðum, eitt á Norðurlandi og eitt á Austurlandi.

16. Heilbrigðisstofnunin í Ísafjarðarbæ – fundargerðir.

Lagðar fram fundargerðir 26. – 32. fundar stjórnar Heilbrigðisstofnunar í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram til kynningar.

17. Fasteignamat ríkisins – nýtt fasteignamat og brunabótamat.

Lagt fram dreifibréf til sveitarfélaga ásamt fylgiskjölum frá FMR dagsett 21. júní 2001. Fram kemur í gögnunum að fasteignamat í Ísafjarðarbæ hækkar þann 15. september frá gildandi mati um 9% en brunabótamat lækkar um 4%.

Bæjarráð óskar eftir umsögn umhverfisnefndar um hið nýja mat svo og félagsmálaráðuneytisins á áhrifum á fjárhag almennings miðað við óbreytta álagningarstuðla fasteignaskatts sveitarfélaga.

18. Bæjarstjóri – hugmyndasamkeppni um húsnæði Grunnskólans á Ísafirði.

Lagt fram minnisblað ásamt fylgiskjölum frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 29. júní s.l., varðandi drög að samningi um samkeppnishald um húsnæði Grunnskólans á Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að teknu tilliti til umræðna í bæjarráði að tilnefna fulltrúa í dómnefnd um hugmyndasamkeppni um húsnæði Grunnskólans á Ísafirði.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00.

Þórir Sveinsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Sæmundur Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.