Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

249. fundur

Árið 2001, mánudaginn 28. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Nefnd um framtíðarhúsnæði Grunnskólans á Ísafirði mætir til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð er mætt nefnd um framtíðarhúsnæði Grunnskólans á Ísafirði, samkvæmt beiðni bæjarráðs frá 248. fundi. Nefndarmenn eru Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, skólastjóri, Elías Oddsson, formaður fræðslunefndar og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Umræður voru um hugmyndasamkeppni um framtíðarlausn á húsnæðis- og lóðamálun Grunnskólans á Ísafirði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að valin verði eins þrepa leið við hugmyndasamkeppni um framtíðarlausn á húsnæðis- og lóðamálum Grunnskólans á Ísafirði.

2. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 22/5.
Fundargerðin er í tíu liðum.
5. liður. Bæjarráð vísar afgreiðslu á 5. lið fundargerðarinnar til 3. liðar dagskrár.
10. liður. Bæjarráð tekur undir hamingjuóskir fræðslunefndar og fagnar árangri nemenda 10. bekkjar á samræmdum prófum.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 23/5.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Stuðningsyfirlýsing frá starfsmönnum Eyrarskjóls.

Lögð fram stuðningsyfirlýsing frá hluta starfsmanna Eyrarskjóls á Ísafirði, vegna umsóknar Sigurlínu Jónasdóttur um starf leikskólastjóra á Eyrarskjóli.

Á fundi bæjarráðs voru lögð fram tvö bréf varðandi ráðningu í stöðu leikskólastjóra á Eyrarskjóli á Ísafirði. Annað bréfið er frá umsækjanda Sigurlínu Jónasdóttur, aðstoðarleikskólastjóra. Hitt bréfið er frá stjórn foreldrafélagsins á Eyrarskjóli þar sem lýst er yfir stuðningi við Sigurlínu Jónasdóttur í starf leikskólastjóra á Eyrarskjóli.

Með tilvísun til 5. liðar fundargerðar fræðslunefndar frá 127. fundi, þar sem fræðslunefnd mælir með Jónu Lind Karlsdóttur í starf leikskólastjóra byggt á faglegu mati nefndarinnar, leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að Jóna Lind Karlsdóttir verði ráðin leikskólastjóri við leikskólann Eyrarskjól á Ísafirði.

Bæjarráð þakkar fyrir framkomin bréf og felur bæjarstjóra að svara bréfriturum.

4. Vegagerðin. - Umsögn um virkjun á Dagverðardal í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dagsett 21. maí s.l., varðandi umsögn um virkjun á Dagverðardal í Skutulsfirði. Bréfi Vegagerðarinnar fylgir aftir af bréfi þeirra til Valdimars Steinþórssonar, Seljalandsvegi 22, Ísafirði, um sama mál, svo og aftir af bréfi/fyrirspurn Valdimars til Vegagerðarinnar dagsettu 14. maí s.l., auk annara afrita bréfa er málið kann að varða.

Bæjarráð vísar umsögn Vegagerðarinnar til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar til frekari úrvinnslu, þar sem atriði er ekki hafa komið fram áður að mati bæjarráðs koma fram í bréfi Valdimars Steinþórssonar til Vegagerðarinnar. Bæjarráð ítrekar þá afstöðu Ísafjarðarbæjar að umsjá vegar upp Dagverðardal sé í höndum Vegagerðarinnar.

5. Ellen M. Þórólfsdóttir. - Niðurgreiðsla davistunar hjá dagmæðrum.

Lagt fram bréf frá Ellen M. Þórólfsdóttur, dagsett 23. maí s.l., þar sem borin er fram kvörtun vegna þess að í Ísafjarðarbæ eru ekki greidd niður dagvistargjöld hjá dagmæðrum að sögn bréfritara.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð um málið frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

6. Lögreglustjórinn á Ísafirði. - Umsögn um gistiheimili.

Lagt fram bréf lögreglustjórans á Ísafirði dagsett 18. maí s.l., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn um rekstur gisti- og félagsheimilis VEG-Gistingar ehf., Aðalgötu 14, Suðureyri.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

7. Orkubú Vestfjarða. - 24. aðalfundur 1. júní 2001.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða dagsett 16. maí s.l., þar sem boðað er til 24. aðalfundar fyrirtækisins á Ísafirði föstudaginn 1. júní 2001. Fundurinn verður í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar við Austurveg 11, Ísafirði og hefst skráning fulltrúa kl. 13:00 samkvæmt meðfylgjandi drögum að dagskrá. Ísafjarðarbær fer með 4.225 atkvæði á fundinum.

