Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

248. fundur

 

Árið 2001, þriðjudaginn 22. maí kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 16/5. 7. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Bæjarráð samþykkir að styrkja Vestfjarðavíking 2001 með sambærilegum hætti og var á síðasta ári. Kostnaður færist á liðinn 15-65-929-1.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 15/5. 149. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
6. liður. Bæjarráð bendir á að í bókun félagsmálanefndar á að vera vísað til fundar bæjarstjórnar þann 3. maí s.l.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 15/5. 49. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Samgöngunefnd 15/5. 5. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 16/5. 130. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar janúar desember 2000.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 16. maí s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar janúar-desember 2000. Fram kemur að ef tekið er tillit til tekju- og kostnaðarliða sem ekki eru í fjárhagsáætlun svo sem sölu hlutabréfa, áfallnar lífeyrisskuldbindingar, reiknaðar verðbætur/uppreikningur lána, þá hefur fjárhagsáætlun staðist án frávika frá heildarniðurstöðu.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með að ekki skuli vera frávik frá fjárhagsáætlun á síðasta ári.

3. Bréf Verkalýðsfélagsins Baldurs. - Kjarasamningur og kjaranefnd.

Lagt fram bréf frá Verkalýðsfélaginu Baldri á Ísafirði dagsett 9. maí s.l., þar sem tilkynnt er í meðfylgjandi afriti af bréfi til Launanefndar sveitarfélaga, að samningar félagsins og Launanefndar sveitarfélaga hafi verið samþykktir.
Jafnframt er í bréfinu tilkynnt tilnefning Vlf. Baldurs í kjaranefnd og vonast er eftir tilnefningum Ísafjarðarbæjar sem fyrst.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Þórir Sveinsson, fjármálastjóri og Þorleifur Pálsson, bæjarritari, verði aðalmenn í kjaranefnd og til vara Sigurður Mar Óskarsson, sviðsstjóri og Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður.

4. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Þjónusta við elli- og örorkulífeyrisþega í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu dagsett 10. maí s.l. og varðar samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 3. maí s.l., um þjónustu við elli- og örorkulífeyrisþega í Ísafjarðarbæ. Miðað við þau verkefni er Skóla- og fjölskyldu- skrifstofu eru falin, með samþykkt bæjarstjórnar, vantar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 til Skóla- og fjölskylduskrifstofu um kr. 374.000.- og er óskað samþykkis bæjarstjórnar fyrir aukafjárveitingu upp á þá fjárhæð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra í samráði við forstöðumann Skóla- og fjölskyldu- skrifstofu að leita leiða til að fjármagan umbeðna aukafjárveitingu innan gildandi fjárhagsáætlunar. Aukafjárveiting ekki samþykkt.

5. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Nefnd um endurskoðun laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 16. maí s.l., er varðar nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis sem hefur það hlutverk að endurskoða III. kafla tekjustofnalaga nr. 4/1995 er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Með bréfinu vill endurskoðunarnefndin hvetja sameinuð sveitarfélög til að koma ábendingum á framfæri við nefndina um atriði er fram koma í bréfinu og önnur sem snúa að reglum Jöfnunarsjóðs og sameiningu sveitarfélaga. Æskilegt er að slíkar athugasemdir berist nefndinni fyrir 1. júní n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfinu og leggja svarbréfið fyrir bæjarráð.

6. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Rekstur sameiginlegs bókasafnskerfis.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 15. maí 2001, þar sem greint er frá umfjöllun stjórnar Samb. ísl. sveitarf. á hugsanlegum rekstri sameiginlegs bókasafnskerfis sveitarfélaga. Bréfinu fylgja gögn er málið varðar.

Lagt fram til kynningar.

7. Ársskýrsla Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. 2000.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf., dagsett 16. maí s.l., þar sem greint er frá nýrri stjórn og varastjórn félagsins. Bréfinu fylgir ársskýrsla Atvinnuþróunarfélagsins fyrir árið 2000.

Bæjarráð þakkar fyrir ársskýrsluna. Lagt fram til kynningar.

8. Hugmyndasamkeppni um framtíðarlausn í húsnæðis- og lóðamálum Grunnskólans á Ísafirði.

Lögð fram drög að bréfi til formanns samkeppnisnefndar Arkitektafélags Íslands varðandi hugmyndasamkeppni um framtíðarlausn á húsnæðis- og lóðamálum Grunnskólans á Ísafirði.

Bæjarráð óskar eftir frekari kynningu á möguleikum varðandi hugmyndasamkeppni og óskar eftir að nefnd um framtíðarhúsnæði Grunnskóla á Ísafirði mæti á næsta fund bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.