Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

251. fundur

Árið 2001, mánudaginn 18. júní kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 12/6.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 12/6.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf byggingarfulltrúa. - Skipulags- og byggingarmál á Dagverðardal, Skutulsfirði.

Lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dagsett 13. júní s.l., þar sem hann svarar tillögu samþykktri á 98. fundi bæjarstjórnar um úttekt umhverfisnefndar á byggingarrétti og öðrum skipulagsmálum á Dagverðardal í Skutulsfirði.

Bæjarráð þakkar ofangreinda samantekt og óskar eftir að sviðsstjórar umhverfissviðs mæti á næsta fund bæjarráðs til viðræðna um skipulagsmál á Dagverðardal og Tungudal.

3. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Boðun 46. Fjórðungsþings Vestf.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 8. júní s.l., þar sem boðað er til 46. Fjórðungsþings Vestfirðinga dagana 24. og 25. ágúst n.k., að Reykhólum á Barðaströnd. Dagskrá verður send út síðar.

Lagt fram til kynningar.

4. Ráðherraskipuð nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum.

Lagt fram bréf dagsett 14. maí s.l., frá ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Í bréfinu er skorað á fulltrúa allra stjórmálaflokka að taka til umræðu jafnrétti kynjanna í stjórnmálum. Nefndin beinir einnig áskorun sinni til þeirra hreppsnefnda þar sem kosið er óhlutbundinni kosningu.

Lagt fram til kynningar.

5. Dreifibréf Tómasar G. Eggertssonar, tónlistarkennara.

Lagt fram bréf frá Tómasi G. Eggertssyni, tónlistarkennara, dagsett 7. júní s.l., skrifað í framhaldi af fundi er haldinn var á Hótel Ísafirði þann 22. maí s.l., um aukna kennslu á blásturshljóðfæri í tónlistarskólum á norðanverðum Vestfjörðum og stofnun lúðrasveita á svæðinu. Hvatt er til stofnun vinnuhóps á vegum viðkomandi aðila.
Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs, sótti fund varðandi málefnið á Hótel Ísafirði nú í dag og gerði grein fyrir umræðum á þeim fundi.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar.

6. Bréf fjármálastjóra. - Foreldrafélag skíðabarna, uppgjör.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 12. júní s.l., þar sem hann gerir grein fyrir framlagi Ísafjarðarbæjar til Foreldrafélags skíðabarna vegna byggingar skíðaskála í Tungudal, Skutulsfirði. Í bréfinu kemur fram tillaga til að ljúka uppgjöri við Foreldrafélagið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kynna tillögu að uppgjöri fyrir stjórn Foreldrafélags skíðabarna.

7. Stefna Auðuns J. Guðmundssonar gegn Ísafjarðarbæ.

Lögð fram stefna Auðuns J. Guðmundssonar, Heiðarhjalla 37, Kópavogi, gegn Ísafjarðarbæ, dagsett 21. maí s.l. Lögmaður stefnanda er Sigurður G. Guðjónsson hrl. Stefnan varðar lóðaúthlutanir og uppkaupamál eigna í Teigahverfi í Hnífsdal.

Andri Árnason, hrl., bæjarlögmaður, er með málið f.h. Ísafjarðarbæjar. Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

8. Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. - Styrktarsjóður EBÍ.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, vegna Styrktarsjóðs EBÍ dagsett 11. júní s.l. Í bréfinu er greint frá að umsóknir til sjóðsins þurfi að berast eigi síðar en í ágústlok n.k. Bréfinu fylgja reglur fyrir Styrktarsjóð EBÍ ásamt yfirliti um úthlutanir 1996-2000.

Bæjarráð óskar eftir tillögum frá þeim nefndum bæjarins er málið kann að varða.

9. Bréf byggingarfulltrúa. - Lóðaleigusamningur v/Kofrahús.

Lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dagsett 14. júní s.l., er varðar lóðaleigusamning vegna Kofrahús á Skeiði í Skutulsfirði. Bréfinu fylgja drög að grunnleigusamningi ásamt mæliblaði af svæðinu.

Bæjarráð óskar frekari upplýsinga varðandi 5. gr. grunnleigusamnings og frestar afgreiðslu að sinni.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.