Á fundi bæjarráðs var fram lagt fundarboð dagsett 28. maí 2001, þar sem boðað er til stofnfundar Orkubús Vestfjarða hf. Fundurinn verður haldinn 1. júní 2001 og er reiknað með að hann hefjist kl. 16:00 og verður haldinn í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Bæjarráð samþykkir að allir bæjarfulltrúar mæti á aðalfund Orkubús Vestfjarða þann 1. júní n.k. fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og fari að jöfnu með atkvæði sveitarfélagsins.
Bæjarráð samþykkir að fela Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, að undirrita stofnsamning eigenda hins nýja hlutafélags Orkubú Vestfjarða hf. komi til þeirrar undirritunar. Bæjarfulltrúum einnig falið að sitja stofnfund Orkubús Vestfjarða hf. fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

8. Framkvæmdasjóður Skrúðs. - Skipulagsskrá.

Lögð fram skipulagsskrá fyrir Framkvæmdasjóð Skrúðs í Dýrafirði, undirrituð af menntamálaráðuneyti, Ísafjarðarbæ, Garðyrkjufélagi Íslands, Skógræktarfélagi Dýrafjarðar og Skógræktarfélagi Íslands. Um er að ræða skipulagsskrá er samþykkt hefur verið áður í bæjarstjórn.

Lagt fram til kynningar.

9. Framkvæmdanefnd Skrúðs. - Beiðni um rekstrarstyrk.

Lagt fram bréf frá Framkvæmdanefnd Skrúðs í Dýrafirði dagsett 21. maí s.l., þar sem sótt er um rekstrarstyrk til Ísafjarðarbæjar að upphæð kr. 650.000.- Bréfinu fylgir kostnaðaráætlun fyrir Skrúð yfir árin 2001-2003, ásamt samantekt úr gestabók Skrúðs um gestakomur í garðinn.

Bæjarráð vísar erindi Framkvæmdanefndar Skrúðs til umhverfisnefndar, vegna úrvinnslu styrkja til umhverfismála.

10. Umfjöllun Svæðisútvarps um afgreiðslu bæjarráðs. - Útprentun af frétt á bb.is

Lögð fram útprentun af fréttavef BB bb.is þar sem greint er frá frétt á Textavarpi Ríkisútvarpsins á síðu Svæðisútvarps Vestfjarða um afgreiðslu bæjarráðs á umsókn Skóla- og fjölskylduskrifstofu um aukafjárveitingu til niðurgreiðslu á þjónustu til elli- og örorkulífeyrisþega í Ísafjarðarbæ.
Í umfjöllun BB kemur fram að frétt Svæðisútvarps sé ekki rétt þar sem hún gefur alranga mynd af málinu. Ekki komi fram í frétt á Textavarpi, sú lausn er bæjarráð bendir á og fól bæjarstjóra ásamt forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu að vinna að.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera formlega athugasemd til útvarpsstjóra RÚV vegna fréttar Svæðisútvarps Vestfjarða miðvikudaginn 23. maí s.l., um afgreiðslu bæjarráðs á fundi þess 22. maí s.l.

11. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 678. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð 678. stjórnarfundar Samb. ísl. sveitarf. er haldinn var þann 27. apríl s.l. að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

12. Menntaskólinn á Ísafirði. - Fundargerð 59. fundar skólanefndar.

Lögð fram fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði frá 59. fundi er haldinn var þann 24. apríl s.l. og framhaldið var þann 1. maí s.l.

Lagt fram til kynningar.

13. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2000, til fyrri umræðu.

Lagður er fram í bæjarráði ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2000 til fyrri umræðu.

Bæjarráð vísar ársreikningi Ísafjarðarbæjar og stofnana hans til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 5. júní n.k.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:18

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.